14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég skil það, að hæstv. forseti vilji reyna að koma dagskrármálum að og fari því fram á að stytta þessar umr., en það er nú svo, að það er erfitt að neita sér um það að taka þátt hér í umr. um jafnknýjandi mál eins og hér er til umr. nú. Hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, vakti hér athygli á því, að samgöngur við Vestfirði væru sérlega bágbornar eins og nú stæði og sagði, að samgöngum á sjó, a.m.k. við Vestfirði, hefði jafnvel hrakað nú á undanförnum árum. Í þessum efnum þykir mér full ástæða til þess að minna á það ástand, sem er ríkjandi í þessum málum við Austfirði. Það leikur enginn vafi á því, að samgöngum við Austfirði hefur hrakað stórkostlega á undanförnum árum og þó einkum og sérstaklega sjósamgöngum, og það má segja, að þar ríkir hreint öngþveitisástand í flutningamálum á vissum tímum árs. En þannig er háttað víða á Austurlandi eins og flestir hv. alþm. þekkja, að þegar kemur fram á vetur eru aðalbyggðarlögin þar einangruð frá aðalflugvellinum, sem notaður er, og það líða margar vikur og jafnvel mánuðir stundum þannig, að vegir geta ekki talizt færir á milli byggðarlaga. En nú er ástandið hins vegar orðið þannig, að um skipasamgöngur er ekki að ræða, nema með mjög löngu millibili. Þetta er vitanlega alveg óviðunandi ástand, eins og búið er að benda hér á þing eftir þing, og ég álít, að það sé full ástæða til þess að ítreka það enn einu sinni við hæstv. samgmrh., að þegar svona stendur á, verður að skerast í leikinn á þann hátt, að Skipaútgerð ríkisins taki sér leiguskip á þeim tímum árs, þegar greinilega er um skipaskort að ræða og flutningaþörfin kallar á. Þetta ástand er í rauninni alveg óviðunandi.

Ég nefni það sem dæmi, að í stærsta byggðarlaginu á Austurlandi, í Neskaupstað, þar er þessum málum þannig háttað, að flug á að heita þangað einu sinni í viku yfir veturinn og það vill auðvitað falla niður stundum þessa flugdaga og er þá strax komið upp í hálfan mánuð. En það eina vegasamband, sem er til staðarins, er lokað um alilangan tíma á hverjum vetri og þá geta menn séð, hvernig vera muni að standa þar í framkvæmdum og athöfnum ýmsum á þessum stað, þegar svona er búið að samgöngumálum. Ég vil einnig taka undir það, sem hér kom fram, að það er full ástæða til þess að fara fram á það við hæstv. samgmrh., að hann beiti sér fyrir því við stærsta skipafélag landsins, Eimskipafélagið, að það breyti á nýjan leik þeim reglum, sem það hefur tekið upp nú, þar sem félagið er hætt með öllu að annast vöruflutninga með framhaldsfarmgjöldum eða fragt frá Reykjavík og út á land. Þetta veldur mönnum úti á landi, t.d. á Austurlandi, gífurlegum aukakostnaði við að koma þeim vörum heim til sín, sem fluttar eru til landsins með skipum Eimskipafélagsins. Þetta hefur gengið svo langt, að í ýmsum tilfellum hafa menn á Austurlandi þurft að grípa til þess að nota fiskiskip sín, sem hafa verið að störfum annars staðar, til þess að flytja frekar vörur til landsins beint en þurfa að hlíta því að fá vörurnar fluttar til Reykjavíkur og bíða þar tímunum saman og verða síðan að taka á sig nýjan fragtkostnað frá Reykjavík og út á land, af því að um framhaldsfragt á vegum þessa stóra flutningafélags er ekki að ræða til Austurlandsins. Ég álít, að það væri full ástæða til þess, að hæstv. samgmrh. beitti sér fyrir því, að þessum nýju reglum Eimskipafélagsins yrði breytt aftur í fyrra horf og það tæki að sér a.m.k. að annast framhaldsfragt á vörum til a.m.k. einnar hafnar á Austurlandi á svipaðan hátt eins og er enn þá gert til Norðurlandsins.

Ég vil svo aðeins taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá öðrum hv. þm., að ástæða sé til þess, að samgmrh. beiti sér fyrir því að bæta úr samgöngunum við bæði Vestfirði og Austfirði á þeim tímum ársins, þegar samgöngurnar eru lélegastar.