14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Steingrímur Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umr. mikið vandamál Vestfirðinga, en það eru samgöngumálin að vetri til. Reynslan hefur sýnt, að það er ekki nóg að hafa vel byggða og góða vegi eins og er víða á Vestf jörðum, því að á veturna strax í fyrstu snjóum lokast þessir fjallvegir. Vestfirðingar geta heldur ekki treyst á flugferðir. Þær eru til Patreksfjarðar og Ísafjarðar, en við vitum, að yfir vetrarmánuðina geta liðið margir dagar, þegar ekki er flogið. Það eina, sem dugar fyrir Vestfirðinga, er að hafa reglulegar skipsferðir, reglulegar strandferðir yfir vetrarmánuðina.

Ég hef flutt hér á þingi núna frv. til l. um sérstakt Vestfjarðaskip, og er þetta frv. nú í n. Hv. 2. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, staðfesti hér það, sem áður var vitað, að við verðum að vinna fljótt og vel að því að fá öruggar og traustar strandferðir. Ég vil því taka undir orð hans og skora á hæstv. samgmrh. að kynna sér þetta mál mjög ítarlega og sem allra fyrst.