25.01.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér er það að sjálfsögðu áhyggjuefni eins og hv. þm., að togarafloti landsmanna skuli vera bundinn við festar. Hitt er annað mál, að ég held, að það sé mikill grundvallarmisskilningur, að það sé vegna löggjafarinnar frá 1968. Ekki skal ég hefja deilur um það, en ég hef allt aðra skoðun á því heldur en hv. þm. Þeir, sem hér eiga hlut að máli, verða og eru að reyna að jafna þessa deilu. Mér finnst auðvitað rétt, að bæði þingið og þm. og ríkisstj. leggi sinn hlut að máli, ef þess er talin þörf til þess að leysa deiluna, en hins vegar hefur það ekki verið venjulega kappkostað af ýmsum að óska eftir því, að Alþ. grípi þar inn í, en þó má vera, að það sé rétta leiðin. Við höfum þar með mismunandi skoðun á orsökum þessarar deilu, hvort það séu þessi lög frá 1968 eða ekki. Mín skoðun er sú, að ef þau lög hefðu ekki verið sett, hefði ekki verið nein togaraútgerð og ekki nein önnur útgerð á Íslandi á þessu tímabili. Svo mikill grundvallarmisskilningur er okkar á milli. Ég er þó reiðubúinn að taka þátt í því með honum og öðrum mönnum að reyna að jafna þessi deilumál.