28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 2128 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

Starfshættir Alþingis

forseti (BF):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti geta þess, að samkomulag hefur orðið um það milli þingforseta að hafa reglulega fundi í sameinuðu Alþingi framvegis á þriðjudögum, og hefst sú tilhögun í næstu viku. Er þetta gert til þess, að sameinað Alþingi hafi rýmri fundartíma til umráða en verið hefur, þar eð þingflokksfundir á miðvikudögum valda því, að fundartími er naumur þá daga. Þessi breyting á fundartíma Sþ. hefur það í för með sér, að nú þurfa hv. alþm. að skila fsp. til skrifstofunnar í síðasta lagi á laugardögum í stað mánudaga áður. Forseti vonar fyrir sitt leyti, að þessi breytta tilhögun geti orðið til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála í Sþ., enda þótt hann geri sér ljóst, að lenging fundartíma er ekki einhlít í því efni. Þar þarf einnig til að koma meiri hófsemi í ræðutíma hv. alþm. og að þeir taki tillit til málefna hver annars, þannig að unnt sé að koma að sem flestum málum á dagskrá hvers fundar til umr. og afgreiðslu. Forseti vill, að því er varðar fsp., beina þeim tilmælum til hv. alþm. og hæstv. ráðh., að þeir séu minnugir þeirra fyrirmæla 31. gr. þingskapa, að fsp. skuli vera skýrar, um afmörkuð atriði og mál, og við það miðaðar, að hægt sé að svara þeim í stuttu máli. Sjái hæstv. ráðh. sér ekki fært að svara fsp. í stuttu máli, vill forseti beina þeim tilmælum til þeirra, að þeir leggi fram skriflegar skýrslur, svo sem ráð er fyrir gert í því frv. til breyttra þingskapa, sem þrívegis hefur legið fyrir hv. Alþ. og verður nú lagt fram í fjórða sinn. Nokkur fordæmi eru fyrir þessari tilhögun, og telur forseti, að á þennan hátt komi svör hæstv. ráðh. hv. alþingismönnum að meira gagni heldur en með upplestri langra skýrslna í takmörkuðum fyrirspurnatíma sameinaðs Alþingis.

Forseti vonar, að þessi tilmæli hljóti góðar undirtektir þingheims, en fari það hins vegar svo, gegn von forseta, að reynslan sýni, að allur eða mestallur fundartími Sþ. fari eftir sem áður í umr. um fsp., mun forseti taka það til athugunar að ætla fsp. svo sem eins og klukkustund af fundartíma hvers reglulegs fundar, eins og gert er í neðri málstofu brezka þingsins, sem þó kemst yfir að afgreiða 30–40 fsp. á þeim tíma.