27.01.1971
Efri deild: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2360)

181. mál, sala Holts í Dyrhólahreppi

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Mál þetta höfum við 6. þm. Sunnl. leyft okkur að flytja enn í þessari hv. d. Dm. mun að sjálfsögðu vera mjög kunnugt um efni málsins, svo oft sem það hefur verið til umr. og í raun og veru á það að vera upplýst. Það sýnist því vera að bera í bakkafullan lækinn að orðlengja mjög um málið í d. Ég vil taka alveg sérstaklega fram, að þessi hv. d. hefur hvað eftir annað samþ. frv. og því verið vísað til Nd. Hefur þessi afgreiðsla d. verið mjög til sóma og hefur meiri hl. dm. haft glöggt auga á því, að hér er á ferðinni réttlætismál og þó að þetta mál sé ekki í flokki svokallaðra stórmála, þá er það að því leyti til stórmál. En í Nd. hefur svo málið strandað jafn oft og Ed. hefur samþ. það frá sér, hver svo sem þau dularöfl eru hér í hv. Alþ., sem mega sín svo mikils, að slíkt mál, svo auðvelt sem það er til skilnings og áreitnislaust með öllu og með ótal hliðstæður fyrr og síðar, skuli stranda svo á hv. Alþ.

Sölur opinberra jarða hafa svo oft átt sér stað með löggjöf frá Alþ., þannig að meðferðin á þessu máli hefur verið alveg einstök í sinni röð. Það hefur ekki fengizt upplýst enn, hvað það í raun og veru er, sem málið strandar á, en það hefur, eins og ég hef áður sagt, oft verið á ferðinni í hv. Alþ. og hefði þess vegna átt að vera hægt að upplýsa um það, en svo er ekki enn. Að minni hyggju og margra annarra hafa engin þau rök komið fram gegn þessu máli, sem nálgast það að réttlæta þessa meðferð. Þau einu rök, ef rök má kalla, sem fram hafa komið, eru þau, að það sé þjóðarnauðsyn eða ríkissjóði a.m.k. mikill hagur í því, að þessi jörð sé ekki seld. Önnur rök hef ég ekki heyrt um. Það getur í raun og veru hver okkar sem er virt það, hvort það sé að tefla hagsmunum ríkissjóðs í voða eða valda ríkissjóði einhverjum skakkaföllum eða óhagræði, ef af sölu yrði. Það getur hver sem er virt það mál, en það þykist ég vita, að flest okkar séu á því, að svo geti alls ekki verið. Það er þá eitthvað annað, sem er á ferðinni og býr á bak við þessa undanlegu meðferð málsins.

Við flm. frv. viljum enn freista þess að koma þessu máli til fullnaðarúrslita á Alþ. Við eigum von á því, að hv. þdm. hér muni sem fyrr samþykkja frv. fyrir sitt leyti og veita því greiðan gang gegnum deildina, eins og áður og síðan mun reyna á Nd: menn, hvort þeirra augu ljúkast upp fyrir því, hversu mikið réttlætismál það er, sem hér þarf að koma fram. Það væri að minni hyggju til vansæmdar, ef málið fengi ekki fullnaðarafgreiðslu, þegar það er flutt í fjórða eða fimmta skipti á Alþ. Ég vil geta þess, að þm. Sunnl. úr öllum flokkum hafa flutt þetta mál á hinni löngu leið, utan hæstv. landbrh. Hann hefur ekki verið með í flutningi þess og ég held aldrei lagt orð í belg um málið við meðferð þess og er þó málið að minni hyggju honum ekki óskyldast. En hann hefur sem sagt ekki enn lagt orð í belg og sagt sinn hug um það eða hverja meðferð það ætti að fá og ég verð að segja, að mér finnst það fremur óeðlilegt, vegna þess að þetta snertir þó verulega fólk í hans kjördæmi og það fólk, sem er þess háttar, eða a.m.k. einn aðili þess, að full þörf er á að líta til með sanngirni og eðlilegum hætti. Það er einmitt ekkjan, Jóhanna gamla Sæmundsdóttir, sem sækir þetta mál og hefur sótt alla tíð. Það er hún, sem óskar eftir því að fá þessa gömlu jörð sína aftur í sína eign og sinna niðja. Gamla konan er nú víst komin hátt á níræðisaldur, og ég ætla, að það væri ekki illa til fallið, einmitt á þessu þingi, sem getur verið hið síðasta tækifæri til þess að líta til ekkjunnar og máls hennar, sem hún hefur svo lengi borið fyrir brjósti — að afgreiða það á myndarlegan hátt frá Alþ. Og ég hef ekki trú á öðru en Nd. hætti að henda þessu máli í ruslakörfu landbn. og reki af sér slyðruorðið og afgreiði málið. Ég ætla að vænta þess. En eggja þarf ekki meiri hl. þessarar hv. d., því að hann er þrautreyndur í því að koma þessu máli vel og fallega frá sér.

Eitt nýtt hefur komið fram í málinu og ég ætla að geta þess að lokum í þessum orðum mínum. Það er, að hreppsnefnd Dyrhólahrepps, en það er sá hreppur, sem jörðin Holt er í, hefur samhljóða samþykkt að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. Og ég þykist vita, að í þeirri samþykkt sé fólgin nægileg vitneskja um, að hreppnum sé það til hags fremur en baga, að ekkjan fái jörðina keypta og ég held, að það eigi að vera úrslitaorð í þessu máli, þegar þm. velta því fyrir sér, hvort þeir greiða með því atkv. eða ekki, einmitt þessi ályktun, samhljóða ályktun hreppsnefndarinnar, að hún óskar eftir því, að þetta ættfólk fái jörðina aftur til umráða. En eins og ég sagði í upphafi, þá er ástæðulaust, að ég tel, að rekja málið að öðru leyti. Það er fullkunnugt okkur öllum og ég vænti þess, að málið fái eins og áður greiðan gang í gegnum þessa hv. d. Svo óska ég þess, að málinu verði vísað til 2. umr., að lokinni þessari, og til hv. landbn.