15.12.1970
Neðri deild: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

172. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Fyrir þessu frv. þarf ekki langa framsögu eða skýringar. Hv. Ed. hefur afgreitt þetta frv. einróma á aðeins tveimur dögum, en meginefni frv. er það annars vegar að staðfesta þá reglu, sem verið hefur hjá Tryggingastofnun ríkisins á útreikningi tryggingarviknafjölda — reglu, sem gilt hefur um áratugaskeið, en verið vefengd af ríkisskattanefnd, og hins vegar að miða nú framvegis bótahækkanir við dagvinnukaup í stað grunnkaupstaxta, sem er í núgildandi lögum. Það þykir vafasamt að þeirri 8.2% hækkun, sem er gert ráð fyrir í núv. fjárlögum, sé unnt að koma á, þar sem þá hefðu tryggingabætur hækkað á einu ári um 33.6% — eða í upphafi árs um 5.4%, á miðju sumri um 20% og svo aftur nú um 8.2%. Þetta er vefengt, að geti verið heimilt samkv. núgildandi lögum, þar sem einungis má miða við grunnkaupstaxta, og lagt til, að þessu orði verði breytt í dagvinnukaup. Ég vænti þess, að þessi hv. d. afgreiði þetta mál svo fljótt sem kostur er á, því að nauðsynlegt er, að l. taki gildi fyrir áramót, ef af framkvæmd þessara laga á að verða með þeim hætti, sem frv. kveður á um.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.