22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Landbrh. (Ingólfar Jónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin vegna verkfalls stýrimanna, vélstjóra, loftskeytamanna og bryta á íslenzkum farskipum. L. voru gefin út, eftir að verkfallið hafði staðið nokkurn tíma og mörg kaupskip voru bundin í höfninni. Frv. að þessum lögum var sniðið með það fyrir augum að gefa gerðardómnum, sem skipaður skyldi til þess að gera till. um og ákveða kjör þessara manna, svigrúm til þess að bæta kjör þeirra tiltölulega meira heldur en annarra, sem samizt hafði við í vinnudeilunum s.l. vor. Með l. var gert ráð fyrir því, að Hæstiréttur tilnefndi þrjá menn í gerðardóm, sem ákvæði fyrir 1. september 1970 um kaup og kjör stýrimanna, vélstjóra, loftskeytamanna og bryta á íslenzkum farskipum. Hæstiréttur kveður á um, hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins. Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna, og er rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra af einstökum mönnum og embættismönnum.

Samkv. 2. gr. skal gerðardómurinn við ákvörðun kaups og kjara tilnefndra aðila taka til greina í úrskurði sínum kjarasamninga stýrimanna, vélstjóra, loftskeytamanna og bryta frá 22. maí 1969 auk launa— og kjarabreytinga, sem samið hefur verið um milli fulltrúa vinnuveitenda og stéttarfélaga í júní 1970 og gildandi kjarasamninga sambærilegra starfshópa, sem vinna í landi. Þau kjaraatriði, sem samkomulag hefur orðið um á sáttastigi málsins milli fulltrúa nefndra stétta og eigenda farskipa, skulu og tekin til greina í úrskurði gerðardómsins. Eins og þessi gr. er gerð, er gerðardómnum gefið svigrúm til þess að gera athuganir á kjörum yfirmanna á farskipum og gera samanburð á þeim við aðra starfshópa og leiðrétta þannig kjör yfirmanna á farskipum eftir því, sem ástæða þykir til umfram það, sem samizt hefur um við aðrar stéttir. Þá eru samúðarverkföll og önnur verkföll til þess að knýja fram aðra skipan mála bönnuð með lögum þessum.

Ákvarðanir gerðardóms samkv. 1. gr. skulu, að því er varðar greiðslur farskipaeigenda til félaga í þeim starfsmannafélögum, sem um er að ræða í 3. gr., gilda frá gildistöku laga þessara. Að öðru leyti skulu samningar farskipaeigenda og nefndra starfsmannafélaga, dags. 22. maí 1969, að viðbættu 15% álagi á útborgað kaup, eins og það var 1. júní 1970, og fullum vísitölubótum, gilda þar til gerðardómur fellur. Lög þessi gilda til 31. desember 1970 nema nýir samningar hafi áður verið gerðir milli farskipaeigenda og Stýrimannafélags Íslands, Vélstjórafélags Íslands, Félags ísl. loftskeytamanna og Félags bryta. Úrskurður samkv. 1. gr. gildi til sama tíma. Eftir 30. nóv. 1970 er úrskurður gerðardóms uppsegjanlegur af hvorum aðila fyrir sig með eins mánaðar fyrirvara miðað við mánaðamót.

Það var ekki gert ráð fyrir, að þessi lög giltu lengur, en til ársloka 1970 og var það með ráðum gert til þess að gefa þessum aðilum tækifæri til að átta sig á, hver staða þeirra væri. Yfirmenn á farskipum höfðu haldið því fram, að þeirra hlutur væri tiltölulega verri, en hann ætti að vera miðað við sjómenn og aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Vélstjórar höfðu haldið því fram, að þeir væru verr launaðir en vélstjórar hjá Landsvirkjun, Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni og Reykjavíkurborg. Nauðsynlegt var í þessum l. að gefa gerðardómnum svigrúm til þess að bera þetta saman.

Gerðardómurinn hljóðar um það, að grunnkaup þessara manna hækki um 20% og breytingar á samningum og önnur hlunnindi, sem þeim eru veitt, er metið sem næst 10%. Þannig að þessir aðilar hafa fengið allt að 30% hækkun samkv. gerðardómnum. Farmenn á farskipum höfðu flestir sagt upp störfum og gert ráð fyrir því að ganga af skipunum 10. október. En farmenn á skipunum fóru að lögum og þeir héldu áfram að vinna, eftir að þessi lög voru gefin út. L. náðu þess vegna tilgangi sínum, komu í veg fyrir mikið tjón fyrir þjóðina í heild og fyrir skipafélögin. En þar sem ekki var gert ráð fyrir, að l. giltu lengur en til ársloka 1970 og farmönnum var samkv. þeim heimilt að segja upp samningum frá l. desember þessa árs, þá var eðlilegt, að allt væri gert, sem unnt væri, til þess að ná samningum við farmenn og það hefur tekizt. En það hefur tekizt með því að bæta allmiklu við það, sem gerðardómurinn úrskurðaði þessum aðilum til handa.

Mér þykir rétt að rekja sögu málsins nokkuð og gera grein fyrir því, hvers vegna þessi lög voru út gefin, ef einhverjir skyldu ekki hafa það í fersku minni. Það mun kannske einhver segja hér á eftir, að þessi lög hafi verið alveg óþörf og það hafi sýnt sig, að það hafi verið teknir upp samningar við farmennina, þrátt fyrir þessi lög. En það sannar ekkert, að l. hafi verið óþörf, vegna þess að vegna l. fóru skipin úr höfn og hafa ekki stanzað síðan. En að rifja þetta mál upp með nokkrum orðum þykir mér, eðlilegt og minni á, að þegar slitnaði upp úr viðræðum í deilu útgerðar kaupskipanna og Stýrimannafélags Íslands, Vélstjórafélags Íslands, Félags ísl. loftskeytamanna og Félags bryta, kl. 23 þann 29. júní s.l. stóðu samningaviðræður þannig, að útgerðarmenn höfðu boðið almenna kauphækkun 15% auk ýmissa annarra breytinga á samningunum, sem metnar voru þannig, að alls námu kjarabætur allt að 24%. Kröfur stéttarfélaganna voru hins vegar óbreyttar samkv. fundarsamþykkt í félögunum 29. júní, en alls munu upphaflegar kröfur þeirra hafa numið um 100%, þ.á.m. 40% grunnkaupshækkun og 25% vaktaálag, sem er nýtt til sjós. Þegar fyrrgreindum sáttafundi lauk 29. júní, virtust menn, þar á meðal sáttasemjari, sammála um, að tilgangslaust væri að boða til annars sáttafundar, á meðan mál stæðu þannig, enda var það ekki gert.

Verkfall yfirmanna hófst kl. 24 aðfaranótt 21. júní s.l. Það ber að hafa í huga, að verkfall verkamanna við Reykjavikurhöfn hafði þá staðið frá 27. maí til 19. júní. Um kostnað útgerðarfélaganna þarf ekki að deila. Þannig hefur forstjóri Eimskipafélags Íslands fullyrt, að verkfallið hafi kostað það félag 1 millj. kr. á dag, eftir að 9 skip frá félaginu höfðu verið stöðvuð daginn, sem l. voru gefin út. — 1 millj. á dag, sem verkfallið þá kostaði Eimskipafélag Íslands.

Það má vera, að einhverjum hafi þrátt fyrir þetta fundizt óþarfi að ýta skipunum úr vör. Úrskurður gerðardóms þess, sem skipaður var samkv. l. nr. 75 1970, var kveðinn upp 22: ágúst s.l. Meginefni gerðardómsins var, að allt grunnkaup, sem í gildi var 1. júlí 1970, hækkaði um ca. 20%. Auk þess var vinnutími styttur úr 44 klukkustundum í 42 klukkustundir á viku. Ýmsar aðrar breytingar voru gerðar á fyrri samningum, mismunandi eftir stöðum á skipunum og stærð skipanna. Ekki mun farri lagi, að meðalhækkun samkv. gerðardómsúrskurðinum, þegar á öll kjör er litið, hafi numið allt að 30%.

Samningar þeir, sem undirritaðir voru 15. þ. m., gilda til 1. október 1971, eins og flest allir kjarasamningar í landinu aðrir, en gerðardóminum mátti segja upp með eins mánaðar fyrirvara miðað við n.k. áramót, enda höfðu stéttarfélögin samþykkt að nota þá heimild. Meginbreytingarnar frá gerðardómskjörunum voru, að ýmsir kaupliðir voru færðir saman og allt grunnkaup hækkað um 15%. Vegna ýmissa formbreytinga á samningunum, svo sem að orlof er greitt af fleiri kaupliðum en áður, greiðslur í lífeyrissjóð koma af fleiri liðum vegna hækkaðs kaups, greiðslur fyrir ótekna frídaga hækka o.fl., verður heildarhækkunin rúmlega 20%.

Þannig er forsaga þessa máls og þannig er niðurstaða dómsins. Út af fyrir sig er það ágætt, að samningar hafa nú tekizt um það, að vinnufriður verður a.m.k. til hausts 1971. Það hefur verið sagt, að yfirmenn á farskipunum hafi með þessum samningum fengið allt að 50% kauphækkun. Það mun vera rétt, að bein kauphækkun sé um 40% og hvað það er metið, sem er fram yfir í tilfærslum og öðrum hlunnindum, getur verið dálítið erfitt, en nokkurs virði mun það vera. En vélstjórar á skipunum hafa talið fram að þessu, að þeirra hlutur væri öllu lakari en vélstjóra, sem vinna í landi á vöktum. En með þessum samningum, hygg ég, að þeir séu komnir nokkuð upp fyrir þá. Yfirmenn á farskipum hafa yfirleitt talið, að það bil, sem ætti að vera á kjörum yfirmanna og undirmanna, hafi verið of lítið. Um það ætla ég ekki að dæma. En ég vil hins vegar segja það, að það er tæplega eðlilegt, að vélstjórar á farskipum, sem vinna fjarri heimili sínu, séu lægra launaðir en vélstjórar, sem vinna í landi.

Ég veit, að hér hefur verið um mikla kauphækkun að ræða og það stóð á skipafélögunum að ganga að þessum samningum, en þau hafa gert það. Kannske geta þau komið við einhverri vinnuhagræðingu og unnið þetta upp með því móti. En slæmt væri það, ef .það þyrfti að hækka fragtirnar af þessum sökum. Það væri vitanlega miklu betra, ef hægt væri að spara á einhvern hátt í rekstrinum og komast hjá fragthækkunum af þessum sökum.

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til að svo stöddu að fjölyrða meira um þetta. Enda þótt þessi brbl. hafi lokið hlutverki sínu, þá er skylt að leggja þau fyrir hv. Alþ. og láta málið fara í n. Lengra þarf það raunverulega ekki að fara að þessu sinni, þar sem samningar hafa verið gerðir til mun lengri tíma en þessi lög ná til, en það efast enginn um, að l. náðu tilgangi sínum. Þau björguðu miklum verðmætum fyrir þjóðarbúið, þau komu í veg fyrir það, að Eimskipafélag Íslands þyrfti að borga í tap 1 millj. kr. á dag í langan tíma og önnur skipafélög þá í hlutfalli við það og þau hafa orðið til þess, að í framhaldi af þessum l. hafa tekizt samningar á milli skipafélaganna og farmannanna til eins árs eða til sama tíma og aðrar stéttir hafa samið um og það er það, sem hefur mikið að segja, að nú er vinnufriður fram undan a.m.k. í eitt ár.