22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er orðinn árviss atburður, að lögð séu fyrir Alþ. frv. til staðfestingar á brbl., sem hafa verið gefin út í því skyni að afnema um tíma samningsrétt einstakra starfshópa í þjóðfélaginu. Á síðasta þingi var lagt fyrir frv., sem beindist að flugliðum, eins og menn muna. Hæstv. ríkisstj. hafði bannað flugliðum að heyja kjarabaráttu, sem hafði verið ákveðin og í staðinn skipað þeim með lögum að hætta við kjarabaráttuna og hlíta í staðinn úrskurði gerðardóms. Þegar það frv. var lagt fyrir þing í fyrra, vissu allir þm., að l. voru orðin pappírsplagg eintómt. Það stóð ekki snefill eftir af ákvæðum l. Flugliðar höfðu farið fram hjá ákvæðunum um bann við verföllum með því að veikjast allir í senn og upp úr því töldu flugfélögin ráðlegast að semja við flugmenn um allt aðra kosti en þá, sem gert var ráð fyrir í brbl. Það frv., sem hæstv. ríkisstj, lagði fyrir vegna þeirra í fyrra, var ómerkilegt pappírsplagg og ég vakti þá athygli á því við 1. umr., að það væri ósæmandi fyrir Alþ. að afgreiða slíkt mál frá sér. Engu að síður var því máli fylgt eftir til loka og Alþ. látið staðfesta það allt til enda.

Hér liggur nú fyrir annað frv. af hliðstæðu tagi til staðfestingar á brbl., sem sett voru til þess að banna verkfall stýrimanna, vélstjóra, loftskeytamanna og bryta á íslenzkum farskipum.

Ég held, að svo hafi hitzt á, að þessu frv. var dreift hér í þingsalnum sama daginn og yfirmenn á farskipunum höfðu hnekkt gersamlega ákvæðum þessara laga. Þessi brbl. höfðu tvíþættan tilgang: Í fyrsta lagi að banna verkföll og í öðru lagi að skipa gerðardóm og mæla fyrir um það, hvernig hann skyldi haga störfum sínum í einstökum atriðum. Báðum þessum atriðum hefur verið hnekkt gersamlega af farmönnum. Við skulum horfast í augu við það á raunsæjan hátt, að þeir hafa brotið í bága við ákvæðin um verkföll með þeirri einföldu aðferð að segja upp störfum langflestir. Og að sjálfsögðu hafa þeir haft samtök um það. Þeir hafa náð nýjum kjarasamningum, þar sem er um að ræða miklum mun hagstæðari kjör en þau, sem gerðardómurinn hafði kveðið upp.

Eins og hæstv. ráðh. gat um hér áðan, mun úrskurður gerðardómsins hafa falið í sér um það bil 30% kjarabætur, en það, sem nú hefur verið samið um, eftir að farmenn hótuðu því að ganga allir í land, eða svo til allir, eru kjarabætur, sem nema 50—55%. Þetta frv. er þess vegna eins ómerkt pappírsplagg og það, sem okkur var boðið upp á í fyrra. Hins vegar er það lát á hæstv. ráðh. núna, að hann gaf það í skyn, að hann mundi sætta sig við, að málið yrði svæft í n. Hann fer ekki fram á meira í þetta skiptið. En ég held, að það sé alger óþarfi að vísa þessu máli til n. Ég held, að Alþ. eigi að hafa þá sjálfsvirðingu að neita að fjalla frekar um mál af þessu tagi.

Við skulum gera okkur það ljóst, að atburðir eins og þessir, sem ég hef hér minnzt á, eru mikið alvörumál. Þjóðfélag okkar, þetta litla íslenzka þjóðfélag, er þannig gert, að ríkisvald og Alþ. hafa ekki mikil tæki til valdbeitingar gagnvart þegnunum, sem betur fer. Þess vegna verða Alþ. og stjórnvöld ævinlega að haga lagasetningu sinni þannig, að hún brjóti ekki í bága við réttlætisvitund manna. Ef það er ekki gert, þá fá slík mál ekki staðizt, jafnvel þótt þau fái meiri hl. hér á Alþ. En það er fullkomið alvörumál fyrir Alþ. og ríkisstj., ef lögum er hnekkt á þann hátt. Ef hér eru samþ. lög, sem ekki fá staðizt vegna þess að þau brjóta í bága við almenningsálit, þá hafa þau lög verið sett af lítilli eða engri fyrirhyggju og þá á að viðurkenna þá staðreynd umyrðalaust. Við eigum ekki að leika okkur að því ár eftir ár, að sett séu lög, sem ekki standast og ég vil sérstaklega vara þennan hæstv. ráðh. við því að halda áfram á þeirri braut, því að það hefur lent á honum ár eftir ár. að standa í slíkum athöfnum.

Ég tel, að þær aðgerðir, sem framkvæmdar hafa verið, bæði á síðasta ári og eins í ár, til þess að hnekkja lagasetningu, sem skerðir samningsrétt manna, séu ákaflega mikilvægar fyrir verkalýðshreyfinguna í heild. Þær raddir hafa heyrzt á síðustu árum, að það væri ástæða til þess að takmarka vinnulöggjöfina og skerða réttindi verkafólks frá því, sem nú er. Og ég er ekki í neinum vafa um það, að tilburðir hæstv. ríkisstj. til þess að takmarka rétt einstakra starfshópa og það kannske starfshópa, sem ríkisstj. hélt, að nytu ekki neinnar. sérstakrar samúðar meðal almennings, voru tilraunir til þess að undirbúa almenna skerðingu á réttindum verkalýðsfélaga í landinu. Það vita allir, að þannig var komið gagnvart flugliðum og raunar gagnvart yfirmönnum á farskipum einnig, að samningsrétturinn hafði í verki verið af þeim tekinn, vegna þess að atvinnurekendur reiknuðu með því ævinlega, þegar kjarabarátta hófst, að ríkisstj. mundi leysa málin með lagasetningu. Ef annar aðili í kjaradeilu veit, að þannig verður að farið, þá mun hann ekki ganga til neinna raunverulegra samningsviðræðna. Þess vegna voru þessir hópar í rauninni gersamlega sviptir raunverulegum samningsrétti. Þessir hópar hafa hnekkt þessum árásum og eins og ég sagði áðan, þá tel ég það vera mikilsvert fyrir verkalýðshreyfinguna í heild. Ég held, að það geti ekki farið á milli mála, að ef atvinnurekendur hefðu, þegar deila yfirmanna á farskipum hófst, boðið eitthvað svipuð kjör og nú var. samið um, þá hefði ekki orðið sú kostnaðarsama stöðvun, sem hæstv. ráðh. var að tala um áðan. Auðvitað fylgir kostnaður kjaraátökum. Það vita allir. En ef við viljum hafa frelsi verkafólks til þess að semja um kjör sín, þá verðum við einnig að taka þann kostnað, sem af því hlýzt, ef átök verða um slík mál. Það er óhjákvæmilegt. Og raunar er kannske ástæða til þess að minna á það, að á sama tíma og þannig var staðið að kröfum yfirmanna á farskipum, þá gekk öllu greiðlegar fyrir Eimskipafélag Íslands að fá óhemjulega hækkun á farmgjöldum. Þar þurfti ekki að standa í neinni langvinnri stöðvun. Það gekk sjálfkrafa.

En sem sagt: Ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel, að Alþingi eigi að neita að fjalla um mál af þessu tagi, gersamlega ómerkt pappírsplagg, þar sem ekki stendur steinn yfir steini.