22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm., sem hér var að tala áðan, hækkaði róminn, þegar hann var að tala um þetta ómerkilega pappírsgagn, sem hann talar um, að hafi verið með öllu hnekkt og sé algerlega óþarft, þrátt fyrir það, að þessi lög hafi náð alveg tilætluðum tilgangi með því að stöðva verkfallið. Og þessi lög áttu ekki að gilda nema til ársloka þessa árs. Það var gengið út frá því með þessum lögum, að farmenn gætu sagt upp með mánaðar fyrirvara frá 1. desember. Nú hefur samizt um kaup og kjör til 1. oktáber 1971. Þess vegna er ástæðulaust að staðfesta þessi brbl. En það er jafnskylt að leggja þau fram hér í hv. Alþ. til 1. umr., um þau og láta málið ganga til n., en það er engin þörf á að láta það ganga gegnum þingið, af því að það hefur verið samið á milli deiluaðila um kaup og kjör til miklu lengri tíma heldur en þessi lög ná til. Og hv. þm. hefur setið það lengi á Alþ., að hann ætti að vita, hvernig þingsköpin eru og ekki tala um það, að það sé fyrir neðan virðingu þingsins að fjalla um mál eins og þetta.

Það er ekki rétt, að þetta frv. hafi verið eða sé ónýtt pappírsgagn. Þetta frv. og þessi lög eru að því leyti til ólík l. um lausn á verkfalli flugliða í fyrra, að í þessu tilfelli liggja fyrir samningar á milli deiluaðila til lengri tíma en l. náðu til. En í hinu tilfellinu voru engir samningar. Þess vegna varð það frv. til l. um lausn á verkfalli flugliða látið ganga gegnum þingið og staðfest í báðum deildum hv. Alþ. Hv. þm. fullyrðir, að ef yfirmönnum á farskipum hefði verið boðið á s.l. vori það, sem samdist um nú, þá hefði verkfallið leyst. Hvað veit hann um þetta? Hverjar eru staðreyndirnar? Þegar síðasti sáttafundur hafði verið haldinn, þá héldu farmenn við sínar upphaflegu till., sem voru samþykktar á fundi í félögunum og voru um allt að 100% hækkun, þegar allt var tekið með í reikninginn. Það var 40% grunnkaupshækkun, 25% álag, stytting á vinnutíma og ýmsar tilfærslur, þannig að þegar, þetta var reiknað, var það allt að 100%. Hv. þm. hefur ekki hugmynd um, hvað hann var að segja og leiðinlegt, að hann skuli vera með fullyrðingar eins og þessar, þar sem hann veit ekkert um, hvað þar er um að ræða.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið. Ég held, að það hafi komið allt fram, sem máli skiptir. Það hefur komið fram, að l. leystu verkfallið og forðuðu þjóðinni frá miklu tjóni. Og það vita allir, að það hefur samizt á milli skipafélaganna og farmannanna. Það hefur samizt um kjör, sem mönnum finnst há, en eru það kannske ekki, þegar málið er skoðað í réttu ljósi — a.m.k. hvað vélstjórana snertir, ef þeir eru ekki hærri í launum en vélstjórar, sem vinna í landi, þá er þetta kannske ekki óréttlátt. Það er verra að gera samanburð á stýrimönnum og öðrum yfirmönnum á farskipunum. Við höfum ekki slíkt. En hvað vélstjórana snertir, þá er þetta nokkuð þægilegur samanburður og ef við setjum okkur í þeirra spor, er kannske eðlilegt, að þeir vilji ekki vinna fyrir minna kaupi en þeir, sem hafa sömu menntun og eru í landi. En hnúturinn er leystur, og það skiptir vitanlega mestu máli.