22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

22. mál, verkfall stýrimanna, vélstjóra o.fl.

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra stuðning hv. þm. Þórarins Þórarinssonar við þau sjónarmið, sem ég kom fram með áðan og raunar endursögn á sumum röksemndum, sem ég var með í ræðu minni, en hefði þótt öllu fróðlegra, ef hann hefði bætt við nýrri vitneskju, t.d. um afstöðu Skipadeildar SÍS í þessu sambandi, hvort það hafi verið samræmi á milli þeirrar afstöðu og þeirra ágætu ummæla, sem þessi hv. þm. hefur uppi í ræðustóli Alþingis og raunar oft í blaði sínu.

Annars ætlaði ég ekki að segja mörg orð í viðbót. Ég þarf ekki að svara miklu hinni stuttu ræðu hæstv. ráðh. Vissulega er það rétt, sem hann sagði, að samkv. þingsköpum ber honum að leggja fyrir Alþ. brbl., sem út eru gefin, en það er líka á valdi Alþ. að fella slík lög þegar við 1. umr. Ég mun greiða þannig atkv. um þetta frv. og ég teldi sóma Alþ. að meiri, ef menn brygðust þannig við. Ég tel, að það sé fyrir neðan virðingu Alþ. að eiga að fjalla ár eftir ár um slík gervifrv., sem allir vita, að hafa ekki lengur neitt gildi. En hæstv. ráðh. vill endilega koma málinu til n. Hann bar saman þetta frv. og frv. í fyrra og taldi, að þetta væri dálítið annars eðlis, vegna þess að nú væri búið að semja, en það hefði ekki verið búið í sambandi við frv. um flugliðana í fyrra. Hæstv. ráðh. veit jafnvel og við allir, að þetta er ekki satt. Þegar hæstv. ráðh. lagði frv. sitt um flugliðana fram í fyrra, var búið að semja og við ræddum meira að segja um það hér, í þessum þingsal., hverjir þeir samningar væru. Hæstv. ráðh. vefengdi ekki, að slíkir samningar hefðu verið gerðir. Hins vegar var hafður á sá háttur, að þetta voru leynisamningar. Þeir voru ekki gefnir upp. Hins vegar þekkti hæstv. ráðh. að sjálfsögðu öll ákvæði samninganna og hafði fallizt á þá bak við tjöldin. En þessir samningar höfðu þá verið gerðir og eftir þeim hafa flugliðar unnið alla tíð síðan, þannig að þessi skýring hæstv. ráðh. er ekki í samræmi við staðreyndir.

Að öðru leyti vildi ég fagna því, sem hæstv. ráðh. sagði í lok ræðu sinnar, að enda þótt ýmsum fyndist þau kjör, sem yfirmenn á farskipum hafa samið um, vera há, þá teldi hann þau alls ekki vera há. Þetta þótti mér mjög vænt um að heyra, vegna þess að í orðum ráðherra hlýtur það að felast, að a.m.k. hann mun ekki standa að neinum þeim aðgerðum, sem eiga að skerða kjör, hvorki þessara yfirmanna á farskipum né annarra launamanna, sem búa við miklu lakari kjör í þjóðfélaginu. Ég hlýt að geta túlkað þessi ummæli hæstv. ráðh. þannig, að hann muni ekki á næstu vikum standa að neinum þeim tillöguflutningi, sem feli slíkt í sér.