30.11.1970
Neðri deild: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

59. mál, sala á íbúðum framkvæmdanefndar byggingaáætlunar

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og hefur verið afgr. þaðan, að ég ætla shlj. Efni þess er það að tryggja, að verði eigendaskipti á þeim íbúðum, sem eru byggðar af framkvæmdanefnd byggingaáætlunar, þá öðlist kaupendur íbúðanna möguleika til þess að eignast þær á kostnaðarverði. Þetta ákvæði var í l. nr. 8 frá 1968, og það gildir nú um sölu verkamannabústaða sbr. 26. gr. l. nr. 30 frá 1970, en ákvæðin eru í því fólgin, að ekki megi selja þessar íbúðir, nema því aðeins að samþykki sé fengið frá húsnæðismálastjórn. Og söluverð íbúðanna má ekki vera hærra en kaupverð þeirra að viðbættri verðhækkun, sem samkv. vísitölu byggingarkostnaðar hefur orðið á þeim hluta kostnaðarverðs íbúðarinnar, sem fallið hefur í gjalddaga og verið greitt, þegar forkaupsréttar er neytt. Enn fremur skal bæta við virðingarverði þeirra endurbóta, sem á sama tíma hafa verið gerðar og draga frá hæfilega fyrningu. Síðan eru sömu ákvæðin, eins og eru í lögum um verkamannabústaði, að eftir 10 ár má seljandinn njóta verðhækkunar sem svarar helmingi af eftirstöðvum byggingarlánsins og eftir 20 ár má hann njóta verðhækkunarinnar að fullu.

Það féll niður í lagasetningunni um þetta efni frá því í vetur í l. nr. 30 frá 12. maí 1970 að taka upp þetta ákvæði og var enda ekki talið eiga þar heima, heldur þótti eðlilegast að setja um þetta sérstök lög. Þá hefur líka þótt eðlilegt og sjálfsagt, að um íbúðir, sem byggðar eru til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, gildi sömu ákvæði og um þær íbúðir, þannig að frv.-ákvæðin ná bæði til íbúða, sem byggðar eru af framkvæmdanefnd byggingaáætlunar og sem byggðar eru til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Þetta hefur verið svo í mörg ár bæði í lögunum um verkamannabústaði og eins í lögum um byggingar fyrir láglaunafólk, þ. e. á vegum bygginganefndar Reykjavíkurbæjar og ríkisins, sem standa að byggingu þessara íbúða, þá hefur þetta verið í gildi líka. En eins og ég sagði, þá féll það niður úr lögunum um húsnæðismálastjórn frá í vetur. Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.