29.10.1970
Neðri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2736)

34. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Hæstv. ráðh. komst hér að þeirri niðurstöðu, að það væri óeðlilegt að binda saman Skattvísitöluna og Framfærsluvísitöluna. Ég gat nú ekki fundið það út, á hverju hann byggði þessa staðhæfingu sína. En hins vegar finnst mér rétt að benda á það, að bæði hann og hæstv. forsrh. litu allt öðruvísi á þetta mál fyrir 18 árum, þegar þeir fluttu tillögu um þetta á Alþ., því að sú tillaga var fyrst og fremst fólgin í því að láta Skattvísitöluna fylgja Framfærsluvísitölunni, því að þannig yrði það bezt tryggt, að skattar hækkuðu ekki nema því aðeins að raunveruleg hækkun hefði orðið á launum, að rauntekjur hefðu hækkað. Og ég skal til sanninda um þetta lesa hér upp ummæli, sem hæstv. núv. forsrh. viðhafði um þessa tillögu og hver væri tilgangur hennar á þingi 1952. Hæstv. forsrh. fórust þá þannig orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta ákvæði…“ þ.e. tillaga hans og núv. fjmrh. Magnúsar Jónssonar um skattvísitöluna — „þetta ákvæði á að miða að því, að verðbreytingar, hækkandi dýrtíð í landinu verki ekki ein út af fyrir sig sem stórkostleg skattahækkun á þegnana, þó að skattalöggjöfin að öðru leyti breytist ekki neitt, heldur að skattaálagningin að þessu leyti hreyfist til og frá eftir því sem verðhækkanir eða verðlækkanir kunna að verða í þjóðfélaginu.“

Þetta er nákvæmlega sama reglan og felst í því frv., sem hér liggur fyrir, að skattvísitalan eigi að breytast eftir því til hækkunar eða lækkunar, hvort það verða verðhækkanir eða verðlækkanir í þjóðfélaginu. Þannig er auðveldast að mæla það, hvort raunveruleg hækkun hefur orðið á rauntekjum eða ekki. Mér finnst mjög leitt að heyra það, að hæstv. fjmrh. hefur skipt um skoðun frá því að hann sem ungur þm. flutti þetta mál hér á þingi og bar þá sérstaklega hag láglaunafólks fyrir brjósti, vegna þess að hans frv. hét ekki breyting á skattalögum, heldur um lækkun skatta á lágtekjum. Og ég vil nú vænta, að þetta verði til þess, að hæstv. ráðh. íhugi þetta mál að nýju og geri sér grein fyrir því, hvort hann hafi nú ekki haft þarna rétt fyrir sér, þegar hann var ungur og a.m.k. réttara heldur en nú, þegar hann er að hugsa kannske um annan aðila meira heldur en skattþegnana.

Hæstv. fjmrh. taldi, að það væri eðlileg regla, að fjmrh. fengi að ákveða skattvísitöluna eftir því, sem honum þætti bezt henta hverju sinni. Ég held, að þetta sé ákaflega óeðlileg regla. Í raun og veru þýddi þetta í þessu tilfelli sama og það, að fjmrh. sé gefið vald til að ákveða skattstiga og skattinnheimtu án þess að þurfa að bera það undir Alþ., því að með skattvísitölunni er raunverulega verið að ákveða skattstigana hverju sinni, hverjir þeir eru hvert ár fyrir sig. Þetta þýðir það, að ráðh. fær vald til þess að hækka skattstigana án þess að það sé nokkuð borið undir Alþ. og það er ákaflega óeðlilegt að gefa fjmrh. slíkt vald. Það er alveg rökrétt afleiðing af þessu að t.d. hæstv. fjmrh. yrði gefið vald til að ákveða, hver söluskatturinn eigi að vera, eins og honum er raunverulega með þessu gefið vald til þess að ákveða, hver skattstiginn eigi að vera, hverjir frádrættirnir eigi að vera. En með því að ákveða skattvísitöluna fær hann raunverulaga vald til þess að ákveða hvort tveggja, hverjir frádrættirnir eigi að vera og hverjir skattstigarnir eiga að vera eða skattþrepin. Og það væri ekki nema bara að segja b eftir að búið er að segja a, að gefa hæstv. fjmrh. vald til þess að ákveða, hver söluskatturinn ætti að vera og ýmsir aðrir skattar. Þess vegna er það algerlega óeðlilegt, að fjmrh., hver sem hann er, sé gefið þannig vald til þess að ákveða, hvaða skattareglur eigi raunverulega að gilda á hverjum tíma í landinu án þess að bera það nokkuð undir Alþ. eða hafa nokkra reglu frá Alþ. til þess að fara eftir. Þess vegna er sjálfsagt, burtséð frá öllum deilum um það, hver skattvísitalan eigi að vera, að þetta vald sé tekið af fjmrh., það sé ekki í höndum hans. Mér skilst líka, m.a. á því, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. hér áðan, að hann og hans ráðunautar séu að hugleiða það að hverfa frá þessari fjarstæðu reglu að láta fjmrh. ákveða skattvísitöluna og þeir séu að hugsa um að leggja til, að í staðinn fyrir að skattvísitalan sé ákveðin af fjmrh., þá verði hún ákveðin af Alþ. hverju sinni í sambandi við fjárlög. Ég verð að segja það, að ég tel það líka ákaflega óeðlilegt, að skattvísitalan sé ákveðin í fjárlagafrv. Það mætti alveg eins fara að ákveða aðra skattstiga í fjárlagafrv. Það má vel vera, að það sé eðlileg regla og ég skal taka það til athugunar, að Alþ. eigi að ákveða skattvísitöluna hverju sinni. En þá á Alþ. að sjálfsögðu að gera það í sérstökum lögum, en ekki í fjárlagafrv. Við eigum ekki að fara að skapa þá hefð, að skattstigar séu ákveðnir í fjárlagafrv. og blanda þeim þar inn í allt annað mál, því að þá gæti orðið skammt til þess, að fjárlagafrv. yrði orðinn eins konar skattabandormur, þar sem væru eigimlega ákveðnir allir skattar í einu, söluskattur, eignarskattur o.s.frv. Þess vegna tel ég, að það eigi að halda skattvísitölunni aðskildri frá fjárlögum og ef á að afgreiða hana á Alþ. hverju sinni, þá sé miklu eðlilegra að gera það í sérstökum lögum, heldur en að gera það í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna og hafa ákvæði um það í fjárlögum.

Ég held, að ég sjái svo ekki ástæðu til þess að segja fleira í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði.