16.11.1970
Neðri deild: 19. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

71. mál, velferð aldraðra

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Ég get að vissu leyti fallizt á, að það sé rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að heildarendurskoðun tryggingakerfisins sé miklu veigameira og viðameira mál heldur en þetta litla frv., sem hér liggur til umr. og skiptir að sjálfsögðu enn þá meira máli, hvernig tekst til um þá endurskoðun, sem er hafin og nú stendur yfir. Ég get því miður ekki svarað fsp. hans um það, hvenær þeirri endurskoðun verður lokið. Ég hef ekki aðstöðu til þess og mér finnst til nokkuð mikils ætlazt af hv. 6. þm. Reykv., þegar hann heimtar yfirlýsingu af okkur Alþfl.–mönnum hér í deildinni um það, hvort við ætlum fyrirfram að binda okkur við niðurstöðu tillagna, sem ekki eru til enn þá og við vitum ekki, hvað hafa inni að halda. Ég veit, að hv. 6. þm. Reykv. er það vel viti borinn maður, að hann ætlast alls ekki til þess, að við svörum þessu. Auðvitað tökum við afstöðu til niðurstöðu þeirrar nefndar, sem hefur endurskoðunina með höndum, þegar hún liggur fyrir, en fyrr ekki. Því miður þá er það ekki á mínu færi að svara því, hvenær þeirri endurskoðun verði lokið. Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. segir, að tryggingabætur hér á landi hafa, a.m.k. í sumum greinum, dregizt aftur úr því, sem gengur og gerist á Norðurlöndum, en ég er ekki viss um, að svo sé í öllum greinum. Ég hef samt sem áður ekki fulla sannfæringu fyrir því, að það heildarfjármagn, sem þjóðin ver til tryggingamála, gæti ekki verið nægilegt, ef því væri varið öðruvísi heldur en er í dag. Þetta er auðvitað mjög veigamikið atriði, sem hlýtur að koma til álita í sambandi við þá endurskoðun tryggingalöggjafarinnar, sem nú er hafin. Ef það væri svo, að heildarupphæðin mætti teljast vera allt að því fullnægjandi og það væri fyrst og fremst um það að ræða að breyta reglum um skiptingu hennar, þá værum við að sjálfsögðu ekki í raun og veru komnir svo langt aftur úr í þessum efnum eins og í fljótu bragði kann að virðast. Um þetta vil ég ekki fullyrða á þessu stigi málsins. Þetta kemur allt á daginn, þegar endurskoðun tryggingalöggjafarinnar er lokið og get ég aðeins sagt það eitt um þá endurskoðun, að Alþfl. leggur á það mikla áherzlu, að vel verði til hennar vandað og að henni verði hraðað eftir föngum. En þarna er þó um mjög yfirgripsmikið og vandasamt verk að ræða, sem ekki er við að búast að verði lokið á skömmum tíma.