19.11.1970
Neðri deild: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (2840)

86. mál, hafnalög

Flm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Á þskj nr. 90 flyt ég frv. til l. um breyt. á hafnalögum, ásamt hv. 4. þm. Vestf. Frv. þetta gengur út á að rýmka nokkuð heimild laga til útgáfu á reglugerðum. Málið er skýrt allsæmilega í grg. og þarf því ekki að fara um það mörgum orðum. En eins og mönnum er kunnugt, þá þurfa allar reglugerðir að eiga stoð í lögum, en málefnum er ýmist skipað með lögum eða reglugerð. Að því er þetta efni varðar, þá var sá háttur lengi á hafður, að sett voru lög um hverja einstaka höfn. Urðu slík lög því æði mörg. En með lögum um hafnargerðir og lendingarbætur nr. 29 frá 1946 var frá þessu horfið og sett ein allsherjar löggjöf um hafnargerðir og lendingarbætur, en jafnframt numin úr gildi eigi færri en 49 sérlög um þessi efni. Í 15. gr. þeirra laga var ákveðið, að með reglugerð mætti setja nánari ákvæði, sem giltu fyrir hverja höfn eða lendingarbótasvæði fyrir sig og mátti setja þar ákvæði um eitt og annað, sem þurfa þótti á þessu sviði. Hafnalög þau, sem nú gilda, eru nr. 48 frá 1967. Þar er samsvarandi ákvæði í 25. gr., en hvort sem það hefur verið gert viljandi eða óviljandi, þá hefur heimild laga til þess að gefa út reglugerðir verið þrengd nokkuð. Það hefur komið í ljós, að þetta er óheppileg ráðstöfun og fyrir þær sakir þykir nauðsyn til bera að flytja þetta frv., sem gengur í þá átt, eins og ég sagði áðan, að rýmka ákvæði laga til þess að gefa út reglugerð og færa það til samræmis við ákvæði fyrri laga og einnig við ákvæði í lögum um landshafnir, en um þær gilda sérstök lög. Ég hygg, að þetta sé nokkuð augljóst mál. Meðan venja var að setja lög fyrir hverja höfn fyrir sig, hvar sem hún var á landinu, þá var hægt að taka tillit til staðhátta og setja þau ákvæði, sem þurfa þótti, en þegar búið er að breyta þessu fyrirkomulagi þannig, að ein allsherjar hafnalög gilda, en reglugerðir samkvæmt þeim um hverja einstaka höfn, þá er nauðsynlegt að hafa þau ákvæði laga mjög rúm, sem heimila hinum einstöku hafnarnefndum og sveitarstjórnum að gera ráðstafanir á eigin hafnarsvæði, enda er ekkert við þetta að athuga og engin hætta á ferðum, þar sem allar slíkar reglugerðir verða í fyrsta lagi að samþykkjast heima fyrir, en staðfestast síðan af rn. áður en þær öðlast gildi. Ég hef þessi orð ekki fleiri, en legg til, að þessu máli verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og hv. sjútvn.