07.12.1970
Neðri deild: 28. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (2923)

145. mál, þurrkví í Reykjavík

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. alþm. Geir Hallgrímssyni, borgarstjóra í Reykjavik, fyrir mjög eindreginn stuðning við efni þessa máls. Hann flutti í upphafi ræðu sinnar mjög öflugar almennar röksemdir fyrir því, að hér væri hreyft mjög miklu nauðsynjamáli, sem raunar hefur verið unnið að um mjög langt skeið, eins og fram hefur komið. Hv. þm. vék í máli sínu að þróuninni í dráttarbrautarmálum að undanförnu og um það var í rauninni hægt að tala alllangt mál, því að þróunin á þeim sviðum er anzi glöggt dæmi um það, að okkur hættir æði oft við því að byggja upp atvinnutæki hér á Íslandi án eðlilegs samhengis. Ég er hræddur um, að þróunin í þeim málum hafi ekki verið studd við neina heildaráætlun, eins og þörf hefði verið og að sú þróun hafi jafnvel tafið frekar fyrir þurrkvíarframkvæmdum heldur en að ýta undir þær. En um það atriði ætla ég nú ekki að hafa lengra mál. Og ég lét þess getið í upphaflegu ræðu minni, að við flm. gerðum form þessa frv. ekki að neinu aðalatriði. Hv. þm. Geir Hallgrímsson gerði nokkrar aths. við sjálft frv. M.a. taldi hann, að í 1. gr. hefði verið eðlilegt að tala um, að ríkisstj. og Reykjavíkurborg beittu sér sameiginlega fyrir stofnun slíks félags, sem hefði það verkefni að koma upp þurrkví. Ekki hef ég neitt á móti þessu, en einhvern veginn fannst mér það vera óeðlilegt að setja um það fyrirmæli í lögum frá Alþ. hvað Reykjavíkurborg ætti að gera. Það er talað um það í frv., 2. gr., að sérstaklega skuli leitað samvinnu við Reykjavíkurborg. Ég held, að það sé naumast formlega rétt, að Alþ. geti haft annan hátt á en þann að óska eftir slíkri samvinnu í staðinn fyrir að vera að segja Reykjavíkurborg fyrir verkum á þessu sviði. En þetta er náttúrlega ekki neitt stóratriði.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkið hafi næsta óvenjuleg afskipti af þessu máli. Að ríkið leggi fram bæði fjármagn og vinnu í þágu þessa sérstaka málefnis. Og einmitt vegna þess að hér er um óvenjulega aðgerð að ræða, þá taldi ég eðlilegt, að ríkið ætti 50% í þessu félagi, til þess að tryggja sjónarmið sín þar á móti. En ég geri þetta ekki heldur að neinu meginatriði, síður en svo. Það má vel vera, að mál standi þannig, eins og hv. þm. sagði, að það væri hægt að komast fram hjá því millistigi að setja á laggirnar sérstakt félag, sem hefði rannsóknarstörf með höndum. Ef mál standa þannig, þá fagna ég því vissulega. Mér er kunnugt um það að, að þessu hefur verið unnið ötullega, sérstaklega núna seinustu árin, af hafnarnefnd og hafnarstjóra og ef málin eru í raun og veru komin á þann rekspöl, að ekki þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að ljúka undirbúningsrannsóknum, heldur væri hægt að taka ákvörðun um félag, sem hafi svo það verkefni að koma þessu fyrirtæki á laggirnar, þá mundi ég að sjálfsögðu fagna því. Hins vegar var tilgangur okkar flm. með þessu frv. ekki aðeins sá, að þarna væri komið á þessu kerfi, sem við tölum um, heldur að Alþ. lýsti yfir þeim skýlausa vilja sínum, að þurrkví yrði komið upp í Reykjavík og að Alþ. lýsti yfir þeim vilja sínum, að það vildi stuðla að því að koma þessu fyrirtæki upp. Þetta tel ég ákaflega mikilvægt atriði. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði, að ríkið verður að vera aðili að þessu fyrirtæki í einhverju formi. Það er vafalaust rétt mat, að fyrstu árin verði rekstur þurrkvíar ekki sérlega arðbær, bókhaldslega séð, en engu að síður hygg ég, að slíkt fyrirtæki yrði mjög arðbært þjóðhagslega séð og ef hér verður eðlileg þróun, þá tel ég víst, að fyrirtækið geti á ekki afar löngum tíma risið undir þeim kostnaði, sem fram er lagður til þess að koma þessu fyrirtæki á laggirnar.

Ég vildi sem sé fyrst og fremst þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við málið og ég vil vænta þess, að hv. iðnn. fjalli um málið á jafn jákvæðan hátt og reyni að komast að niðurstöðu, sem hrekkur a.m.k. til þess, að þetta Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum að vilja stuðla að því að koma upp þurrkví í Reykjavík eins fljótt og þess er kostur. Og að ríkið leggi fram af sinni hálfu þá aðstoð, sem hagkvæm er talin til þess að flýta fyrir þróuninni.