28.01.1971
Neðri deild: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (2934)

149. mál, áfengisvarnasjóður

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Efni þessa frv. er, að settur skuli á stofn sérstakur sjóður, áfengisvarnasjóður, er styrki áfengisvarnir, fræðslu um skaðsemi áfengis– og bindindisstarf, einkum meðal ungs fólks. Þá er ætlazt til, að sjóðnum verði heimilt að styrkja önnur æskulýðssamtök, en bindindisfélög, ef þau annast starfsemi, sem vinnur gegn áfengisnautn og hindra áfengisneyzlu á samkomum sínum. Gert er ráð fyrir því, að tekna til sjóðsins sé aflað á þann hátt, að Áfengis– og tóbaksverzlun ríkisins greiði honum árlegt framlag, er nemi 3% af hagnaði hennar af áfengissölu næsta árs á undan. Gert er svo ráð fyrir, að áfengisvarnaráð ríkisins stjórni áfengisvarnasjóði og að sjóðurinn standi undir þeim kostnaði, sem nú hlýzt af störfum áfengisvarnaráðunautar, áfengisvarnaráðs og áfengisvarnanefndar, en sá kostnaður er nú greiddur af ríkissjóði.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það, hvers vegna þetta frv. er flutt. Það er kunnara en svo, að það þurfi að rifja upp hér, að áfengisneyzla hefur farið mjög vaxandi hér í landinu á undanförnum árum og ekki sízt meðal ungs fólks. Þetta rekur að sumu leyti rætur til þess, að það hefur verið dregið úr ýmsum hömlum, sem áður voru gegn vaxandi áfengisneyzlu. Það var m.a. gert með setningu áfengislaganna frá 1954, þegar t.d. var heimiluð verulega aukin vínsala í veitingahúsum. Það var sérstök nefnd, sem undirbjó lögin 1954 og í henni áttu sæti þeir Gústaf A. Jónasson, þáv. ráðuneytisstjóri, Brynleifur Tobíasson áfangisvarnaráðunautur, Jóhann G. Möller forstjóri, Ólafur Jóhannesson prófessor og Pétur Daníelsson hótelstjóri. Og það varð að samkomulagi í þeirri nefnd, að gegn því að rýmkað yrði um ýmsar hömlur sem þá voru á áfengissölu, yrði bindindisfræðsla aukin í staðinn. Ég er því sammála, að þetta sé rétt stefna að hafa ekki mjög strangar hömlur í þessum efnum, en vinna í staðinn þeim mun kappsamlegar að margvíslegri fræðslu um þessi mál. En því miður, þegar Alþ. fjallaði um þessar tillögur áfengisvarnalaganefndar, þá var sú rýmkun á hömlunum, sem fólst í frv., látin standa í lögunum, en fellt niður framlagið, sem nefndin hafði gert ráð fyrir að yrði veitt árlega til fræðslustarfsemi um áfengismál. En það var tillaga nefndarinnar að af árlegum hagnaði Áfengisverzlunarinnar yrðu lögð 3% í slíkan sjóð eins og þetta frv. fjallar um, svo að hér er raunverulega ekki um annað að ræða heldur en það, að það er tekin upp þessi tillaga áfengislaganefndarinnar frá 1954. Ég held, að það, sem hefur gerzt síðan áfengislögin voru sett 1954, sanni það fullkomlega, að það er nauðsyn mjög mikillar, aukinnar áfengisfræðslu eða fræðslu um áfengismál frá því, sem nú er. Það mætti nefna ýmis dæmi til þess að sanna þetta, en ég tel óþarft að gera það hér, vegna þess að ég veit, að þau eru öllum hv. þm. kunnug.

Í áfengislögunum frá 1954 er gert ráð fyrir ýmissi fræðslustarfsemi. Samkv. þeim var sett á stofn sérstakt áfengisvarnaráð ríkisins. Stofnað var embætti áfengisvarnaráðunautar og ákveðið var, að það skyldu kosnar sérstakas áfengisvarnanefndir í öllum bæjar– og sveitarfélögum. En þrátt fyrir það, að yfirleitt hafi valizt ágætt fólk til þessara starfa, hefur starfið orðið tiltölulega lítið, sem stafar af því, að það hefur vantað fjármagn til framkvæmdanna, fjármagn þeirra framkvæmda, sem þessum aðilum er ætlað að halda uppi. Það var gert ráð fyrir því í lögunum, að árlega yrði veitt ákveðið fé til þessa í fjárlögum, en reynslan hefur nú orðið sú, að það hefur ekki fengizt fram nein veruleg fjárveiting á fjárlögum í þessu skyni. Þess vegna er áreiðanlega nauðsynlegt að binda ákveðið, fast framlag til þessarar starfsemi eins og áfengislaganefndin ætlaðist til upphaflega og því er það sem hugmynd hennar um áfengisvarnasjóð og ákveðið framlag til hans er hér tekið upp. Ég tel, að hér sé um mál að ræða, sem sé þingheimi svo augljóst, að það sé óþarft að fara um það fleiri orðum. En ég sé, að hæstv. fjmrh. er hér ekki viðstaddur, en hann var á sínum tíma mikill áhugamaður um bindindismál og er það vafalaust enn, svo að ég vil treysta á það, að þessi tillaga hljóti sérstaklega góðar undirtektir hans.

Ég læt svo þetta nægja að sinni, en leyfi mér að leggja til, að, að umr. 1okinni verði frv. vísað til heilbr.— og félmn.