22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna framkomu þessa frv. um virkjun í Lagarfljóti, og ég vil taka undir þær óskir hæstv. ráðh., að málið fái góðar undirtektir, og sérstaklega vil ég vona, að það fái nú betri undirtektir en frv. mitt, sem ég flutti hér 1966 um virkjun í Lagarfljóti, sem einnig var um skipulagsbreytingu í raforkumálum Austurlands. Ég vil einnig taka undir eða minna á og ítreka það, sem hæstv. ráðh. lýsti, að fram hefði komið málaleitun frá Rafveitu Reyðarfjarðar um þátttöku í þessari fyrirhuguðu virkjun — um eignaraðild, og ég vil alveg sérstaklega beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að athuga þá hlið málsins mjög vandlega. Ég veit, að það er yfirleitt hv. þdm. kunnugt, að ég hef eindregið verið þeirrar skoðunar, að raforkumálin þyrftu að komast sem mest í hendur sveitarfélaga og heimaaðila, og það er einmitt þess vegna, sem ég legg áherzlu á það, að þetta mál verði vandlega athugað frá því sjónarmiði núna við meðferð málsins.

Svo sem frv. ber með sér, er hér gert ráð fyrir lántökuheimild að upphæð um 180 millj. kr., og mér skilst, að þá sé miðað við þær áætlanir, sem nú eru helzt fyrir hendi um kostnað við þetta fyrsta stig virkjunarinnar. Nú þykir mér það að vísu heldur galli, að það er ekki nein áætlun, sem fylgir þessu máli, og ég hef verið að reyna að kynna mér það ögn, hvernig hún liti út — sú áætlun, sem þetta frv. er miðað við. Það hefur verið upplýst, að m. a. væri gert ráð fyrir 22 millj. kr. í línu frá Lagarfossi í Egilsstaði. Ég hef rætt þetta oft við ýmsa rafmagnssérfræðinga, og þeir hafa verið þeirrar skoðunar, að það væri í fyrstu hægt að komast af með miklu minna fjármagn í þessu skyni. Þetta muni vera miðað við 60 kílóvolta línu, en til að byrja með mundi nægja að hafa 30 kílóvolta línu. Ég bendi á þetta, vegna þess að ég álít, að það séu ýmis atriði í undirbúningi málsins enn, sem þurfi að taka til nánari athugunar. Enn fremur verð ég að segja, að það stærðarmark, sem hér er sett — um 8 þús. hestöfl — í orkuverinu, virðist mér vera of lágt. Það er að vísu rétt, að það er gert ráð fyrir því, að í byrjun sé orkuverið ekki stærra, og þá er talað um rennslisvirkjun, en ég vænti nú, að það sé flestum ljóst, að gildi Lagarfossvirkjunar og þessi mikla hagkvæmni, sem er í orkuveri eins og þar, er einmitt bundin við miðlunina, sem er í uppistöðunni í Lagarfljótinu sjálfu. Þess vegna hlýtur miðlunin að koma í beinu framhaldi af þessari byrjunarframkvæmd. Og þá er spurningin, hvort það sé ekki skynsamlegra að líta strax á hana einnig og miða stærð heimildarinnar eða hestaflatöluna við það. Á þetta vildi ég einnig benda nú strax við 1. umr. málsins.

Það er í raun og veru fleira — svona eftir því sem ég hef komizt næst — í tilhögun, sem mér sýnist orka tvímælis. Ég vil gjarnan, að það komi hér fram, að allt frá því, að ég fór að undirbúa frv. mitt 1966, hef ég beitt mér fyrir, að nokkrir sérfróðir menn í virkjunarmálum könnuðu þetta mál, gerðu áætlun um virkjun og skiluðu slíkri skýrslu. Það var gert á verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar, og áætlunin var unnin með honum af þeim Jóhanni Indriðasyni rafmagnsverkfræðingi og Ásgeiri Sæmundssyni tæknifræðingi. Og ég þori að fullyrða það, að sú vinna hafði mjög mikla þýðingu í því að koma þessu máli á hagkvæmara stig og hafði mikil áhrif á framvindu málsins. Ég vil aðeins minna einnig á það nú, að samkv. útreikningi, sem framkvæmdur var af Ásgeiri Sæmundssyni — s. l. vetur að vísu og miðað við áætlun á virkjunarframkvæmdinni, sem var gerð, þegar verðlag var lægra en nú er — þá var áætlað verð á mannvirkinu um 160 millj. kr. og þá miðað við stíflu og orkuver, sem var um 8 þús. kw. eða um 8 mw. En það var eiginlega sú stærð, sem virtist nýta bezt þá miðlun, sem þarna gat verið fyrir hendi í meðalrennslisári. Miðað við þessar tölur — þessa orkuframleiðslumöguleika — varð útkoman sú, að kwst. kostaði aðeins um 22.3 aura eða um einum eyri meira en við hina hagstæðu orkuframleiðslu við fullvirkjun í Búrfelli. Ég vil gjarnan, að þetta komi hér fram til að undirstrika það, hversu hér er um sérstaklega hagstæða raforkuframleiðslu að ræða.

En ég stóð upp til þess að fagna framkomu þessa frv. og til þess að leggja áherzlu á það, að í umræðum um málið verði vandlega athuguð málaleitun Rafveitu Reyðarfjarðar og þátttaka frá upphafi hjá sveitarfélögum á Austurlandi í virkjun í Lagarfljóti.