10.10.1970
Sameinað þing: 1. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Varamenn taka þingsæti

Aldursforseti (Sigurvin Einarsson):

Vegna fráfalls Bjarna Benediktssonar, 1. þm. Reykv., tekur nú sæti á Alþ. í hans stað Geir Hallgrímsson borgarstjóri sem 12. þm. Reykv. Kjörbréf hans hefur áður verið rannsakað og samþykkt. Tekur hann þá sæti á þingi, ef enginn mælir því í gegn. Ég vil leyfa mér að bjóða hinn nýja þm. velkominn.

Svo hljóðandi bréf hefur borizt frá Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstfl.:

„Reykjavík, 8. okt. 1970. Samkvæmt beiðni Pálma Jónssonar, 4. þm. Norðurl. v., sem ekki kemst að heiman vegna anna, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. 1. um kosningar til Alþ. að óska þess, að 2. varamaður hans, Óskar Levy bóndi, taki á meðan sæti hans á Alþ., þar sem 1. varamaður, Eyjólfur Konráð Jónsson ritstjóri, er erlendis og verður þar næstu vikur.

Virðingarfyllst,

Þorvaldur Garðar Kristjánsson.

Til forseta Nd. Alþ.“

Óskar Levy bóndi, 2. varamaður Sjálfstfl. í Norðurl. v., hefur áður tekið sæti á Alþ., og kjörbréf hans hefur verið rannsakað og samþ. Tekur hann því sæti á Alþ., ef enginn mælir því í gegn. Býð ég hann velkominn til þingstarfa.