22.10.1970
Neðri deild: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. góðar undirtektir undir þetta frv. Hjá hv. 3. þm. Austf. kom fram, að hann saknaði þess, að áætlun fylgdi ekki með frv. um virkjunina, en sannleikurinn er sá, að ég taldi heppilegra — og það var okkar skoðun í iðnrn. — að ítarlegar væri unnið að henni, en að sjálfsögðu yrði þn. gerð grein fyrir þeim málum. Það verður lögð áherzla á að hraða þessum málum, eins og verða má, því að öðruvísi er ekki hægt að ná því marki, að innsetningartími verði sá, sem hér er gert ráð fyrir og vikið er að í grg. frv. Um bæði það og annað þarf n. að hafa samráð við rn. og Orkumálastofnunina, og það væri auðvitað fengur í því að geta fengið þá áætlun, sem fyrir liggur, þegar n. er reiðubúin til að skila áliti sínu — við fyrstu hentugleika — með nál., þannig að það geti einnig orðið öðrum þm. kunnugt og skjalfest hér í þinginu.

Ég vil aðeins segja það út af ræðu hv. 4. þm. Austf. — sem var mjög velviljuð í þessu máli — þar sem hann vék að eignaraðildinni, að ég tel alveg óþarfa að óttast nokkuð það, að hugmyndir um víðtækari þátttöku í eign og rekstri fyrirtækisins muni nokkuð tefja fyrir því nú. Ég hef sjálfur tekið þá ákvörðun að leggja fram frv. um, að ríkisstj. sé heimilt að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Lagarfoss á Fljótsdalshéraði. Hins vegar fannst mér skylt að gera grein fyrir þeim áhuga, sem fram hafði komið um einhvers konar þátttöku aðila fyrir austan í þessu máli, og ég hygg, að það eigi ekki að hafa nein áhrif á framgang málsins nú. Ég get verið alveg sammála hv. þm. um, að það væri ástæða til þess að huga að endurskoðun á lagaákvæðunum um Rafmagnsveitur ríkisins, því að það er rétt, að það er hægt að hugsa sér aðild með öðrum hætti en venjulega er skilið með eignaraðild. Og almennt held ég, að það gæti verið mjög til góðs, að héruðin væru ríkari þátttakendur í rafvirkjunum og rafveitum, jafnvel þótt á vissum sviðum verði ekki hægt að gera kröfur til þeirra á þann hátt, að þau komi til jafns við ríkið með eignarhluta. En auðvitað er líka hægt að kalla það eignaraðild. Það fer þá aðeins eftir því, hvað eignarhlutinn er mikill hjá viðkomandi aðilum og að þeim sé ekki ofvaxið að gerast eignaraðilar. En við skulum leiða hjá okkur að gera því skóna, að þessar hugmyndir, sem geta leitt til góðs bæði á Austfjörðum og annars staðar og kannske til endurskoðunar löggjafarinnar, eins og vikið er að, þurfi á nokkurn hátt að tefja fyrir framkvæmd þessa máls.

Ég get vel nefnt það hér, að það standa yfir viðræður nú um eignaraðild Húsavíkurkaupstaðar á Laxárvirkjun og ég hef verið því hlynntur og jafnvel vakið athygli á viðtækari eignaraðild á Laxárvirkjun, þ. e. að sýslufélög eða hreppsfélög bæði í Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu gætu fengið með einhverjum hætti aðild að þessari virkjun. Ég hef ótvírætt látið í ljósi þessa skoðun mína, af því að það er ástæða til þess að ætla, að ýmislegt hefði farið betur með slíkri aðild í hvaða formi, sem hún hefði orðið frá upphafi, en raun hefur orðið á í seinni tíð með það fyrirkomulag, sem haft hefur verið, án þess að ég vilji frekar víkja að þeim málum. En ég vil þó segja það, að að svo miklu leyti, sem það kemur í minn hlut, að taka einhverja ákvörðun um eignaraðild t. d. Húsavíkur að Laxárvirkjun, þá er það í mínum huga að vera síður en svo kröfuharður að gera sér ljóst, að framlög og fjármunir geri þeim þessa eignaraðild ekki færa, og ég get einnig sagt, að af hálfu meðlima — stjórnarmeðlima Laxárvirkjunarinnar — eru uppi sömu skoðanir, og ég hef trú á því, að það náist gott samkomulag um þessa eignaraðild, viðbótareignaraðild í þeirri virkjun, sem ekki geti orðið til annars en góðs.

Ég vil láta þess getið í sambandi við þetta mál, að ég vék að smávirkjunum og nauðsyn þeirra í upphafi máls míns í þessum umræðum. Þá vil ég einnig minna á það, að í yfirlýsingu af hálfu ríkisstj., sem ég flutti hér ekki alls fyrir löngu, vék ég að því einnig, að það væru í athugun virkjunarmöguleikar fyrir Norðurlandskjördæmi vestra. Ég hafði gert mér vissar vonir um það að geta lagt strax i byrjun þings fyrir ákveðnar till. um virkjun á því svæði, en það þurfti að athuga málið nánar. En ég geri mér vonir um að geta lagt fyrir þetta þing frv. til l. um virkjunarframkvæmdir á þessu svæði, Norðurl. v., sem stendur illa að vígi í raforkumálunum.

Rétt er, að menn viti, að við Andakílsárvirkjun er verið að framkvæma verulega stækkun með kaupum á nýrri vél og bæta við inntaki, sem gert var ráð fyrir strax í upphafi. Þar er um verulega stækkun að ræða á þessari héraðsveitu. Ég held, að afköst þeirrar virkjunar verði tvöfölduð, eða um það bil, þegar þeirri framkvæmd er lokið.

Varðandi fsp. hv. 5. þm. Vestf. um, hvort ég gæti hér gefið yfirlýsingar um fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á Vestfjörðum, þá vil ég nú leiða það hjá mér. Ég hef ekki það mikinn kunnugleika á því án frekari undirbúnings. Ég vil aðeins segja það, að þar er um vissar virkjunarframkvæmdir að ræða, þ. e. stækkanir á virkjunum, sem fyrir eru, og ný virkjun gæti verið á döfinni. Ég hefði ástæðu til þess að fjalla svolítið um þau mál í haust og ræða þau við aðila, fyrirsvarsmenn þeirra mála og rafveitunefndir á Vestfjörðum, þegar ég væri þar á ferðinni. Ég held, að það gæti verið heppilegt — einkum og sér í lagi þar sem þm. vék að því, að þeir mundu hugleiða þessi mál, þm. Vestf. — að ég hlutaðist til um, að rn. léti þeim í té yfirlit yfir það, hvernig þessi mál standa nú og hvað er á döfinni. Ég gæti vísað þeim á það að hafa samband við rn., en það getur verið þeim þægilegra, og ég skal hlutast til um það, að þm. Vestf. fái sérstaka grg. um það, hvernig þessi mál standa nú og hvernig horfur eru alveg á næstunni á Vestfjörðum.

Ég vil aðeins í því sambandi láta þess getið, að við erum að ljúka rafvæðingaráætlun, eins og kunnugt er, gömlu rafvæðingaráætluninni, á þessu og næsta ári. Þar er töluvert komið til móts við þarfir Vestfjarða, sem eins og aðrir staðir, sem eru í miklu dreifbýli, hafa kannske ekki staðið eins vel að vígi og aðrir. Þeirri rafvæðingaráætlun á að ljúka í ár og á næsta ári, en það er þegar hafinn undirbúningur að nýrri rafvæðingaráætlun, sem ég hef vikið að hér áður í þinginu — nýrri rafvæðingaráætlun með það fyrir augum að leiða rafmagn frá samveitum á öll sveitabýli landsins eða rafvæða þau með öðrum hætti en tengingu við samveitur, þegar þess er kostur. Það er nú verið að afla haldgóðra upplýsinga — heildarupplýsinga — um, hvernig málin standa, og á grundvelli þeirra upplýsinga — þegar þær berast frá héruðunum, og hafa verið bornar saman við þær upplýsingar, sem þegar liggja fyrir — verður haldið áfram að vinna, og um það vil ég auðvitað hafa á hverjum tíma bæði samstarf og samráð við hv. þm. formlega og óformlega. En þá verður reynt að búa um hnútana þannig, að ný rafvæðingaráætlun geti verið tilbúin til þess að taka við, þar sem þeirri gömlu lýkur, en sú gamla var í því fólgin að rafvæða býlin, þar sem meðalvegalengd væri ekki meiri en 1½ km á milli bæja. Uppi eru raddir um það að fara í næsta skrefi upp í 2 km, en við höfum hneigzt að því ráði að taka málið í heild og reyna að gera okkur grein fyrir því, hvernig heildarrafvæðingunni verði Íokið. Á þeirri forsendu er unnið að þessari nýju rafvæðingaráætlun.

Ég endurtek svo aðeins þakkir fyrir góðar undirtektir við málið. Ég vil leggja mikla áherzlu á það, að þn. starfi fljótt og vel í málinu og hún dragi það ekki að herja á bæði rn. og Orkustofnunina um allar þær frekari upplýsingar og áætlanir, sem hún telur þörf á í málinu, svo að það nái fljótt og greiðlega fram að ganga. Það gæti greitt fyrir framgangi málsins að hafa lokið afgreiðslu þess fremur fyrr en seinna á þinginu.