22.02.1971
Neðri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (3104)

198. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég hef ekki kvatt mér hljóðs til þess að bæta frá eigin brjósti neinu við röksemdir þær, sem fram komu í framsöguræðu hv. 1. flm. hér áðan. Ég stend upp til þess að koma á framfæri áskorun frá sjómönnum og útgerðarmönnum vestur á Snæfellsnesi. Þar hefur gengið á milli sjómanna og útvegsmanna áskorun til Alþ. Rétt er að taka það fram fyrst, að þau plögg, sem ég hef hér í höndum, eru frá tveimur stöðum á Snæfellsnesi. Plögg hafa ekki enn borizt frá öðrum stöðum, þar sem þessi áskorun hefur gengið á milli manna, en undir þessa áskorun skrifa í Grundarfirði 45 sjómenn og útgerðarmenn, þ. e. a. s. næstum hver einasti slíkur á þessum stöðum, og undir hana skrifa á Hellissandi og í Rifi 38 sjómenn og útgerðarmenn, þ. e. a. s. einnig næstum allir á þeim stöðum. Áskorunin hefur einnig verið lögð fyrir útgerðarmenn og sjómenn, eins og ég sagði, á öðrum stöðum á Snæfellsnesi, í Ólafsvík og Stykkishólmi, og undir hana eru þegar komin nöfn fjögurra af fimm stjórnarmönnum í Útvegsmannafélagi Snæfellsness, og þeirra á meðal er formaðurinn Guðmundur Runólfsson, Grundarfirði, en hinir eru Skúli Alexandersson, Hellissandi, Ingvar Ragnarsson, Stykkishólmi, og Hörður Sigurvinsson, Ólafsvík. Þessir útvegsmenn hafa haft samband við mig, Guðmundur Runólfsson núna rétt áðan, og hann bað mig að geta þess hér, að stjórnin sem slík hefði ekki tekið afstöðu til þessa máls, þessir áhrifamenn útvegsmanna á Snæfellsnesi skrifuðu þarna hver um sig undir sem útvegsmenn fyrst og fremst, sem einstaklingar. Hann vildi einnig, að það væri tekið fram, að þessir, útgerðarmenn litu svo á, að þó að þeir hvettu til samþykkis þessa frv., sem hér um ræðir, þá teldu þeir að sjálfsögðu, að sú skerðing, sem þeir yrðu fyrir með samþykkt frv., yrði bætt upp á annan hátt. En aðalatriðið er, segja þeir, að þessu stríði linni og að burtu verði þessi þröskuldur milli sjómanna og útvegsmanna, þessi eldur, sem kveiktur hefur verið með þeirri lagasetningu, sem frv. þetta stefnir gegn. Ég mun þá lesa nefnda áskorun:

„Við undirritaðir sjómenn og útgerðarmenn á Snæfellsnesi lýsum fullum stuðningi við framkomið frv. um breyt. á l. nr. 79 1968 um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu. Við lítum svo á, að með samþykkt nefndra laga hafi viðskiptaerfiðleikar þjóðarinnar verið færðir á herðar sjómanna og útvegsmanna og þessar stéttir einar verið látnar standa undir þeim erfiðleikum. Með lagasetningunni var gerð tilraun til þess að stilla sjómönnum og útvegsmönnum í tvær andstæðar fylkingar með því að skerða hlut sjómanna. Jafnframt var svo hlutur útgerðarinnar skertur með lágu fiskverði og síðan með öðrum ráðstöfunum, svo sem Verðjöfnunarsjóði, vafasömu fiskmati og fleiru. Við leyfum okkur að skora á hv. Alþ. að samþykkja framkomið frv. þeirra Geirs Gunnarssonar og Jónasar Árnasonar um breytingar á nefndum lögum:

Og svo er hér önnur ályktun, sem ég vildi lesa upp. Hún var gerð á fundi vestur á Hellissandi í gær, á fundi hjá sjómanna- og vélstjóradeild verkalýðsfélagsins Aftureldingar. Þetta var fjölmennur fundur og ályktunin var samþykkt einróma. Til fundarins var stofnað til þess að ræða hina nýju kjarasamninga, en afgreiðslu þess máls var frestað. Ályktunin er svohljóðandi:

„Fundur í sjómanna- og vélstjóradeild verkalýðsfélagsins Aftureldingar haldinn á Hellissandi 21. 2. 1971 skorar á hv. Alþ. að samþykkja frv. þeirra Geirs Gunnarssonar og Jónasar Árnasonar um breytingu á lögum nr. 79 1968, um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenzkrar krónu. Með þessum lögum voru samningsbundin hlutakjör sjómanna skert það mikið, að slíks eru ekki dæmi að íslenzkum launþegum hafi með löggjöf verið gerð slík kjaraskerðing.“ Og ályktuninni lýkur með þessum orðum, og ég vil biðja hv. þm. Vesturl. að taka nú vel eftir: „Sérstaklega skorar fundurinn á alla þingmenn Vesturlandskjördæmis að standa saman sem einn maður að samþykkt fyrrnefnds frv: