02.11.1970
Efri deild: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (3229)

60. mál, vegalög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi gera að umræðuefni í sambandi við þetta frv. til l. um breyt. á vegalögunum.

Það má segja, að þarna sé um tvö efnisatriði að ræða. Í fyrsta lagi að jafna nokkuð þann aðstöðumun, sem er á einstökum jörðum að því er varðar vegi. Það er rétt, sem kom hér fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., þar sem hann greindi frá því, að þarna gæti hlaupið á nokkurri vegalengd, hvað ábúendum hinna einstöku jarða væri gert að annast um, frá 200 m upp í tæpa 400 m. Þetta er að sjálfsögðu rétt. En mér þykir nokkur spurning, hvort það er ekki hentugra form til þess að jafna þennan aðstöðumun, að fela sveitarstjórnunum í hverjum hreppi það verkefni. Ég er því kunnugastur að sjálfsögðu í minni heimasveit, að þar hefur sveitarstjórnin gert það mörg undanfarin ár, að hún hefur af sveitarsjóði haldið við þeim vegaspottum, sem þjóðvegur eða sýsluvegur sér ekki um, heim að bæjunum. Og í raun og veru má segja, að nú orðið sé það miklu meira, sem þarf að gera í þessu efni, heldur en þessi vegalengd, þessir allt að 400 m segja til um. Eins og nú er orðið háttað um aðdrætti að öllum bújörðum í landinu, þá er það á hverjum einasta degi sem stór og þung vörubifreið kemur heim á bæina, og hún þarf víðast hvar að hafa aðstöðu til þess að geta snúið sér við, og til þess að það sé hægt, hvenær sem er, þá þarf að undirbyggja þau plön mjög vel heima á bæjunum. Það fer að sjálfsögðu eftir því, hversu kostnaðarsamt það er að ná í ofaníburð ofan í vegi, hvað þetta verður tilfinnanlegt, og ég hygg, að það séu ekki aðrir aðilar, sem eru færari um að meta það, hvar þörfin er mest, heldur en sveitarstjórnirnar í hinum einstöku hreppum.

Ég er ekki með þessum orðum að hafna því skilyrðislaust, að gengið sé eitthvað inn á þessa braut, sem hér er lagt til, en ég tel ástæðu til þess að skoða það samt vendilega, og ég vænti þess, að til þess gefist tækifæri þeirri n., sem þetta mál fær til meðferðar.

Í öðru lagi er þarna ákvæði um að auka nokkuð tekjur sýsluvegasjóðanna með því að sveitarstjórnir skuli leggja fram andvirði fjögurra dagvinnustunda á hvern íbúa. Þetta er að nokkru leyti samofið hinu fyrra atriði, sem ég minntist á. Ættu sveitarstjórnirnar að geta metið, hvort þær teldu koma að meiri notum fyrir íbúa sveitarinnar að efla sýsluvegasjóðina á þennan hátt eða leggja tilsvarandi upphæð til þeirra hluta, sem ég minntist á hér í sambandi við fyrra atriðið, eða til þess að jafna aðstöðuna heima fyrir með eigin ráðstöfunum. Það má vel vera, að aðstaða sýsluvegasjóðanna sé ærið misjöfn í hinum einstöku sýslum í landinu. Ég get trúað því, að svo sé. En heildartölur um þetta efni, sem hér er getið um í grg., benda til þess, að sýsluvegakerfið muni hafa tæpar 9 þús. kr. á km til uppbyggingar og viðhalds á móti 36 þús. kr. á km, sem þjóðvegakerfið hefur. Og þá byggi ég á þeim tölum, sem hér eru í grg.

Ég er ekki viss um það, að þessar tölur séu svo mjög óhagstæðar fyrir sýsluvegakerfið. Í fyrsta lagi er þess að geta, að sýsluvegirnir bera nú miklu minni umferð heldur en þjóðvegakerfið yfirleitt, þar af leiðandi eru vegirnir mjórri og ódýrari í uppbyggingu og viðhaldi. Það mun líka orka þarna nokkuð mikið á kostnaðarhlutföllin, að það er fátt um stórar og kostnaðarsamar brýr á sýsluvegum, þó að þær séu að vísu til. Með þessum orðum er ég ekki að draga það í efa, að til séu þeir sýsluvegir eða þeir sýsluvegasjóðir í hinum einstöku sýslum, sem hafi þörf fyrir aukningu á sýsluvegafé. En þar sem ég þekki bezt til, þá þykist ég vera þess fullviss, að sýsluvegirnir eru að sínu leyti ekki verr á vegi staddir heldur en þjóðvegirnir. Það segir að sjálfsögðu ekki það, að sýsluvegir hafi ekki þörf fyrir meira fé, — við vitum það, að vegaviðhald þyrfti að vera betra og meira heldur en það er í landinu í heild, — en að þessu marki höfum við treyst okkur að fara og ég ætlast til þess, að sú n., sem fær þetta, samgmn., hún athugi þetta efni einnig.

Mér þótti rétt að láta þessi sjónarmið koma hér fram við þessa umr., áður en frv. færi til n., til þess að það yrði þá athugað betur og nánar þar.