05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3359)

50. mál, hitun húsa með raforku

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál nú, en ég vildi ekki láta umr. um það ljúka og málið fara til n. án þess að tjá mig um það, að ég tel, að hér sé hreyft mjög mikilvægu og merku máli, að auka upphitun húsa í landinu með raforku, og ég hygg, að það sé líka rétt metið hjá 1. flm., að það sé vaxandi áhugi á þessu, sem m.a. kemur fram í tillöguflutningi, sem fram er kominn á fundinum, þar sem vissir þm. vilja leggja áherzlu á, að sveitarstjórnirnar taki raforkumálin meira í sínar hendur en áður var, og þannig var nú eiginlega upphaf að raforkuframkvæmdum hér á landi, þó að nokkrar sveiflur hafi orðið á þessu bæði frá einum tíma til annars og á síðari árum. Það kom t.d. mjög greinilega fram í sambandi við Lagarfossvirkjunina, í grg. Rafmagnsveitna ríkisins, að þeirra hugmynd væri að byggja upp nýjan markað, nýjan raforkumarkað, í sambandi við áætlanir um húsahitun.

Það var lögð fram fsp. hér frá hv. I. þm. Norðurl. e. til ríkisstj. um rannsókn á möguleikum til notkunar raforku til upphitunar. Hún er flutt í Sþ. og verður væntanlega svarað þar í næstu viku, ef hún kemst þá að, þegar þar að kemur, og þess vegna skal ég ekki víkja fleiri orðum að því nú, en það liggur í augum uppi, að við getum orðið á ýmsum stöðum í nokkrum erfiðleikum með hagnýtingu á raforku, enda þótt mjög hagkvæmt sé að virkja þar, vegna þess að okkur vanti neytendur. Þá liggur í augum uppi, að að mörgu leyti gætum við bætt aðstöðu okkar með því að auka okkar eigin rafnot einmitt til upphitunar á húsum, og er það einnig réttilega tekið fram, að aðstaðan til upphitunar frá orkulindunum er mjög misjöfn í landinu. Orkulindir okkar yrðu þá aðallega tvær. Það er annars vegar varmaorkan og hins vegar raforkan, sem fæst að mestu leyti úr fallvötnunum, en kynni líka á síðari stigum að fást frá varmaorkuverum eða gufuaflsvirkjun.

Ég lýsi ánægju minni yfir framkomu frv. og tel eðlilegt, að það fái skjóta og eðlilega meðferð í þinginu. Ég vara aðeins við þeirri miklu bjartsýni, sem kemur fram í till., að það skuli stefnt að því að gera 5 ára áætlun á framkvæmd hitunarmálsins þannig, að innlendar orkulindir hiti hvert híbýli landsins að þeim tíma liðnum. Það er stundum betra að fara sér hægt og rannsaka málin gaumgæfilega en að hrapa að rannsóknum, sem því miður geta leitt til niðurstöðu, sem yrði óhagstæðari en ef menn gæfu sér miklu lengri tíma. Það er því miður rétt, að rannsóknir á möguleikum á notkun rafmagns til upphitunar og íslenzkra orkulinda til upphitunar gengur nokkuð seint. Hún er kostnaðarsöm. Rannsóknarmöguleikar okkar eru því miður ekki nægilega miklir, en að því máli mun ég víkja nánar, þegar kemur að svörum við þeirri fsp., sem ég vék að áðan.