02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

81. mál, varnir gegn sígarettureykingum

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil alveg sérstaklega fyrir hönd okkar flm. þessarar þáltill. þakka hv. nm. í allshn. fyrir afgreiðslu þá, sem till. hefur hlotið hjá n., og vænti ég þess, að hún eigi greiðan byr hér út úr þinginu eftir þetta. Ég vék að því, þegar ég talaði fyrir þessari till. fyrr á þinginu og vitnaði þar til ummæla heimsþekkts sérfræðings, læknis, sem gegnt hafði landlæknisembætti í Bandaríkjunum í eina tíð, að hann sagði, að tími efasemdanna um skaðsemi og hættu sígarettureykinga væri fyrir löngu liðinn. Nú væri fengin fyrir því óyggjandi vissa, að sígarettureykingar væru einhver mesti skaðvaldur heilsufari manna um heimsbyggð víða og nú væri um að gera að hefja framkvæmdir og athafnir til þess að vinna á móti þessari hættu við líf og heilsu manna.

Ég vitnaði enn fremur í hluta af ræðu, sem Robert Kennedy hafði haldið fyrir nokkrum árum á þingi, þar sem fjallað var um þessi mál, þar sem hann gat þess m.a., að sígarettureykingar legðu fleiri Bandaríkjamenn í gröfina en þeir hefðu misst í mörgum styrjöldum, sem hann taldi þar upp, og skal ég ekki tefja tíma þingsins við að endurtaka það hér. Ég vil sérstaklega fagna því, að með væntanlegri samþykkt þessarar till. hefur Alþ. þar með ákveðið, að hið opinbera, ríkisvaldið, ætli að hefja ákveðna baráttu gegn útbreiðslu sígarettureykinga í þjóðfélagi okkar. Sú barátta verður væntanlega fyrst og fremst háð, eins og segir í tillgr., með fræðslustarfsemi um skaðsemi sígarettureykinga, og aðaláherzlunni verður beint að skólunum, að unga fólkinu, sem á að erfa landið og á miklu veltur, að haldi sínu heilbrigði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég vil þakka nm. fyrir hönd okkar flm. fimm fyrir afgreiðsluna á þessu máli, og ég vona, að samþykkt þess eigi eftir að hafa í för með sér ýmsar aðgerðir af hálfu hins opinbera, er til þess séu fallnar að koma í veg fyrir, að margt ungmennið byrji að reykja sígarettur.