02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3476)

51. mál, jafnrétti þegnanna í íslensku þjóðfélagi

Frsm. meiri hl. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. þessi hefur legið fyrir hjá allshn. og var send nokkrum aðilum til umsagnar þ. á m. Stéttarsambandi bænda, BSRB, Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins, og eru hér tvö nál., eins og kemur fram á þskj. 424 og 442. Meiri hl. n. leggur til, að till.samþ., og vekur í því sambandi athygli á umsögnum, sem n. bárust frá Kvenfélagasambandi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Þær umsagnir eru einnig prentaðar á þskj. 424. Minni hl. leggur til, að þáltill. sé vísað til ríkisstj.

Jafnrétti þegnanna er nú mjög á dagskrá, og sýnist oft sitt hverjum. Menn tala um misrétti milli kynja, misrétti milli þéttbýlisbúa og strjálbýlisbúa, misrétti til náms, misrétti til áhrifa ýmiss konar o.s.frv. Um það deila menn hins vegar ekki, að hér er vissulega ýmislegt misrétti, en hve mikið og hvort og þá hvernig þurfi og skuli úr bæta, er fremur deiluefni. Enginn vafi er á, að víðtæk hlutlæg athugun og alhliða samanburður á aðstöðu manna mundi glöggva þessi mál og vísast leiða ýmislegt óvænt í ljós, misrétti þar sem fáir veita því athygli t.d. vegna siðvenja, og meiri jöfnuð annars staðar, þar sem flestir halda misrétti ríkjandi. Engum dylst að auðveldara verður úr því að bæta, sem miður fer, þegar á því hefur farið fram hlutlæg rannsókn.

Alkunnugt er, að sjaldgæft er, að konur komist hérlendis í hinar hæstlaunuðu stöður. Í aðalatriðum er þó viðurkennt launajafnrétti kvenna við karla. Þetta er oftast varið með því, að vinna kvenna sé ekki jafntraust og karla. Þær forfallist fremur. Hinu er sjaldnast haldið á lofti, að einhver bezti og traustasti vinnukraftur á vinnumarkaðinum eru eigi að síóur konurnar, þá ekki sízt þær, sem fara að vinna úti, eins og kallað er, eftir að hafa alið börn sín og komið þeim á legg. Þær eru yfirleitt vinnusamari körlum og stundvísari og lausari við smámunaelting við yfirvinnumínútur. Samt er það grunur minn, að þessi vinnufylking hafi farið harla illa út úr starfsmati ríkisins, þekki enda eitt átakanlegt dæmi, sem hér verður þó ekki rakið.

Þá benda sumir á misrétti milli þéttbýlis- og strjálbýlisfólks, en það er grunur minn, að margt óvænt geti komið upp við nánari athugun. Strjálbýlisbúar eiga sem sé viss forréttindi, sem þeir mega ekki vanmeta né gleyma í glýjunni frá þéttbýlisdýrðinni, en út í þá sálma skal ekki heldur farið hér að sinni.

Þótt athugun á jafnrétti þegnanna frá ýmsum sjónarhornum séð verði aldrei tæmandi, er hún þó eigi að síður næsta forvitnileg og óumdeilanlega upplýsandi. Með þetta m.a. í huga leggur meiri hl. allshn. til, að umrædd þáltill. verði samþ.