02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (3477)

51. mál, jafnrétti þegnanna í íslensku þjóðfélagi

Frsm. minni hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá leggur minni hl. n. til, að till. verði vísað til ríkisstj. Það er birt hér nál. á þskj. 442, þar sem aðalrökin eru færð fyrir þessari niðurstöðu, og það skal viðurkennt og er viðurkennt í þessu stutta nál., að það gæti verið fróðlegt að kanna þetta mál, en við teljum ekki, að það kalli svo nauðsynlega á, að til þess sé miklu kostandi, a.m.k. verði það þá lagt í vald ríkisstj., ef hún telur, að málið sé þannig vaxið, að rétt sé að láta einhverja rannsókn fara fram.

Ég vil aðeins undirstrika það, sem nokkuð er vikið að hér í þessu stutta áliti, að menn tala ákaflega mikið um það, að það sé misrétti í þjóðfélaginu á milli kynja. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé ákaflega mikið byggt á misskilningi. Þetta misrétti milli kynja var að vísu til skamms tíma mjög áberandi, og m.a. fólst það í því, að það var verulegur munur á kaupi. Þetta hefur nú á síðustu árum verið fært í betra horf, þannig að það eru sömu laun fyrir sömu störf, eins og sagt er, og ég verð að segja það, að þær bollaleggingar, sem eru hafðar hér uppi í grg. þessarar till. um mismun á tölu eftir kynjum við ýmis störf í þjóðfélaginu, þær segja í mínum augum ákaflega lítið um þetta atriði, og þær staðfesta yfirleitt ekki að minni hyggju, að þarna sé um verulegt misrétti að ræða. Það eru allt aðrar ástæóur, sem til þess liggja, að sumu leyti e.t.v. venjur, en meginorsök er, eins og þar er sagt, hið misjafna hlutverk, sem kynjunum er ætlað frá sköpun heims. Ég vil t.d. koma að í þessu sambandi: Mig minnir, að hér sé einhvers staðar minnzt á sendiherra, að það sé engin kona sendiherra, en ég held, að þrátt fyrir það, þá sé ákaflega mikið litið á það, að hjónin bæði, ef um gifta menn er að ræða, séu í raun og veru fulltrúar landsins út á við.

Það mætti sjálfsagt flytja langar ræður um þetta mál. Ég ætla ekki að gera það nú, en ég vil aðeins undirstrika það, að það er a.m.k. mín skoðun og ég held okkar, sem að þessu nál. stöndum, að þær séu verulega á misskilningi byggðar margar hugmyndir um misrétti þegnanna, sérstaklega að því er varðar á milli kynja. Það er ákaflega falleg hugsjón, að allir menn séu jafnir og nái fullu jafnrétti, en ég er nú þeirrar skoðunar, að svo lengi sem mannkyn stendur, þá verði um nokkra baráttu að ræða, áður en því marki er náð, að hægt verði að segja, að það ríki fullkomið jafnrétti. Til þess liggja ótal ástæður. Og þrátt fyrir það, að ég held, að það sé allt að því 100% skoðun manna, að það sé æskilegast að ná sem allra fyllstu jafnrétti. Sem sagt, niðurstaða minni hl. n. er sú, að þessari till. verði vísað til ríkisstj.