02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3486)

58. mál, skipulag vöruflutninga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja umr. um þetta mál, veit að tími þingsins er orðinn knappur, en ég tel, að hér sé hreyft mjög stóru og viðamiklu máli, sem hlýtur að koma til kasta Alþ. að afgreiða í framtíðinni. Það er alveg rétt, sem fram kemur í till. og um þetta mál hefur verið sagt, að það hlýtur að verða stefnt að því að jafna nokkuð þá aðstöðu, sem hjá landsmönnum er almennt í sambandi við mismunandi flutningskostnað á neyzluvarningi, sem dreift er út um landsbyggðina. Það er orðið svo, að

mestu af nauðsynjavörum landsmanna er skipað í land hér í Reykjavík. Sumt af þeim er að vísu flutt fraktfrítt áfram út til hinna ýmsu staða á landinu, en flestar vörur eru það þó, sem þarf að borga aukafrakt á frá Reykjavík til annarra staða á landinu. Þetta þýðir auðvitað það, að þessi aukni flutningskostnaður leggst á vöruna, svo að hún er seld hærra verði úti um landið en hér í höfuðstaðnum. Nú er það vitað, að launakerfi landsmanna er orðið svipað og má segja það sama um land allt. Vísitala er reiknuð út eftir verði, sem á vörunni gildir við Faxaflóa, og verða þeir þá, sem úti á landsbyggðinni, í strjálbýlinu búa, fyrir auknum kostnaði í sambandi við framfærslu sína og heimila sinna umfram það, sem hér á þéttbýlissvæðinu er. Þess vegna tel ég, að það hljóti að koma að því fyrr en síðar, að Alþ. geri beinar ráðstafanir til þess, að jöfnuður verði gerður þarna á. Þetta mætti að sjálfsögðu gera með mismunandi hætti. Skal ég ekki fara út í það, því að það yrði of langt mál, en ég vildi láta þá skoðun mína koma fram hér í sambandi við umr. um þessa till., að ég tel, að þetta mál hljóti að verða tekið fyrir til afgreiðslu á Alþ. í framtíðinni og þá stefnt að því að jafna aðstöðu landsmanna a.m.k. hvað viðkemur þeim nauðsynjavörum, sem inn í vísitölu eru reiknaðar, þannig að launþegar um land allt búi við sömu aðstöðu hvað þetta atriði snertir.