05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (3573)

194. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það er nú misskilningur hæstv. ráðh., að þessi ræða hafi verið flutt fyrir áheyrendur, hún var flutt fyrir hann. Hún var flutt til þess að minna hann á þessi mál, hún var flutt til þess að rifja það upp fyrir honum, sem hann sagði hér 28. okt. s.l., en er greinilega búinn að gleyma, því að þótt siðferðisvottorð mitt frá hæstv. ráðh. væri gefið með nokkrum semingi, þá hef ég engan fyrirvara með siðferðisvottorð gagnvart honum. Hann hefur gleymt þessu, sem hann sagði 28. okt. Ég ætla að minna hann á það, með leyfi forseta:

„Í sambandi við skort sérmenntaðs fólks og starfsliðs fyrir sjúkrahús, þá hefur rn. nú ákveðið að setja á laggirnar nefnd, sem hefur það hlutverk að semja lög um námstilhögun og starfsréttindi slíks fólks, og er þess að vænta, að nýtt lagafrv. verði lagt fyrir þetta Alþingi.“

Þetta er í skjölum Alþ., ræða Eggerts G. Þorsteinssonar ráðh., sem svar við fsp. frá mér um skort á hjúkrunarfólki, og ég held, að það fari nú ekkert á milli mála. Það er náttúrlega leiðinlegt, að hæstv. ráðh. skuli ekki aðeins hafa vanrækt þetta heldur hreinlega vera búinn að gleyma því, að hann ætlaði að setja nefnd til að vinna að þessu máli. Mér þykir það leiðinlegt.

Hæstv. ráðh. minntist á ýmsar ástæður, sem ekki valda því, að kennarar fást ekki að skólanum. Hann veit um þær nokkrar, en hann virðist ekki vita enn, hvaða ástæður það eru, sem valda því, að kennarar fara ekki að skólanum. Það eru til tvær leiðir að markmiðunum. Önnur er sú að leita að orsökinni, hitt er útilokunaraðferðin, sem hæstv. ráðh. virðist beita í þessu tilviki. Og ég vona, að áður en langt um líður verði hann búinn að útiloka allar aðrar ástæður en þær, sem raunverulega valda þessum kennaraskorti, og komast þannig að því, hvað það er, sem honum veldur. Því að það verðum við að fá að vita.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði. Það er nauðsynlegt til þess að leysa hvert mál að vita, hvað að er. Hæstv. ráðh. fagnaði því að eiga vísan stuðning stjórnarandstæðinga til þess að lagfæra þessi mál. Ég get náttúrlega ekki svarað fyrir aðra en mig, en ég hygg þó, að það sé alveg óhætt fyrir hann að aðhafast eitthvað í málinu þess vegna. Hann verður ekki dreginn fyrir lög og dóm, og það verður ekki einu sinni gerð till. um landsdómsmeðferð þessa máls, held ég, þó að þessi mál yrðu leyst.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. gaf um það, að hjúkrunarmálafulltrúi, væntanlega þá hjúkrunarkona, yrði ráðin til starfa í rn. Það er eitt af því, sem þetta fólk, sem ég hef talað við, hefur haft mikinn áhuga á að fá, og það er mjög gott, að það skuli nú komast í höfn, en það leysir auðvitað ekki þennan vanda, eins og hæstv. ráðh. sagði.

Ég hef enga löngun til þess að karpa um þetta við hæstv. heilbrmrh., sem er nú nýtekinn við þessum málum og vafalaust vill bæta ástand þeirra. Ég bara vænti þess, að hv. alþm. hafi fengið næga sönnun á því hér, að það veitir ekkert af því, að Alþ. veki þá, sem sofa þyrnirósarsvefni í hjúkrunarkvennamálunum.