02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

194. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki. Allshn. fékk þessa till. til athugunar og sendi hana til umsagnar Hjúkrunarskóla Íslands, Hjúkrunarfélagi Íslands og Hjúkrunarnemafélagi Íslands. Umsagnir bárust frá öllum þessum aðilum og voru að því leyti athyglisverðar, að a.m.k. í þremur atriðum mátti segja, að þeim bæri alveg saman.

Í fyrsta lagi, að það þyrfti að sjá um, að hjúkrunarkonum, sem hefðu þegar lokið námi og kannske verið frá vinnu um alllangan tíma einhverra hluta vegna, væri séð fyrir möguleikum til að endurþjálfa sig í starfi, og mun þar vafalaust átt við giftar konur, sem um tíma hafa horfið frá hjúkrun, en seinna, þegar létta fer af þeim heimilisstörfum, hafa viljað taka upp hjúkrun aftur.

Í öðru lagi var bent á það, að við sjúkrahúsin þyrfti nauðsynlega að koma upp dagheimilum fyrir börn, og þá átt við það, að börn hjúkrunarkvenna, sem væru í starfi, gætu notið þar umönnunar yfir daginn, meðan mæður þeirra væru í starfi við sjúkrahúsin.

Í þriðja lagi var bent á, að á það skorti, að til væru nægilega margar konur í landinu til þess að annast kennslu við Hjúkrunarskóla Íslands, eða a.m.k. væru launakjör kennaranna ekki það miklu betri en hjúkrunarkvenna, er við hjúkrunarstörf fengjust, að það freistaði til þess, að þær, sem hefðu hæfileika og menntun til þess að annast kennsluna, færu frekar í kennsluna en hjúkrun.

Þessi atriði öll vildi ég láta koma hér fram, af því að það voru sérstakar ábendingar í þessum umsögnum. Að öðru leyti féllst n. á að mæla með samþykkt till. með þeirri breytingu, sem kemur fram á þskj. 719, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að ráða bót á skorti hjúkrunarfólks til starfa í landinu.“