26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í D-deild Alþingistíðinda. (3687)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er mjög mikill misskilningur, og ég vil harðlega mótmæla því, að það hafi verið tekið vægum tökum á því máli áð verjast mengunaráhrifum frá álbræðslunni í Straumsvík, þegar málið var til meðferðar hér á Alþ. og í samningunum við Alusuisse. Öll saga þessa máls ber því vitni. Ég svaraði hér á Alþ. 1. marz 1967 fsp. frá þáv. alþm. Alfreð Gíslasyni lækni mjög ítarlega og rakti þá sögu þess, á hvern hátt hefði verið unnið að því að gera samningana þannig úr garði, að við gætum á sem beztan hátt varizt áhrifum mengunar frá álbræðslunni. Ég vil vænta þess, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort sem það verður nú menntmn. eða önnur n., hafi fyrir því að kynna sér sögu málsins, en láti ekki staðar numið við svona fullyrðingar eins og síðasti hv. ræðumaður hafði hér um hönd að þessu leyti. Þar voru með í ráðum heilbrigðisyfirvöld í Reykjavík og Hafnarfirði og heilbrigðisyfirvöld landsins. Sérfræðingar, sem við áttum völ á til ráðuneytis, voru til kvaddir og auk þess óvilhallir sérfræðingar frá Noregi. Einnig voru lagðar fram af hálfu viðsemjendanna mjög ítarlegar, sérfræðilegar og vísindalegar grg. annarra aðila í sambandi við þetta mál.

Hv. 6. þm. Reykv. spurði um það, hvort ég væri ekki þeirrar sömu skoðunar nú eins og ég var, þegar við ræddum álsamningana, að íslenzk stjórnvöld hefðu það í sinni hendi að krefjast þess, að sett væru upp reykeyðingartæki í verksmiðjunni. Þessu svara ég afdráttarlaust játandi. Um það eru bein ákvæði, samningsákvæði, eins og kunnugt er, að ISAL beri að koma upp reykeyðingartækjum í álbræðslunni, ef þess er talin þörf, og það er auðvitað á valdi íslenzkra stjórnvalda að ákveða það, þegar og ef niðurstöður rannsókna sýna, að hér sé um hættu að ræða. En hv. alþm. eru orðnir þess sinnis hér, að við höfum ekki ráð á því að bíða. Ja, ráð á að bíða eftir hverju? Við höfum ekki ráð á því að bíða eftir niðurstöðum rannsókna um það mál, sem verið er að ræða. Ingólfur Davíðsson gerði rannsóknir í sumar, þrjár rannsóknir. Þær sýndu flúormengun í þessum þremur tilfellum. Það situr að störfum rannsóknarnefnd, eins og kunnugt er, varðandi hugsanlega mengun frá álbræðslunni. Í henni eiga sæti tveir aðilar frá Svisslendingunum og aðilar frá íslenzku ríkisstj. Annar er forstjóri Rannsóknastofnunar iðnaðarins, og hinn er prófessor Lydersen, sem er formaður norska reykráðsins og sérstaklega tilnefndur af hálfu iðnrh. Áður en nokkur starfsemi hófst, gerði þessi nefnd miklar rannsóknir á jarðvegi, vatni og gróðri, bæði nær og fjær og alla leið upp í Borgarfjörð, til þess að þær niðurstöður, sem úr þeim rannsóknum fengjust, lægju fyrir til samanburðar við aðrar rannsóknir, eftir að verksmiðjan hæfi starfsemi sína. Eftir að verksmiðjan hóf starfsemi sína hafa verið gerðar áframhaldandi rannsóknir. Þetta er fyrsta sumarið, sem verksmiðjan starfar, og þessi nefnd situr á rökstólunum í þessari viku til þess að fara yfir þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið, bæði á mjög víðáttumiklum svæðum nær og fjær verksmiðjunni á mismunandi tímum, sumar daglega, og á rigningarvatni, jarðvegi og á gróðri. Það eru þess vegna alveg á næstunni væntanlegar niðurstöður um það, hvaða hætta hér sé á ferðinni. En má ekki bíða eftir þessu? Nei, af því að það hefur verið gerð einhver rannsókn á þremur plöntum og fundizt í þeim flúor, þá á það að vera nóg, og af því að hv. 6. þm. Reykv. telur sig hafa séð frá Álftanesinu bláan mökk yfir álbræðslunni á skemmtigöngu sinni þar. Við þurfum ekki að deila um það hér, að það er sjálfsagt að gera allar þær varúðarráðstafanir, sem tiltækar eru hér, og kröfugerð í þeim efnum getur ríkisstj. gert og hefur vald til að láta framkvæma samkv. þeim samningum, sem við höfum gert. Um þetta eru engar deilur og eiga ekki að þurfa að vera neinar deilur.

Ég tel alveg sjálfsagt, að þessi till. fari til n., og ég hygg, að sú n. geti einmitt fengið til meðferðar niðurstöður þeirra rannsókna, sem gerðar hafa verið á vísindalegan hátt og af sérfræðingum á þessu sviði, um mengunarmagnið frá Straumsvík, og vel kann svo að fara, — um það skal ég ekkert segja, — að talið verði, þegar rannsóknir liggja fyrir, að það sé komið að þeim tíma, að við eigum að krefjast þess, að reyktæki séu sett upp.

Eins og menn muna, gengu Svisslendingarnir inn á það meðan á samningaumleitunum stóð að breyta byggingu álverksmiðjunnar þannig, að það væri hægt að setja reyktækin upp án nokkurrar rekstrartruflunar eða frekari tilkostnaðar við bygginguna. Þetta hafði í för með sér nokkurn kostnað. Áætlað var, að það mundi þá hafa í för með sér viðbótarkostnað upp á um 30 millj. kr. Talið var, að til viðbótar mundu reyktækin, ef þau yrðu sett upp, kosta, ef ég man rétt, um 60 millj. kr. Við sjáum nú í hendi okkar, að í sjálfu sér hefur þessi fjárupphæð enga úrslitaþýðingu um arðsemi fyrirtækis, sem kostar 4000–5000 millj. kr., enda er gengið inn á það í samningunum, að skylda sé að setja slík tæki upp, ef hætta er á mengun. Þess vegna er allt fyrir hendi og í höndum íslenzkra stjórnvalda í þessu efni, og þess vegna er algerlega óþarfur og sýndarmennska ein þessi tillöguflutningur. Ég er þó ekkert að amast við honum og læt það gott heita. En þetta er auðvitað í höndum stjórnvalda og ríkisstj., og ég geri ráð fyrir því, að flm. líti svo á, að það sé, úr því að þeir skora á ríkisstj. að mæla svo fyrir, að tafarlaust verði komið upp fullkomnum hreinsitækjum. En auðvitað er það, = og það er, held ég, ekki vefengt, ekki hef ég heyrt það, — að samningarnir fela það í sér. Það er bæði sagt, að ISAL muni gera og skuli gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði. Og í 13. gr. í reglum um öryggi, heilbrigði og hreinlæti segir, að ISAL skuli byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og heilnæmi og skal í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum. Við getum þess vegna alveg verið rólegir. Við höfum vald til þess, að gerðar séu þarna þær öryggisráðstafanir, sem nauðsynlegar eru.

Ég vil aðeins út af því, að hv. 6. þm. Reykv. varði verulegum tíma ræðu sinnar til þess að vitna í ræðu þáv. alþm. Alfreðs Gíslasonar læknis, um hvað flúor væri eitrað, segja þetta: Það er auðvitað í sjálfu sér alveg utan við þetta efni, en það átti þá að skiljast þannig, að mönnum væri búinn bráður bani, ef verksmiðjan væri byggð, vegna flúorsins, sem kæmi í útblæstrinum, og það á enn að skiljast svo, enda man ég ekki betur en þegar hv. þáv. þm. Alfreð Gíslason flutti þessa efnisríku ræðu, eins og hv. 6. þm. Reykv. orðaði það, að hann hafi í sinni ræðu verið að tala um það, að við mættum búast við því, að við sæjum menn hrynja niður á götunum bæði í Reykjavík og Hafnarfirði steindauða af eitrinu, sem kæmi frá álbræðslunni. Það var nú svona efnisrík ræða. En af þessu tilefni vil ég aðeins segja það, að þegar ég svaraði fsp. þessa hv. þm., sem hann flutti í Sþ., þá vék ég að því, að það hefði verið leitað umsagnar prófessors Axels Lydersens, sem er forstöðumaður Institut for kemiteknik við Tækniháskóla Noregs í Þrándheimi, og umsögn hans, sem ég vitnaði til, er í bréfi til forstjóra Rannsóknastofnunar iðnaðarins, dags. 11. jan. 1966. Þar segir prófessorinn:

„Jeg kjender intet tilfælde af bevidst skade pfi mennesker í omegnen af aluminiumfabrikker“, þ.e.: ég veit ekkert dæmi um, að fram hafi komið tjón á mönnum í nágrenni álverksmiðju. Þetta sagði nú hann. Þó þykir ástæða til að endurflytja hér ræður, sem eiga að skiljast þannig, að það sé í raun og veru mjög lífshættulegt fyrir borgarana, að fyrirtæki eins og álbræðslan sé rekið hér. Ótölulegur fjöldi álbræðslna er rekinn um allan heim og sannast að segja mjög margar án nokkurra hreinsitækja, því að það er misskilningur, að það séu alls staðar hreinsitæki. En það eru líka mjög óljós fyrirmæli um hreinsitæki, eftir því sem við gátum kynnt okkur og ég man eftir, bæði í Noregi, Sviss, Þýzkalandi og víðar.

Ég held því fram, eins og ég er margbúinn að segja, að við höfum það á okkar valdi að láta gera þær ráðstafanir, sem tiltækastar eru, til þess að verjast mengun. Ég tel mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um þetta. Ég tel ekki, að við þurfum að deila um nauðsyn þess að verjast mengun frá þessu iðjuveri, sem og öðrum iðjuverum, eftir því sem við bezt getum.

Það er alveg rétt, sem fram hefur komið, að hættan af mengun hefur orðið mönnum miklu ljósari í seinni tíð en t.d. 1966 og 1967, þegar við vorum að ræða þessi mál hér á Alþ. Það hefur sérstaklega komið í ljós í hinum stærri borgum, eins og kunnugt er. Þá virtist það ekki vera eins mikið vandamál og það hefur nú sýnt sig að vera.

Ég mun hlutast til um það, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, fái grg. frá þessari mengunarnefnd vegna álbræðslunnar í Straumsvík. Ríkisstj. hefur tvo fulltrúa í þessari nefnd, eins og ég gerði grein fyrir áðan. Nefndin hefur gert mjög ítarlegar undirbúningsrannsóknir, og niðurstöður koma til með að liggja fyrir alveg á næstunni. Ég tel nú, að það sé dálítið barnalegt að vísa þessu máli til menntmn. og vil hreinlega mælast til þess, að hv. flm. fallist á, að málið gangi til iðnn. Hér er um iðnfyrirtæki að ræða, og málið snertir ekki aðeins þetta iðnfyrirtæki, heldur getur það auðvitað komið til með að hafa áhrif á önnur iðnfyrirtæki. Ég sé ekki að menntmn. eigi samkv. eðli sínu að fjalla um þetta, þó að náttúruverndarmálum hafi verið vísað til hennar. Það mætti þá alveg eins vísa þessu til heilbrn. En eigum við ekki að sættast á að láta málið samkv. eðli sínu ganga til iðnn.?