26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (3690)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hef hér fáu við að bæta. Það er sjálfsagt rétt, sem vitnað er til ég efast ekkert um það, — hjá hv. 6. þm. Reykv., að Steingrímur Hermannsson hafi sagt, að það hafi ráðið úrslitum um staðsetningu verksmiðjunnar, hvort það væru í henni hreinsitæki eða ekki. En ég held, að það hljóti nú að vera augljóst öllum mönnum, að það, sem fyrst og fremst réð úrslitum um staðsetningu verksmiðjunnar, var auðvitað orkan, sem verksmiðjan þurfti að fá. Aðstaðan var þannig, að það var ekki sýnt, að við gætum látið í té orku fyrir norðan öðruvísi en hún væri verulega dýrari en hægt var að bjóða upp á fyrir sunnan. Og það er auðvitað aðalatriði í þessu sambandi. Annars er þetta lítilfjörlegt atriði. En í sambandi við álbræðslu getur peningaupphæð eins og þessi auðvitað haft þýðingu, þegar verksmiðja er að byrja, því að hún er auðvitað erfiðust í rekstri fyrst. Það var gert ráð fyrir, að hún hefði 30 þús. tonna afköst og svo yrði hún stækkuð um 15 þús. tonn eftir þrjú ár og aftur um 15 þús. tonn eftir þrjú ár þar frá. Þeir gerðu alveg ráð fyrir því, að fyrstu árin mundi verða mjög erfiður rekstur á 30 þús. tonna verksmiðju. Það þykir innan við þá stærð, sem hagkvæm er nú. Og sennilega hefur það út af fyrir sig haft þýðingu, hvort setja ætti upp hreinsitækin strax við þá minni verksmiðju eða síðar, þegar áætlað var, að rekstur hennar væri orðinn hagkvæmari. Hins vegar mætti fá reynslu af hættunni, sem af þessu stafaði, undir eins og verksmiðjan byrjaði rekstur sinn, þó að í smærra mæli væri.

Eftir því sem verksmiðjan stækkar og kynni að stækka í framtíðinni fram yfir það, sem nú er ráðgert, þá verður auðvitað hreinsivandamálið minni þáttur í rekstri verksmiðjunnar, bæði stofnkostnaði og rekstri. En eins og kunnugt er, hefur það skeð síðan upphaflegu samningarnir voru gerðir, að byggingarhraðinn hefur verið aukinn, þannig að þegar er búið að bæta við um 10–11 þús. tonna ársafköstum, sem komu til í júlímánuði í sumar, og við síðari samningagerð, sem lá hér fyrir þinginu í fyrra, var ákveðið, að verksmiðjan skyldi vera komin upp í 75–77 þús. tonna afköst strax 1972, en í upphaflega samningnum áttu afköstin ekki að verða nema 60 þús. tonn 1975.

Það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv., að ekki þarf að rannsaka það, að mengun komi frá álbræðslunni. Það er alveg rétt, að það er nokkurn veginn vitað, og það er ekki verið að rannsaka það. Það er verið að rannsaka áhrifin af menguninni, því að ef alltaf blési hér af sömu og einni átt og alltaf á haf út, þá mundu áhrifin verða anzi lítil af menguninni. En það er einmitt verið að rannsaka áhrifin af menguninni á mismunandi tímabilum til þess að sjá, hver þau eru á lengri tíma. En það var talið, að staðsetning verksmiðjunnar í Straumsvík væri hagstæð fyrir okkur einmitt vegna þeirra skýrslna, sem þá lágu fyrir um vindáttir á undanförnum árum í Straumsvík eða í Straumi, sem látnar voru í té af Veðurstofunni og voru til athugunar og umr.

Aðalorsök þess, að ég kvaddi mér aftur hljóðs, voru ummæli hv. 6. þm. Reykv. um rannsóknarnefndina. Mér féll ekki vel í geð, að hann væri að gefa það í skyn, að hér væri ekki um óvilhalla nefnd að ræða, af því að eigendur verksmiðjunnar tilnefndu tvo menn í hana. Ég vil þá upplýsa það, til þess að mönnum verði ljósara, hvernig þessar rannsóknir eru, að það hefur verið gerður um það sáttmáli, skulum við segja, reglugerð, sem staðfest var af iðnrn., hvernig rannsóknunum skyldi hagað. Þetta var af okkar hálfu byggt á till. sérfræðinga okkar, Rannsóknastofnunar iðnaðarins og svo prófessors Lydersens, sem var fulltrúi iðnrh. Þessi reglugerð segir til um rannsóknirnar, hvernig taka skuli sýnishorn, á hve stórum svæðum, hversu oft og með hverjum hætti. Þessi sýni eru svo send til þriggja rannsóknarstofa til þess að vinna úr þeim, Rannsóknastofnunar iðnaðarins hér, rannsóknastofnunar í Sviss, sem er rannsóknastofnun þess aðila, sem hér á hlut að máli, Alusuisse, og rannsóknastofnunar við háskólann í Þrándheimi. Og ég tel, að við þurfum ekki að gera ráð fyrir því, að slíkar rannsóknir séu ekki hlutlausar og vísindalegar.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, eins og reyndar aðrir hafa sagt hér, að það væri kominn tími til að ákveða það, að sett skyldu upp hreinsitæki. Ég hef verið spurður að því, og það var fundið að því, að ég væri loðinn í svörum, hvort ég teldi ekki vera kominn tíma til þess. Ég er ekkert loðinn í svörum. Ég segi, að þegar við höfum gert aðrar eins ráðstafanir og við höfum gert með rannsókn þessa máls, þá eigum við að bíða eftir niðurstöðu rannsóknarinnar, og rannsóknarniðurstöður á þessu fyrsta ári, sem álbræðslan hefur verið starfrækt, liggja fyrir alveg á næstunni. Ég sagði það áðan, að rannsóknarnefndin væri að vinna úr gögnum sínum.

Ég get ekki sagt um það, hvað hún er komin langt þessi úrvinnsla hjá hinum mismunandi rannsóknastofnunum, en ég sagði það áðan, að ég vildi hlutast til um, að nefndin fengi niðurstöður þessarar rannsóknar í sínar hendur svo fljótt sem verða má. Og ég álít, að til þess séum við að setja svona rannsóknir í gang, að eitthvað verði á þeim byggt. Annars hefði náttúrlega verið ástæðulaust að setja nokkrar rannsóknir í gang, og ef það hefði ekki verið gert, þá hefði frá upphafi þurft að láta setja í verksmiðjuna þau beztu hreinsitæki, sem völ var á.

Ég geri það ekki að aðalatriði, til hvaða n. þessi þáltill. fer, segi það alveg eins og er. Hv. þm. hafði stungið upp á, að hún færi til menntmn. Ég gerði till. um það, að hún færi til heilbr.- og félmn., þótt ég teldi eðlilegt, að hún færi til iðnn. Úr þessu verður þingið að skera.