18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (3714)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég hef farið þess á leit að fá að segja örfá orð utan dagskrár vegna frásagnar, sem fram kom hjá hæstv. forsrh. í ræðu, sem hann hélt hér í lok umr. um mengun fyrir tveimur dögum. Ég ætla engan veginn að fara að halda áfram deilum um skoðanir í því efni, heldur langar mig að skýra frá því, að það voru ekki dregnar réttar ályktanir af rannsókn á flúormengun í barri, sem nýlega er búið að framkvæma. Hæstv. ráðh. komst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef nú hér með höndum skýrslu um nýjar rannsóknir frá SYNTEF-rannsóknarstofnuninni í Þrándheimi. Um er að ræða 22 sýni, þar sem borið er saman flúormagnið í greni frá 1969, áður en álbræðslan tók til starfa, því að hún tók ekki til starfa fyrr en um mánaðamótin sept.–okt., og 1970, eftir að hún var búin að starfa í heilt ár, og það vill svo til, að í öllum þessum sýnum, 22 að tölu, er flúormagnið meira árið áður en álbræðslan tók til starfa en árið eftir að hún tók til starfa.“

Hér eru, eins og ég sagði áðan, ekki dregnar réttar ályktanir. Þessi rannsókn var framkvæmd á þann hátt, að Skógrækt ríkisins tók þessi sýni öll á sama tíma í fyrrahaust. Hún tók annars vegar nálar af árssprotum frá árinu 1969 og hins vegar nálar af árssprotum 1970. Eins og menn vita, eru barrtré sígræn, nálarnar falla ekki, heldur safna þær í sig flúor og öðru. Ástæðan til þess, að meira magn er í nálunum frá árslokum 1969, er að sjálfsögðu sú ein, að þeir sprotar eru einu ári eldri. Þessar nálar eru einu ári eldri og hafa þess vegna haft einu ári lengri tíma til að safna í sig flúor og öðru. Hér er sem sé ekki um að ræða rannsókn, sem sýni minnkandi flúormagn, heldur þvert á móti, þá gefa þessar tölur til kynna, hversu mikið flúor hafi safnazt í barr á einu ári. Menn geta svo haft mismunandi skoðanir á því, hvað þetta magn segi, hvort mönnum finnst þetta mikið eða lítið, en rannsóknin sýnir ekkert annað en það, hvað flúormagnið hefur aukizt á einu ári. Mér fannst þetta skipta allverulegu máli í sambandi við mat manna á þessum hlutum, og þess vegna taldi ég rétt, að þetta yrði leiðrétt hér á sama stað og missögnin var sögð, og auk þess tel ég víst, að hæstv. forsrh. vilji sjálfur fá að leiðrétta þetta og vilji fylgja þeirri gömlu og góðu reglu að hafa heldur það, sem sannara reynist.