18.03.1971
Neðri deild: 64. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (3715)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að þessi aths. skuli hafa komið hér fram, og það er auðvitað eðlileg og skiljanleg sú skýring, sem á því er gefin, sem ég sagði. En þetta er þannig tilkomið, að ég fékk þetta plagg í hendurnar í gær, en hv. þm. veit betur um, hvernig rannsóknin er tekin heldur en iðnrn. Mér kemur það ákaflega einkennilega fyrir sjónir, að Skógrækt ríkisins eða rannsóknastofa Skógræktarinnar skuli vera að taka prufur og láta rannsaka þetta og láta ekki iðnrn. eða landbrn., sem hún heyrir undir, slíkar rannsóknir í té. Það þarf að fara til Magnúsar Kjartanssonar til þess að fá það upplýst, hver hefur tekið þessi sýnishorn. Og þetta minnir mig á það einnig, hvað mikið er gert til þess að þyrla upp ryki í sambandi við þetta mál, sem við ræddum um, þegar þessir 37 líffræðingar fara allir að skrifa undir eitt skjal, sem er ákaflega óvísindalegt, fara að safna undirskriftum um það, hvernig niðurstaða í skýrslu sé. Eins og ég sagði í ræðu minni, hefði mátt leiðrétta, ef einhver einn af þessum mönnum, við skulum segja sá, sem fyrstur uppgötvaði vitlausar tilvitnanir í fræðirit, hefði rætt það við iðnrn. Þá hefði verið hægt að skýra það mál strax. En hitt er svo annað mál, að það er rétt, að fram komi það sanna í þessu máli, hvernig á þessu stendur, því að þegar ég fékk afrit af þessari skýrslu, sem barst í gær til Rannsóknastofnunar iðnaðarins, þá er þetta þannig sett upp, að það eru sýni af barri frá Íslandi og það er sagt, hvað séu mörg mg af flúor í kg. Það er notuð Winters-aðferð, sem er önnur aðferð en Rannsóknastofnun iðnaðarins notar. Ég hugði, að sýnin hefðu verið tekin 1969 og 1970, en hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hefur núna fengið upplýsingar um það frá rannsóknarstofnun Skógræktarinnar, að þau hafi verið tekin í haust og af mismunandi gömlum greinum. Ég verð að segja það, að það kom mér líka mjög einkennilega fyrir sjónir, að það skyldi aðeins vera svo í einu tilfelli af þessum tilraunum, að flúormagnið væri minna 1969 en 1970.

Ég ætla svo að nota tækifærið, vegna þess að Austri sagði í Þjóðviljanum í morgun, að það væri nokkuð einkennilegt, að það væri gefið mínusgildi á flúor og menn freistuðust þá til þess að setja mínus fyrir framan aðrar niðurstöður mínar í ræðunni, af því að ég sýndi með þessu, að ég hefði manna minnst vit á því, sem ég hefði þó manna mest haft afskipti af, eða eitthvað á þessa leið. Þess vegna spurðist ég fyrir um þessar rannsóknir og hef fengið um þær þessar upplýsingar núna í hendurnar rétt áður en þessi fundur byrjaði:

„Þessar niðurstöður, er ráðh. vitnaði til í útvarpsumr. frá Alþ. þriðjudaginn 16. þ.m., eru niðurstöður efnagreiningar sýnishorna, sem tekin voru af Hauki Ragnarssyni, tilraunastjóra Skógræktar ríkisins, árin 1969 og 1970.“

Þetta segir nú í þessum upplýsingum, sem ég fæ, en það er sýnilegt, að annaðhvort er þetta rangt eða rangt hjá hv. 6. þm. Reykv. Mér þykir miklu sennilegra, að það sé rétt, að það hafi verið tekið af árssprotum, sem eru eldri, einu ári eldri 1970 en 1969, og þess vegna sé eðlilegt, að það sé meira í eldri nálunum. Finnst mér miklu sennilegra, að það sé rétt, því að hitt væri reyndar næsta furðulegt, því að það er rétt eins og hv. 6. þm. Reykv. segir, að einmitt í sígrænu trjánum hleðst flúorinn upp, en ekki í lauftrjánum, sem fella blöðin.

Orsök þess, að fram koma neikvæð gildi við notkun svo nefndra Villard and Winters-aðferðar við ákvörðun flúormagns, er, að SYNTEF-rannsóknastofnunin í Þrándheimi hefur þann hátt á að bæta út í upplausn þá, sem efnagreina skal, fyrir fram ákveðnu magni flúors. Jafnframt eru útreiknaðir ákveðnir fráviksmöguleikar plús eða mínus. Komi því við efnagreininguna fram minna magn flúors en sett var í upplausnina, kemur fram neikvætt gildi. Verður því í þessu tilfelli að taka til greina jákvæða frávikið, sem útreiknað var, og í umræddu tilfelli var 1.1 mg flúors í kg, þannig að útreiknað magn flúors yrði í þessu tilfelli 0.5 p. p. m. eða mg flúors í kg, þótt efnagreiningin sýni neikvætt gildi, =0.6 p. p.m.

Með þessu held ég, að nokkrar gátur séu ráðnar, bæði hver gerði þessar rannsóknir, hvernig sýnin voru rannsökuð, hvernig þau voru tekin og hvernig út kemur hið neikvæða gildi flúormagnsins.