21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (3739)

40. mál, siglingar milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar

Flm. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Það, sem hér hefur komið fram í þessum umr., gefur mér ekki tilefni til neinna andsvara, heldur þvert á móti að þakka þær góðu undirtektir, sem hafa komið um þetta mál, og ég hlýt að gera mér vonir um það, að það dragist ekki lengi, að það, sem till. miðar að, komist í framkvæmd. Að vísu sagði hæstv. samgrh., að það væri eftir að athuga, hvort þessar ferðir yrðu daglega. Ég fyrir mitt leyti vil leggja áherzlu á það og taka undir það, sem hv. 3. þm. Sunnl. sagði, að það er í rauninni ekki annað viðunandi en að þær verði það. Ef einhver dráttur kynni að verða á því, að hægt væri að koma því þannig fyrir, þá vil ég þó leggja megináherzlu á það, að fylgt sé algerlega reglulegri áætlun, þannig að truflanir verði sem allra minnstar.

Ég er sammála hæstv. ráðh. um það, að það var samgöngubót við Eyjar, þegar þverbrautin kom á flugvöllinn, en þær tölur, sem ég nefndi, 89 dagar, sem flugið féll niður vegna veðurs, eru eftir að flugbrautin var tekin í notkun. Hún á að vísu eftir að lengjast, en ég vara við því að gera sér vonir um, að það fjölgi flugdögunum mjög mikið, þó að vonandi geri það eitthvað.

Það kom fram hjá hv. 3. þm. Sunnl., að það væri skoðun sumra, að það væri varla hægt að gera ráð fyrir því, að þessar ferðir yrðu nokkru sinni í lagi, nema Vestmanneyingar sjálfir hefðu umráðarétt yfir skipinu. Ég hef heyrt þessar skoðanir, þó að þær komi ekki fram á neinn hátt í till. minni, vegna þess að ég vil gera ráð fyrir því, að Skipaútgerð ríkisins sinni skyldum sínum við byggðarlag eins og Vestmannaeyjar, og treysti því, að rétt stjórnvöld sjái þá um það, að það sé gert, ef einhver misbrestur kynni að verða á.

Mig langar svo að síðustu til þess að segja þetta í tilefni af því, að hæstv. samgrh. sagði í upphafi ræðu sinnar, að ef ég hefði leitað upplýsinga hjá honum eða forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, hefði ég fengið að vita það, að þetta mál væri þegar í góðri athugun. Í tilefni af því vil ég segja í fyrsta lagi, að ég efaðist ekki um það, að vandamál þessi væru í athugun. En till. mín fjallar um það, að þeirri athugun lyki og komizt yrði að niðurstöðu, og ég vona, að hún verði alla vega til þess, að menn hraði sér að komast að henni. Hitt er svo annað mál, sem ég vildi segja í þessu sambandi, að ég hef oft rætt þessi vandamál við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, en svo illa vildi til, að að undanförnu hefur hann verið fjarverandi, og ég hef þess vegna ekki rætt þetta við hann alveg nýlega og gat ekki náð til hans meðan ég var að undirbúa þessa till. En ég fór nú samt ekki til hæstv. samgrh., heldur fór ég til annars þeirra stjórnarnefndarmanna, sem settir hafa verið við hlið forstjórans í stjórn þessa fyrirtækis, og leitaði upplýsinga hjá honum. Þær upplýsingar, sem ég fékk hjá honum, voru á þá lund, að það dró ekkert úr mér að flytja þessa till.

Nú er gott að vita það, að hæstv. ráðh. muni ekki í framtíðinni taka það illa upp fyrir mér, þó að ég ónáði hann, þegar ég næ ekki í þá embættismenn hans, sem kunna að vera fjarverandi, og kann að vera, að hann verði þá einhvern tíma var við það.