29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (3834)

87. mál, stjórnkerfi sjávarútvegsins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en mér finnst rétt, að það komi fram, að þegar þessi nefnd var skipuð, leitaði sjútvrn. eftir því við framkvæmdastjórn fiskimálaráðs, að það tilnefndi mann í nefndina. Við, sem erum í framkvæmdanefndinni, áttum þess kost að vera skipaðir í nefndina. Í framkvæmdanefnd fiskimálaráðs er formaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, formaður Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem jafnframt á sæti í stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, og ég, sem er fulltrúi Landssambands ísl. útvegsmanna. Við vorum allir þeirrar skoðunar, að við hefðum svo takmarkaðan tíma, að það væri ekki rétt, að einhver okkar færi í nefndina, en þar sem við værum með starfsmann, þætti okkur það miklu betra og þægilegra, að hann yrði í nefndinni, en hefði náið samráð og samstarf við okkur um það, sem væri að gerast hverju sinni, og það hefur hann virkilega gert, og það er auðvitað ætlun okkar að ræða málið í heild í ráðinu, þegar lengra er komið. Það stendur einnig fyrir dyrum að kalla okkur sérstaklega á fund þessarar nefndar, og sama mun verða gert við stjórn Fiskifélags Íslands. Þannig mun þessi nefnd hafa mjög náið samstarf við allar greinar sjávarútvegsins, en hitt hlýtur að verða miklu erfiðara, ef rn. eða ráðh. á að skipa tvo menn úr öllum þessum fjölda greina, sem standa að sjávarútveginum. Þess vegna tel ég, að ráðh. hafi farið mjög rétt að við þessa nefndarskipun og það sé eiginlega ekki hægt með neinum rökum að benda á, að betur hefði verið hægt að skipa í nefndina en gert hefur verið, því að það er og verður höfð mjög náin samvinna við alla þá aðila, sem hér eiga hlut að máli. Þess vegna tel ég, að niðurstaðan, sem við komumst að í sambandi við þessar umr., sé rétt, að þessi till. sé óþörf. Ég get því ekki fallizt á sjónarmið hv. flm.