25.11.1970
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (4053)

100. mál, rannsókn á aðdraganda verðstöðvunar

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal aðeins taka lítinn þátt í þessum umr. og ekki fara að halda neina varnarræðu út af þeim ásökunum, sem bornar eru á mig í þessu máli.

Mér þótti merkileg þessi yfirlýsing af hálfu þm. Framsfl., eftir það, sem áður hafði verið sagt hér í þingsölunum, að þeir muni vera á móti þessari till., sem hér er verið að ræða, en afstaða þeirra kæmi fram í till. þeirra, sem hv. þm. sagði, að væri annars eðlis. Ég vil aðeins árétta hér nokkur atriði, sem gefa dálitla skýringu á ástandinu og segja aðra sögu bæði fyrr og síðar í sambandi við þessi verðlagsmál en hv. þm. hafa viljað láta í veðri vaka hér. Það er nú sagt og hefur reyndar verið sagt hér áður, að ríkisstj. hafi átt að láta ákveða verðstöðvun strax eftir kjarasamningana. Ég veit, að mörgum hv. þm. er það kunnugt, að fyrir aðila vinnumarkaðarins, bæði fulltrúa launþegasamtakanna og atvinnurekenda, þegar þeir voru við samningagerðina í vor, voru lagðar áætlanir um verðlagsþróunina, sem líkleg þótti, að verða mundi, ef þessar og þessar kauphækkanir ættu sér stað. Þeim áætlunum, sem þarna voru lagðar fram, var ekki mótmælt af nokkrum þunga af neinum, heldur taldar eðlilegar. Það var auðvitað ljóst, að útflutningsatvinnuvegirnir mundu bera allar kauphækkanirnar, hverjar svo sem þær yrðu, og það var talið líklegt, eins og þá stóð á, að sjávarútvegurinn gæti borið verulegar verðhækkanir, eins og hann líka hefur gert. En mönnum, fulltrúum frá báðum aðilum, var líka alveg jafnljóst þá, að aðrar atvinnugreinar, ýmsar atvinnugreinar hér innanlands, gátu með engu móti tekið á sig kauphækkanir án verðhækkana. Og ég minnist þess, að í þeim áætlunum, sem Efnahagsstofnunin lagði fyrir, var gert ráð fyrir, að lægstu mörk almennrar verðlagshækkunar mundu líklega verða nálægt 13.1%. Ég held, að hv. 6. þm. Reykv. hafi talað um nálægt 12% hækkanir, sem orðið hefðu og gefa mundu svo og svo mikla upphæð á ársgrundvelli, en í þessum mörkum, sem aðilum var gerð grein fyrir, var ekki tekið tillit til neinna hækkana á erlendu verðlagi. Og ef ég man rétt, þá held ég, að áætlað hafi verið, að það hlyti a.m.k. að mega gera ráð fyrir um 1.6% til viðbótar þar, ásamt gagnverkunum, sem af því mundu leiða. Það liggur því fyrir aðilunum, að með tilteknum kauphækkunum, eins og þá var verið að tala um, mundi óhjákvæmilega mega reikna með því, að almennar verðlagshækkanir yrðu yfir 15%. Og enginn aðili á þessum vettvangi hreyfði því, að þetta mætti hindra með verðstöðvun þegar í stað, þó að menn tali um það nú. Ríkisstj. lagði hins vegar fram miðlunartillögu í þessu máli, eins og kunnugt er, og við höfum fjallað um hana hérna. Hún kom með ábendingar til aðila um aðrar leiðir, mjög takmarkaðar kauphækkanir samhliða allt að 10% hugsanlegri gengishækkun til þess að reyna að halda stöðugu verðlagi og jafnvægi í þjóðfélaginu. Ég held þess vegna, að engum, sem fylgdist með þessum umr. og viðræðum í vor, hafi komið á nokkurn hátt á óvart þær verðhækkanir, sem á eftir komu. Og það er athyglisvert, að þegar Alþb.-menn leggja fram sitt verðstöðvunarfrv., þá gera þeir ráð fyrir, að sú verðhækkun haldist, sem mest var deilt um, 12.5% hækkunin á verzlunarálagningu.

Minnzt var á, hvernig stóð á 1960, og hv. 6. þm. Reykv. las upp úr pésanum Viðreisn. Ríkisstj. lýsti því þá yfir fyrir fram, að á kauphækkunum, sem yrðu, yrðu atvinnurekendur sjálfir að bera ábyrgð. Þá var ekki verðtrygging, hún var ekki leyfð. Og það vissu menn fyrir fram, að ef þeir semdu um einhverja hækkun, þá yrðu þeir að taka henni. Hér er því gersamlega ólíku saman að jafna. En eitt meginatriðið var verðtrygging, sem menn gerðu ráð fyrir, að mundi leiða til þessara verðhækkana, sem urðu.

Ég hef minnzt á miðlunartillögu ríkisstj. og deili ekki meira um hana. 19. júní voru samningarnir gerðir. Þá skrifaði ríkisstj. aðilum vinnumarkaðarins og óskaði eftir samráði um viðbúnað gegn þeim víxlhækkunum á kaupgjaldi og verðlagi, sem væru í aðsigi. Daginn eftir svaraði Vinnuveitendasambandið þessu bréfi, en svar Alþýðusambandsins barst í ágúst, og viðræður hófust 20. ágúst. Hugleiðingar okkar um það, hvort eitthvað skyldi gert og hvað gera skyldi, hlutu af þessum ástæðum fyrst og fremst að miðast við þau mörk, sem þá var um að ræða. Það var hækkun framfærsluvísitölunnar, sem hafði orðið 1. ágúst, og væntanleg hækkun kaupgjaldsvísitölu 1. sept., sem varð 4.2%. Og þessum 4.2% var ekki hleypt inn í verðlagið m.a. fyrir tilstuðlan ríkisstj. Þess vegna er það mjög mikill misskilningur hjá hv. 3. þm. Vesturl., sem sagði hér áðan, að það væri alveg tvímælalaust, að umr. á síðara stigi málsins hafi valdið verðlagsþróuninni. Verðlagsþróunin lá á borðinu í áætlanagerð, sem ekki var vefengd, og í engri tillögugerð frá þessum aðilum voru tilmæli um, að þessi verðlagsþróun yrði stöðvuð þegar í júlímánuði. Það er líka rangt, að listi um afgreiðslu í verðlagsnefndinni hafi verið þannig vaxinn, að hann hafi verið samþykktur í ríkum mæli gegn atkv. fulltrúa alþýðusamtakanna í verðlagsnefnd. Það var í mjög ríkum mæli, svo ef yfir hann er farið, — ég hef hann ekki undir höndum núna, — að hækkanir voru sámþykktar mótatkvæðalaust og í mörgum tilfellum með samhljóða atkv. nær allra í verðlagsnefnd.

Ég held, að menn geti ómögulega núna eftir á eða eigi ekki núna eftir á að vera að gera tilraun til þess að búa til annað viðhorf en var í þjóðfélaginu og reyna að finna einhverjar tilbúnar skýringar á hlutum, sem í verulegum mæli var vitað, að yrðu. Það var ekkert gáleysi af minni hálfu að nefna það, að við vildum stefna að verðstöðvun en efnislega mun ég hafa sagt það, ég man ekki orðalagið, í þessu umtalaða sjónvarpsviðtali 13. okt., vegna þess að ég sagði efnislega það sama í stefnuyfirlýsingu minni hér í sölum Alþ. 15. okt., og sú stefnuyfirlýsing var samin — og vorum við sammála um hana í ríkisstj. — áður en ég átti þetta sjónvarpsviðtal.

Ég þykist nokkuð viss um það, að ef menn vilja líta hlutlaust á þetta mál og fordómalaust, þá skiljist mönnum, að í raun og veru eru þær till. tilefnislausar, sem hér hafa verið bornar fram, fyrst af Alþb.-mönnum, síðar af framsóknarmönnum. Þær eru tilefnislausar, þegar við lítum til þess ástands, sem við höfðum búið við, og með hverjum hætti kauphækkanirnar og samningarnir voru gerðir og með hvaða vitneskju menn gengu til þeirra samninga og luku þeim endanlega 19. júní s.l.