28.10.1970
Sameinað þing: 6. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (4168)

319. mál, úthlutun fjárveitingar til jöfnunar námskostnaðar skólafólks

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. nefndi það margar tölur um kostnað skólanemenda, sem þurfa að vistast að heiman, að ég náði þeim ekki öllum, en ég náði því þó, að hann taldi fjárþörfina um 48 millj., en við hvað hann miðaði, var ég ekki alveg viss um og langar til þess, að hann endurtaki það. Miðar hann ekki við þá, sem koma til greina samkv. auglýsingum rn. í sumar? Ég tók það svo. En auglýsingin var á þá leið, að þeir einir kæmu til greina, sem ekki væru á skyldunámsstigi, m.ö.o., þeir fá engan styrk, sem eru á skyldunámsstiginu. Þeir, sem eru í heimavistum, hvar sem er á landinu, koma heldur ekki til greina. Það eru aðeins þeir, sem komast ekki í heimavistir, svo og þeir, sem eru ekki á skyldunámsstigi, sem koma til greina. Eru þessar 48 millj. miðaðar við þessa nemendur?

Nú hafa, eins og ég hef getið um í sambandi við annað mál, legið fyrir upplýsingar samkv. bréfi frá menntmrn., sem mér hefur borizt, um að nemendur utan barnaskólanna hafi verið fyrir tveimur árum um 3640, en eru vafalaust orðnir um 4000 núna. Þetta er utan barnaskólastigsins. Ekki koma nú háar upphæðir út úr þessum 48 millj., ef á að skipta þeim niður, þannig, að hver fái námsstyrk.

Þá taldi ráðh. upp, hve margar umsóknir hefðu borizt. Það er ekki við því að búast, að það berist margar umsóknir, þegar mönnum er sagt: Það þýðir ekkert fyrir ykkur að sækja, sem eruð á skyldunámsstigi, og ekki heldur ykkur, sem eruð í heimavistarskólum. Þær verða náttúrlega aldrei margar með því móti.

Hæstv. ráðh. nefndi, að það væri fleira en dvalarstaður eða heimilisfesta nemendanna, sem segði til um það, hvort þörf væri á námsstyrk. Þetta er rétt hjá honum. Menn eru misjafnlega efnaðir. Sumir foreldrar hafa ekki efni á því að senda börn sín í skóla. Þetta er alveg rétt. En mun verri eru ástæður fátæks fólks, sem verður að senda börn sín að heiman, en hinna, sem geta látið þau ganga í skólann heima hjá sér. Og þess vegna held ég, að það ætti að láta það fólk ganga fyrir.

Annars veit ég ekki, hvernig hæstv. ráðh. hugsar sér að flokka fólkið eftir efnahag foreldra. Ég held, að það verði dálítið flókið. Hvernig er það með námslán háskólastúdenta? Eru þau flokkuð eftir efnahag foreldranna? Ekki hef ég heyrt það nefnt. Nei, það er alls ekki gert. Á þá að taka upp einhverja nýja aðferð hvað þessa nemendur snertir?

Þá átta ég mig ekki á því, hvers vegna ekki er farið að útbýta styrkjunum. Ég hef reyndar fundið þá skýringu og sagt frá því í þingræðu, að það muni vera vegna þess, að það sé ekki hægt að skipta þessum 10 millj. af nokkurri sanngirni, það sé svo lítil upphæð. Og þess vegna sagði fulltrúi hæstv. ráðh. mér fyrir fáum dögum, að það ætti að bíða með það, þangað til kæmi önnur fjárveiting, og skipta svo hvoru tveggja í einu. Er þetta ekki alveg rétt? Ég tók þetta alveg trúanlegt. Og ég skil það ósköp vel. Ég held, að það sé ekki hægt að skipta þessum 10 millj. af nokkurri sanngirni. En hefði þetta verið hægt, hefði vafalaust verið auglýst fyrr um styrkina, því að ég ætla, að skólar hafi verið um það bil að hætta störfum í vor, þegar loksins kom auglýsingin frá rn., jafnvel löngu hættir. Ég man ekki nákvæmlega, hvenær þetta var í sumar, sem ég sá auglýsinguna, en ég held, að skólar hafi verið löngu hættir, nemendurnir komnir hingað og þangað, svo að það var ekki að búast við mörgum umsóknum á þessu tímabili. Það getur verið, að þær komi núna, eftir að skólarnir eru byrjaðir aftur og nemendur eru farnir að átta sig á þessum hlutum. En aðalerindi mitt var það að spyrja hæstv. ráðh.: Eru þessar 48 millj., sem hann telur fjármagnsþörfina, miðaðar við þá nemendur, sem geta komið til greina að fá styrk samkv. auglýsingum rn. í sumar?