03.11.1970
Sameinað þing: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í D-deild Alþingistíðinda. (4190)

322. mál, símasamband milli Reykjavíkur og Vesturlands

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, sem voru skýr og afdráttarlaus, og ekki nema gott um það að segja. Ég gleðst líka yfir því, að þarna er unnið að endurbótum og áætlanir hafa verið gerðar um þær og verið er að framkvæma þær. Er mjög ánægjulegt að heyra það.

Út af þessu með gjaldskrána, þá er ég nú feginn því, hvernig hæstv. ráðh. tók undir það mál að lokum, því að ég held, að þetta sé framtíðin, að það verði eitt gjald á svæðum, sem þannig eru afmörkuð. Þó að einhver bið verði á því, þá verður að sætta sig við það, ef stefnan verður mörkuð í þessa átt.