10.11.1970
Sameinað þing: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (4207)

44. mál, læknisþjónusta í strjálbýli

Fyrirspyrjandi (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. heilbrmrh. greið svör við því, sem um var spurt. Ég geri ráð fyrir því, að þeir, sem stóðu að till. um að reyna að fá erlenda lækna til þjónustu hér, hafi ekki gert sér mjög miklar vonir um árangur, en talið þetta reynandi, enda hafa sums staðar á þeim stöðum, þar sem lækna vantar, komið fram raddir um, að þetta yrði reynt, og því sjálfsagt. Nú hefur verið gerð tilraun til þess í Noregi að auglýsa eftir læknum, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh. Í þessu sambandi mætti vel benda á, að dæmi eru til þess, að norskir stúdentar hafi komið til náms við Háskóla Íslands og numið þar læknisfræði. Slíkir menn hafa að sjálfsögðu lært íslenzku, og væri ekki óhugsandi í því sambandi, að þau tengsl hefðu skapazt við landið eða sköpuðust við landið og við Háskólann hér, að þar væri einhver von.

Varðandi þál. um endurskoðun á ýmsum þáttum heilbrigðislöggjafarinnar skýrði ráðh. frá því, að nefndin, sem þál. gerir ráð fyrir, hefði nú verið skipuð, en ekki fyrr en í októbermánuði, og vil ég nú leyfa mér að finna að því, þar sem um svo aðkallandi mál er að ræða, að nefndin skuli ekki hafa verið skipuð fyrr, en læt ósagt, enda er mér ekki um það kunnugt, hvort þar er við heilbrmrn. að sakast eða þá, sem tilnefna eiga fulltrúana. Ég vil leyfa mér að átelja þetta, að nefndin skuli ekki hafa verið skipuð fyrr en í okt., en þáltill. var samþ. á Alþ. 22. apríl. Vildi ég nú mega vænta þess, að hæstv. ráðh. geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að fá nefndina til að hraða störfum, þannig að hún ljúki þeim ekki síðar en fyrir 1. marz, eins og segir í þál.