08.12.1970
Sameinað þing: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í D-deild Alþingistíðinda. (4324)

139. mál, dragnótaveiði í Faxaflóa

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því við Hafrannsóknastofnunina, að hún sendi uppistöðu þess svars, sem gefið er við þessari fsp., samkv. þeim athugunum, sem hún hefur látið fara fram á umræddu tímabili.

Varðandi fyrsta lið fsp. er svarið á þessa leið: Fyrsta árið, sem dragnótaveiðar voru leyfðar samkv. lögum nr. 40 frá 9. júní 1960, var afli dragnótabáta frá Faxaflóahöfnum 4923 lestir. Tveimur árum síðar eða 1962 komst dragnótaafli Faxaflóabáta upp í 10539 lestir, en var á árabilinu 1963–1966 nokkuð jafn eða 6500–8000 lestir á ári. Eftir 1966 fór veiði dragnótabáta í Faxaflóa hins vegar ört minnkandi og komst árið 1968 niður í 684 lestir, en var 1395 lestir á árinu 1969. Tölur um afla dragnótabáta fyrir yfirstandandi ár voru því miður ekki fáanlegar, en ekki er talið, að aflinn sé verulega frábrugðinn því, sem verið hefur s.l. tvö ár, en meðaltal þeirra er um 1080 lestir.

Þátttakan í dragnótaveiðum á Faxaflóa hefur einnig minnkað á undanförnum árum. Þannig voru 32 bátar frá Faxaflóahöfnum gerðir út á dragnót árið 1964, 17 árið 1967 og 10 á s.l. ári. Meðalafli á bát á tímabilinu 1964–1967 hélzt nokkuð jafn eða 234–254 lestir á bát, en tvö s.l. ár var hann 114 og 140 lestir hvort ár. Hlutur hinna einstöku fisktegunda hefur verið nokkuð jafn frá ári til árs. Þannig hefur mest borið á ýsu flest árin. Sé tekið meðaltal áranna 1960–1968, kemur í ljós, að 42% afla dragnótabáta við Faxaflóa er ýsa, 33% er þorskur, 19% skarkoli, en ýmsar aðrar fisktegundir eru samtals 6%. Athuganir á lengdardreifingu aflans sýna, að sá fiskur, sem veiðist í dragnót, er í flestum tilfellum af svipaðri stærð og fiskur, sem veiðist t.d. í botnvörpu á Dragnótaveiði sömu fiskislóð, enda gilda sömu möskvastærðarákvæði fyrir dragnót.

Af framangreindu má ljóst vera, að bein áhrif dragnótaveiða í Faxaflóa á íslenzku þorsk-, ýsu- og skarkolastofnana hljóta að hafa verið mjög óveruleg, a.m.k. tvö undanfarin ár, þar eð dragnótaveiðin var þá aðeins 1000 lestir að meðaltali á ári eða innan við 1% af heildarveiði þessara fiskstofna. Nokkuð öðru máli gegndi á árunum 1962–1967, þá var skarkolaafli dragnótabáta við Faxaflóa um 15–20% af heildarskarkolaveiði við Ísland.

Þótt dragnótaveiðar síðustu tveggja ára séu í svo smáum stíl, að það geti vart haft nein teljandi áhrif á viðkomandi fiskstofna, ef á heildina er litið, er að sjálfsögðu ekki útilokað, að um einhver óbein og staðbundin áhrif geti verið að ræða, en slík áhrif verða þó vart einangruð frá allsherjarathugunum, sem gera þyrfti á skipulagi fiskveiða á Faxaflóasvæðinu með tilliti til veiðiaðferða og breyttra aðstæðna, sem skapazt hafa við rýmkun togveiðiheimilda í flóanum, aðstæðna, sem ekki voru fyrir hendi, þegar lög um dragnótaveiðar voru sett árið 1960.

Við öðrum lið fsp. eru svör mín þessi:

a. Rækjuveiðar hófust við Eldey í júlí á þessu ári, og er því aðeins fengin um fimm mánaða reynsla af þessum veiðum.

b. Veiðarnar hafa gengið vel til þessa, enda virðist hér um allstórt veiðisvæði að ræða.

c. Enn er ekki ljóst, hve lengi vetrarrækjuveiðar muni stundaðar, en geta má þess, að á s.l. vetri fengu rækjuleitarskip á miðunum út af Stafnnesi um 194 kg á togtíma í marz, en í apríl hafði rækjuafli minnkað verulega, og fengust þá mest um 100 kg á togtíma. Af framangreindum ástæðum þykir ekki nægileg reynsla fengin af rækjuveiðum á Eldeyjarsvæðinu, til þess að unnt sé að setja haldgóðar reglur um veiðitakmarkanir, en verði svo gert, þegar meiri reynsla er fengin, þykir sjálfsagt, að sömu reglur gildi og annars staðar um forgang báta frá nærliggjandi verstöðvum.

Þá vík ég að síðasta lið fsp.

Rækjuleitarleiðangur við Suðvesturland hefst hinn 30. nóv. Þess ber að gæta, að svarið er gefið nokkru fyrr, og mun þessi rækjuveiðaleiðangur því nú hafinn og mun standa fram til jóla. Auk rækjuleitar verður í leiðangrinum gerð ítarleg könnun á magni humars og fiskseiða í rækjuafla á Eldeyjarmiðum. Munu niðurstöður þessa leiðangurs væntanlega veita mikla vitneskju um, hvort eða hverra takmarkana sé þörf á framangreindum miðum.

Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjanda þyki þetta fullnægjandi svör.