15.12.1970
Sameinað þing: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (4357)

332. mál, fiskiræktarmál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þegar fsp. þessi var tekin fyrir á síðasta fundi, var ég ekki tilbúinn með svarið, en mér fannst hv. fyrirspyrjandi vilja fyrirgefa það, og má segja, að það hafi einnig verið mér að kenna að aðvara ekki með það, áður en fsp. var tekin fyrir. En fsp. þessi er í þremur liðum. Það er spurt að því, hvað líði framkvæmdum á eftirtöldum þál.:

a) þál. frá 17. apríl 1968 um fiskeldisstöðvar,

b) þál. frá 2. apríl 1968 um, að bændaskólarnir veiti fræðslu í fiskirækt og fiskeldi,

c) þál. frá 29. apríl 1966 um stofnun klak- og eldisstöðvar fyrir laxfiska.

Varðandi framkvæmd á þál. frá 17. apríl 1968 um fiskeldisstöðvar, þá er hér um að ræða fiskeldisstöðvar, sem reknar yrðu sem aukabúgrein, og yrði þá væntanlega um að ræða silungseldi og þá helzt bleikjueldi. Efni þál. er það víðfeðmt, að framkvæmd þess mun óhjákvæmilega taka mörg ár og verða að byggja á meiri reynslu og sérþekkingu heldur en við höfum haft yfir að ráða fram að þessu. Samt sem áður hefur verið unnið á vissum sviðum, sem eru grundvöllur undir víðtækari störfum á umræddu sviði. Af undirstöðuþáttum í silungseldi, sem unnið hefur verið að í laxeldisstöð ríkisins í Kollafirði, er almenn kynning á urriða og bleikju í eldi auk lax að sjálfsögðu, fóðurtilraunir, kynbætur og sala á alibleikju til neyzlu: Í laxeldisstöðinni í Kollafirði hafa þegar fengizt mikilvægar upplýsingar um urriða og bleikju sem alifiska, og hefur bleikjan reynzt mun betri alifiskur heldur en urriði, en þess er ekki að vænta, að silungseldi verði eins arðvænlegt og laxeldi, enda er silungur mun ódýrari fiskur á markaðinum en laxinn. Í grein í búnaðarblaðinu Frey, ágústhefti 1968, bls. 315–324, hefur veiðimálastjóri gert grein fyrir ýmsum mikilvægum þáttum silungseldis, og skal að öðru leyti vísað til hennar. Greinina má fá í sérprentun í Veiðimálastofnuninni, ef þess er óskað.

Í laxeldisstöðinni í Kollafirði hafa á undanförnum árum farið fram kynbætur á bleikju. Fóðurtilraunir hafa og verið framkvæmdar og leitazt við að finna hollt og ódýrt fóður, en slíkt fóður er eitt af undirstöðuatriðunum undir því, að koma megi fiskeldi á sem aukabúgrein. Er nú unnið í Kollafirði að prófun á nýrri þurrfóðurblöndu, sem sett hefur verið saman af dr. Jónasi Bjarnasyni, starfsmanni Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins. Alibleikja úr Kollafjarðarstöðinni hefur verið seld á markaði í Reykjavík. Hefur hún þótt bragðgóð, og hefur fengizt gott verð fyrir hana. Áfram mun verða haldið við að vinna að framkvæmd efnis umræddrar þál. og reynt að hraða verkinu sem mest, en starfskraftar, sem fáanlegir eru á hverjum tíma til starfa, munu þó ráða mestu um, hvað verkið mun sækjast vel. En það liggur í augum uppi, að áður en bændur fara að taka silungseldi sem búgrein, þarf að liggja fyrir mikil reynsla og þekking á þessu sviði, þannig að hægt sé að gefa óhrekjandi leiðbeiningar um, hvernig að þessu skuli farið. Stofnkostnaður hlýtur að verða talsverður, og það má ekki byrja á þessu þannig, að það mistakist vegna þekkingarskorts.

Um b-liðinn, framkvæmd þál. frá 2. apríl 1968 um, að bændaskólarnir veiti fræðslu í fiskirækt og fiskeldi, er því að svara, að fræðsla í nefndum efnum hefur verið veitt við bændaskólana af veiðimálastjóra í rúman áratug og þá einkum á Hvanneyri. Er nú föst kennsla í framhaldsdeildinni á Hvanneyri í umræddum málum, sem veiðimálastjóri annast. Varðandi fræðslu og leiðbeiningar almennt er það að segja, að Veiðimálastofnuninni hefur bætzt nýr starfskraftur á þessu ári, Árni Ísaksson fiskifræðingur, og hefur því verið kleift að auka fræðslu um fiskeldi á árinu. Í bréfi veiðimálastjóra til landbn. Ed. Alþ., dags. 26. febr. 1968, varðandi margnefnda fræðslu er skýrt stuttlega frá fræðslu Veiðimálastofnunarinnar á undangengnum árum.

Varðandi framkvæmd á þál. frá 29. apríl 1966 er það að segja, að athugun hefur farið fram á stöðum norðanlands, þar sem komið getur til greina að reisa eldisstöðvar. Þá hefur verið gerð áætlun um byggingu eldisstöðvar, sem ekki hefur þó verið staðsett. Veiðimálastjóri sendi rn. álitsgerð um umrætt mál ásamt kostnaðaráætlun, og er hún frá því í júlí s. l. Grg. þessi er áætlun um eldisstöð á Norðurlandi, og hefur Guðmundur Gunnarsson verkfræðingur unnið að þessari áætlunargerð ásamt veiðimálastjóra. Það var gengið frá þessari áætlun í marz 1970, þótt hún kæmi ekki til rn. fyrr en s. l. sumar. Frekari athuganir á umræddu máli hafa svo farið fram í sumar, og er grg. að vænta nú á næstunni um þetta mál, eftir því sem veiðimálastjóri hefur nýlega upplýst, og þegar spurt var að því, hvað það þýddi, bráðlega, þá var talað um, að það gæti orðið nú í vetur, sem kæmi endanleg grg. um eldisstöð á Norðurlandi.