02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (4462)

344. mál, bygging verkamannabústaða

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ef ég man rétt, þá höfðu nú einhverjir kvatt sér hljóðs við fyrri umr. þessa máls eða þegar fyrst var svarað þessari fsp., en ég get gjarnan sagt hér nokkur orð út af þeim aths., sem fram komu, eftir að ég hafði flutt mitt svar. Og þá er það fyrst og fremst ein aths., sem hv. 9. þm. Reykv., fyrirspyrjandi þessa máls, flutti.

Hann dró það í efa, að þessi háttur, sem nú er hafður á byggingu verkamannabústaða, að láta sveitarfélögin taka að sér framkvæmdina en ekki félög, eins og áður hafði verið, mundi verða til gagns fyrir þessa byggingarstarfsemi, og hann vildi draga það í efa, að sveitarfélögin yrðu jafnfljót til starfa eins og félögin ættu að vera og hefðu verið. Ég skal nú ekki ræða um þetta ítarlega, en aðeins segja það, að þegar ég flutti mitt svar, — ég held, að það hafi verið í nóvembermánuði árið sem leið, — þá höfðu aðeins 13 sveitarfélög tilkynnt félmrn., að þau hefðu ákveðið að kanna möguleika á byggingu verkamannabústaða samkv. hinum nýju lögum, og voru þessi sveitarfélög nefnd í því sambandi. En þar hafði ég þá aths. að gera og hef enn, að þá var ekki liðið nema tæpt hálft ár síðan lögin tóku gildi og ekki ástæða til þess að ætla, að fleiri kæmu svona undir eins til þess að tilkynna sínar framkvæmdir.

Nú eru að vísu liðnir frá því að ég birti þetta svar u. þ. b. tveir mánuðir eða rúmlega það. En síðan hafa 9 sveitarfélög til viðbótar þessum 13 tilkynnt, að þau hafi þessi áform á prjónunum. Þessi sveitarfélög eru Borgarnes, Eyrarhreppur, Höfn í Hornafirði, Ísafjörður, Patreksfjörður, Reykjavík, Suðurfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Súgandafjörður, og veit ég þó um nokkur fleiri sveitarfélög, sem eru að athuga málið. Og enn er ekki liðið ár frá því að þessi nýju lög voru samþ. og komu í gagnið.

Ef þetta er nú borið saman við framkvæmdirnar, sem urðu, eftir að gömlu lögin um verkamannabústaði voru samþ. 1929, þá var flýtirinn í framkvæmdum hjá félögunum ekki meiri en það, að á 11 árum, frá 1929–1940, eru stofnuð og tilkynnt 11 félög til byggingar verkamannabústaða. M. ö. o., í 11 ár koma samtals 11 félög eða eitt félag á ári fyrstu árin eftir að þessi verkamannabústaðalög tóku gildi. Nú á fyrsta árinu, sem hin nýja löggjöf kemur til framkvæmda, eru komin hér 22 sveitarfélög á rúmu hálfu ári eða tæpu ári. Það eru kannske liðnir 7–8 mánuðir frá því, að lögin tóku gildi, og þangað til sum þessi sveitarfélög hafa tilkynnt sína þátttöku. Þetta get ég á engan hátt tekið sem bendingu um það, að þetta fyrirkomulag sé eitthvað veikara eða takmarkaðra heldur en hitt, og síður en svo, alveg þvert á móti.

Þetta vildi ég aðeins taka fram, til þess að menn færu ekki í neinar grafgötur um það, hvernig framkvæmd þessa máls hefur verið, og gætu gjarnan borið það saman við framkvæmd málsins á árunum 1929–1940, þegar aðeins 11 félög tilkynntu framkvæmdir í málinu.