02.02.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í D-deild Alþingistíðinda. (4479)

345. mál, kal í túnum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Á árinu 1965 urðu miklar kalskemmdir á Norður- og Norðausturlandi eftir langt góðæristímabil með ágætri grassprettu. Síðan hefur kal og grasbrestur breiðzt út um allt landið á þessum fimm árum og bændur orðið fyrir stórfelldum skaða af völdum þess. Á þessu tímabili hefur veðurfar hér á landi farið mjög kólnandi, eins og vitað er. Að sjálfsögðu er sterkt samband á milli lækkandi sumarhita og vaxandi grasleysis, enda eru víst allir, sem um þetta mál hugsa, sammála um, að meginorsök grasleysis á umræddu tímabili sé fólgin í köldu tíðarfari. Í öðru lagi ber að hafa í huga, að með breyttum búskaparháttum hefur hirðing, meðferð og notkun ræktaða landsins orðið harkalegri á margan hátt.

Sumarið 1965 voru hafnar að tilhlutan landbrn. kalrannsóknir á Fljótsdalshéraði. Í þessum tilraunum, sem standa enn, hefur komið fram áburðarþörf og nokkur kalkþörf, en áburðargjöf og kölkun hafa þó ekki megnað að varna kali eða grasbresti. Á tilraunastöðvum jarðræktar og meðal bænda eru nú í gangi 59 áburðartilraunir til könnunar á áburðarmagni og tegundum áburðar, og er tilgangur þessara tilrauna m. a. að afla þekkingar á áhrifum áburðar á kalþol og grassprettu. Auk áburðartilraunanna eru 38 kalktilraunir í gangi, þar af 26 hjá bændum. Tilraunir með búfjáráburð eru á öllum tilraunastöðvum. Rannsókn á jarðvinnslu og vélanotkun á ræktuðu landi er í 35 tilraunum. Tilraunir með grastegundir og stofna eru 32 og grænfóðurtilraunir 17. Á bændaskólanum á Hvanneyri eru 23 áburðar- og kalktilraunir gerðar í samráði við Rannsóknastofnun landbúnaðarins, 9 grastegunda- og stofnatilraunir og 2 grænfóðurtilraunir. Verulegur hluti af jarðvinnslutilraunum og tilraunum með vélanotkun á ræktuðu landi, sem þegar hafa verið nefndar, eru einnig gerðar á vegum bútæknideildar á Hvanneyri.

Síðla sumars 1969 skipaði landbrh. sjö manna nefnd sérfræðinga um jarðræktarmál undir stjórn Pálma Einarssonar fyrrv. landnámsstjóra. Verkefni nefndarinnar voru þessi:

1. Safna saman gögnum, sem liggja fyrir nú þegar, um kal og kalrannsóknir í landinu.

2. Gera till. um varnir gegn kali og grasbresti af völdum kals.

3. Athuga, á hvern hátt heppilegt sé að endurrækta skemmd tún, þar sem kal er fyrir hendi og arfavöxtur ríkjandi.

Nefndin aflaði upplýsinga um útbreiðslu og tegundir kals, og efnt var til ráðstefnu, þar sem sérfróðir menn gerðu grein fyrir stöðu kalrannsókna í landinu og báru saman innlenda og erlenda tilraunavinnslu. Ítarleg skýrsla um ráðstefnuna hefur verið gefin út sem sérprentun úr búnaðarblaðinu Frey. Það er þetta hefti hér, og ef hv. þm. vilja fá sér gagnlegar upplýsingar um kalið og hvað gert hefur verið í kalrannsóknum, þá er nauðsynlegt að fá þetta hefti, sem er sérprentað úr Frey og mun vera fáanlegt hjá Búnaðarfélagi Íslands.

Nefndin gerði m. a. till. um auknar tilraunir á svíði grasræktar, eins og áhrif beitar á gróðurfar og kalþol túna, vinnsluaðferðir við endurræktun kaltúna, eyðingu illgresis með lyfjum úr kölnum túnum, grastegundir og afbrigði í túnrækt svo og tilraunir með djúpplægingu við endurvinnslu kaltúna. Tilraunir þessar voru hafnar á vegum tilraunastöðvanna vorið 1970, og fékk hin nýskipaða nefnd nokkra sérstaka fjárveitingu til sinna starfa, eftir því sem hún taldi nauðsynlegt vera. Landbrn. útvegaði 2 millj. kr. til kaupa á rannsóknartækjum í Rannsóknastofnun landbúnaðarins í því skyni að kanna áhrif veðurfarsþátta á gróður og jarðveg, og er nú verið að festa kaup á þessum tækjum.

Hverjar ráðstafanir eru taldar heppilegastar til varnar kali, kemur m. a. fram í yfirliti kalráðstefnunnar, sem birtist sem sérprentun úr Frey, eins og áður er sagt. Í því yfirliti segir m. a.:

„1. Nútímabúskapur er á margan hátt viðkvæmari fyrir kali en sá, sem áður var rekinn, m. a. vegna þess, að stöðugt er leitað eftir vaxtarmeiri grastegundum og þær örvaðar til meiri sprettu með áburðargjöf. Auk þess hefur ræktunin að nokkru færzt út á lakari landssvæði með tilliti til jarðvegs og annarra vaxtarkjara. Beztu túnstæðin voru tekin fyrst til ræktunar.

2. Rakið er í yfirliti kalráðstefnunnar, hvernig heppilegast sé að haga jarðvali, landvinnslu og frágangi ræktunar.

3. Lögð er áherzla á, að hófleg áburðargjöf sé mikilvæg fyrir þol nytjajurta.“

Við það, sem stendur í yfirlitinu, má bæta eftirfarandi:

Sérstaklega er nauðsynlegt að sjá vel fyrir kalí- og forfórþörf til ræktunar, auk þess sem gæta verður þess, að ekki komi upp skortur á neinu næringarefni, eins og raunin hefur orðið á um brennistein sums staðar á landinu vegna langvarandi notkunar brennisteinssnauðra áburðartegunda. Sama hætta er að nokkru leyti fyrir hendi hvað kalk snertir. Þó hefur enn sem komið er ekki komið fram alvarlegur kalkskortur í tilraununum. Hins vegar er kölkun arðbær sums staðar á landinu á mýrarjarðvegi.

Þá segir í yfirlitinu frá kalráðstefnunni, að í náinni framtíð verði væntanlega völ á fræi af innlendum uppruna, þar sem nú sé í frumræktun erlendis nokkurt úrval íslenzkra stofna. Bent er á, að velja þurfi fræblöndur eftir aðstæðum og fyrirhugaðri notkun ræktunarinnar. Nauðsynlegt sé að hlífa túnum við mikilli beit og seinum slætti. Lögð er áherzla á víðbúnað til grænfóðurræktunar og votheysgerðar í harðindaárum öðru fremur. Við það má bæta, að mikil nauðsyn er á, að grænfóðurræktun sé undirbúin strax að hausti, fræ og jarðvinnsluverkfæri séu tiltæk, jarðvegur undirbúinn og aðstaða til að hefja sáningu snemma vors. Styrkir til grænfóðurræktunar hafa verið teknir upp til að stuðla að framgangi grænfóðurræktunar í landinu, og má geta þess, að styrkur út á grænfóðurræktun fyrir s.l. ár mun hafa numið 7 millj. kr. Í yfirliti kalráðstefnu eru ábendingar um framræslu, jarðvinnslu, sáningu og endurræktun.

Um það, hvað mikið fjármagn þurfi til þess að geta haldið þessum rannsóknum áfram með eðlilegum hætti, þá vil ég geta þess, að með þeim fjárveitingum, sem nú eru fyrir hendi, og þeirri viðbót, sem tekin var upp í fjárlög á þessu ári, er talið, að halda megi rannsóknunum áfram með eðlilegum hætti. Vitanlega tekur þetta nokkur ár, og þetta kostar mikið fé, þegar allt kemur til alls. En það verður að segja, að það hefur verið gert stórátak í þessum rannsóknum nú undir forustu þeirrar nefndar, sem hér hefur verið nefnd, og fjárveitingar hafa verið auknar til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Ég get aðeins getið þess, að árið 1958 voru sambærilegar fjárveitingar til rannsókna í landbúnaðinum 2 millj. 650 þús., en á árinu 1971 17 millj. 488 þús. Að vísu eru það minni krónur, sem nú er um að ræða heldur en 1958, en þótt þessu væri breytt til verðtags ársins 1971, væri þetta vitanlega miklu meiri fjárveiting, og Rannsóknastofnun landbúnaðarins fær þetta fé til rannsóknarstarfsemi sinnar fyrir utan þau laun, sem starfsfólkinu eru greidd.

Það kom fram á aðalfundi Stéttarsambands bænda í haust, að leggja bæri megináherzlu á kalrannsóknirnar, vegna þess að kalið væri ógnvaldurinn við íslenzkan landbúnað. Kalið er landbúnaðinum dýrast af öllu, og þess vegna ber að leggja megináherzlu á kalrannsóknirnar. Það er hægt að leggja áherzlu á kalrannsóknirnar með því fjármagni, sem Rannsóknastofnunin hefur yfir að ráða. Kalráðstefnan á s.l. ári gerði sér grein fyrir því, hvað búið er að vinna í þessum málum og hvernig á að haga vinnubrögðum í framtíðinni, til þess að líklegur árangur geti náðst. Og allir vona, að það takist að vinna bug á þessu, en veðurfarið mun þó ráða mestu þar um, en ástæða er til þess að ætla, að nú fari aftur að hlýna eftir fimm ára kuldatímabil.

Hvað hefur verið gert til þess að tryggja fóðuröflun í landinu? Það má segja, að það sé lítið umfram stóraukna ræktun á hverju ári, sem eru 4–5 þús. ha á ári. Það er hin innlenda fóðuröflun, sem vitanlega verður því dýrari sem kuldinn er meiri, því að það kemur fram í skýrslu frá kalráðstefnunni, að ef hitastigið lækkar um 1 gráðu að meðaltali yfir árið, þá geti það munað 10 hestum af ha í grasvextinum. Og það munar vitanlega mestu, ef kuldinn er á sumrin, og við munum eftir því, hvernig þetta var s.l. sumar, meðalhitinn hér í Reykjavík var 1.7 gráðu undir meðaltali í júlímánuði 1970. Þetta hefur vitanlega afgerandi áhrif á sprettuna og algerlega vonlaust að fá gras undir svona kringumstæðum, nema nota óvenjulega mikinn áburð, og það hefur vitanlega mikinn kostnað í för með sér. En þess má geta, að hér hafa starfað grasmjölsverksmiðjur og ein kögglagerð í Gunnarsholti. Framleiðsla hennar á s. l. ári var 800 tonn. Þá er gert ráð fyrir, að önnur graskögglagerð taki til starfa á komandi vori á Hvolsvelli og hún geti framleitt svipað magn eða kannske 1000 tonn, sem verksmiðjan í Gunnarsholti gæti reyndar gert líka, ef hægt væri að byrja nógu snemma að slá og sjá fyrir nógu grasi. En fóðurkögglarnir líka vel. Það má segja, að litlu meiri þungi fari í fóðureiningu af góðum fóðurkögglum heldur en af mjöli, og tel ég rétt, að slíkar verksmiðjur kæmu víðar, t. d. fyrir norðan, jafnvel fyrir austan. Verksmiðja er í byggingu eða er fyrirhuguð í Dölum, ekki af því opinbera, heldur af hlutafélagi, sem er búizt við, að stofnað verði nú fljótlega og sú verksmiðja verði byggð á þessu ári.

Til viðbótar styrkjum vegna kalsins má geta þess, að Landnám ríkisins greiddi árið 1970 1 millj. 603 þús. kr. vegna kalskemmda í túnum til margra bænda, en greiðslu styrkja þessara hefur nýbýlastjórn ríkisins byggt á ákvæði í 53. gr. laga nr. 75 1962, um stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Slíkir styrkir hafa verið greiddir síðan 1966, en þó mest á árunum 1969 og 1970, og eru byggðir á þessari heimild, og hefur það gert mörgum bændum léttara fyrir með endurræktun. En vegna kalsins og grasleysisins hefur víða verið erfitt um fóðuröflun, og Bjargráðasjóður hefur nú síðustu fjögur árin hlaupið verulega undir bagga hvað þetta snertir. Bjargráðasjóður hefur á fjórum árum greitt í heyflutningastyrki 20 millj. 708 þús. kr., og á þessum fjórum árum hefur Bjargráðasjóður greitt til bænda vaxtataus lán að upphæð 168 millj. 226 þús. kr. Þetta hefur farið til fjölda bænda bæði norðanlands og sunnan, en hæst var upphæðin á árinu 1969, enda var þá bæði kal og óþurrkar, sem fór saman. Þá var þessi upphæð samtals, styrkir og lán, 83 millj. 768 þús., en á árinu 1970 63 millj. 777 þús. Lánin eru til sjö ára og afborgunarlaus fyrstu tvö árin og vaxtalaus, sem vitanlega hefur ákaflega mikla þýðingu.

Ég held, að ég hafi ekki meira að segja í svipinn í sambandi við þessar fsp. Ég vona, að hv. fyrirspyrjandi láti sér þetta nægja, en ef ég hefði flett þessu hefti hér og tekið það markverðasta upp úr því í sambandi við þetta, þá hefði það vitanlega verið fróðleikur, en ég tel ekki ástæðu til þess, þar sem allir hv. alþm. og flestir bændur hafa aðgang að þessum gögnum. Það er ástæðulaust að vera að fara nánar út í það að svo stöddu.