30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í D-deild Alþingistíðinda. (4674)

289. mál, rafvæðingaráætlun Vestfjarða

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. raforkumrh. um rafvæðingaráætlun á Vestfjörðum.

Við vitum, að raforkumálin í sveitum landsins eru mál málanna, og af eðlilegum ástæðum er það brennandi spurning, hvenær fólkið megi búast við að fá rafmagnið. Og þó að farið sé til sérfræðinga eða stofnana hér í bænum og leitað upplýsinga, þá eru svörin frekar lítil, því að það eru viðkomandi ráð, sem eiga eftir að taka ákvarðanir. Þessar spurningar eru í þremur liðum:

„1. Hafa verið gerðar rafvæðingaráætlanir fyrir eftirtalin byggðarlög:

a) Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu,

b) Ísafjarðardjúp,

c) í Strandasýslu: Óspakseyrarhrepp, Fellshrepp, Kaldrananeshrepp?

2. Hve margir bæir á ofangreindu svæði er áætlað, að fái rafmagn frá samveitum árið 1971, og hvenær er áætlað, að rafvæðingu þessara byggðarlaga verði lokið?

3. Hafa verið gerðar áætlanir um nýjar vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum?“