28.01.1971
Efri deild: 42. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

189. mál, lyfsölulög

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Uppi hafa verið umr. um það á undanförnum árum, með hvaða hætti mætti bezt tryggja misnotkun á lyfjasölu og þá í sambandi við umr. um ótta manna við notkun á sérstaklega sterkum lyfjum, t. d. eiturlyfjum, og frv. þetta, sem hér er flutt um breytingu á lyfsölulögunum, er ein grein á þeim meiði, þáttur í þeim tilraunum, sem gerðar eru til þess að auka eftirlit með sölu og dreifingu á lyfjum, og þarf ekki langa framsöguræðu um það. Með þessari breytingu, sem í lögunum felst, hafa mælt formaður lyfjaskrárnefndar og settur landlæknir. Ég hygg, að að öðru leyti skýri frv. sig sjálft. Það er til að auka aðhald með skráningu sérlyfja, sem nokkuð hefur færzt í vöxt á undanförnum árum, að notuð séu, og á vondu máli eru kölluð svonefnd „patent-lyf“ og flutt inn tilbúin erlendis frá. Ég legg því til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.