22.02.1971
Neðri deild: 51. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

155. mál, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar. Kjarni frv. er sá, að stofna skal Útflutningsmiðstöð iðnaðarins, sem stuðla skal að auknum útflutningi iðnaðarvara. Að stofnuninni er fyrirhugað að standi Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Samband ísl. samvinnufélaga, viðskiptaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Flestir eru sammála um það, að skjóta beri fleiri og sterkari stoðum undir íslenzkt atvinnulíf til þess að taka við þeirri fjölgun, sem stöðugt bætist við á vinnumarkaðinn. Í því sambandi gera menn sér mestar vonir um aukningu iðnaðarins, ekki aðeins til heimabrúks eða heimamarkaðs, heldur og ekki síður til útflutnings og gjaldeyrisöflunar. Kunnugt er, að ef koma á upp útflutningsiðnaði, þá er salan á hinn erlenda markað erfiðasti hjallinn. Það er ekki hinn tæknilegi útbúnaður eða framleiðslan, heldur einmitt salan á hinn erlenda markað. Það er erfitt og jafnvel vonlítið fyrir litla og dreifða framleiðendur að koma vöru sinni og nýjum vörumerkjum á erlendan markað og a. m. k. kostar það allt of mikið miðað við þá framleiðslu, sem um er að ræða. Og þetta á við, jafnvel þó að um góða og samkeppnishæfa framleiðslu sé að ræða. Þess skal getið, að á árinu 1968 var komið á fót útflutningsskrifstofu innan vébanda íslenzkra iðnrekenda og starfaði hún nokkuð með stuðningi ríkisins og má segja, að hún hafi gefið mjög góða raun miðað við rekstursaðstæður, en fjárhagsaðstæður voru erfiðar, þó að styrkir hafi síðar farið vaxandi og verið 3 millj. kr. á s. l. ári, og var sú hækkun líður í ráðstöfun ríkisstj. til þess að nýta þá möguleika, sem sköpuðust með EFTA-samningunum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að stórfelldri eflingu á þessari starfsemi og sameiningu fleiri aðila en áður var og verður að teljast hið þarfasta mál. Hvort tveggja er, að fleiri aðilar standa að fyrirhugaðri útflutningsmiðstöð en stóðu að útflutningsskrifstofu iðnrekenda og eins hitt, að vænta má þess, að fjárhagur stofnunarinnar verði líka rýmri. Útflutningsskrifstofan hefur þegar unnið mikilvægt brautryðjandastarf og má því vænta þess, að fyrirhuguð efling starfseminnar skapi skjótan og góðan árangur.

Iðnn. leggur samhljóða til, að frv. verði samþ. og vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.