11.12.1970
Neðri deild: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

119. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er hingað komið frá hv. Ed. og mér er ekki kunnugt um annað heldur en að um það hafi þar verið fullt samkomulag. Það hefur löngum valdið nokkrum erfiðleikum að innheimta hjá barnsfeðrum þau gjöld, sem þeim ber að greiða með óskilgetnum börnum sínum, og raunar einnig börnum fráskilinna kvenna. Undanfarið hefur þetta verið þannig gert, að Tryggingastofnun ríkisins hefur lagt út þetta fé samkv. meðlagsúrskurði og síðan hefur Tryggingastofnun ríkisins snúið sér til sveitarfélaga, þar sem gjaldandinn átti heimili, og fengið endurgreiðslu á þessum meðlögum hjá sveitarfélaginu, sem aftur hefur leitazt við að innheimta þessi meðlög hjá barnsfeðrunum sjálfum. Á þessu hefur þó orðið — ja, ég vil segja mjög mikill misbrestur, þannig að endurgreiðslurnar til Tryggingastofnunar ríkisins beint frá barnsfeðrunum hafa ekki numið nema 3–5% af þessum meðlögum. Sveitarfélögin hafa aftur getað innheimt nokkru meira, en þó þar sem bezt hefur verið ekki yfir 60%, og venjan hefur verið sú, að ekki hefur innheimzt meira en 10–40%, þó að öllum tiltækum ráðum hafi verið beitt.

Á Alþ. í fyrra, 1969, var samþykkt svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða núgildandi lagaákvæði um meðlagsgreiðslur í því skyni að gera reglur um þær einfaldari en þær eru nú. Verði stefnt að því, að endurskoðun þessari ljúki það tímanlega, að unnt verði að leggja fyrir næsta Alþ. till. eða frv. um þetta efni. Leitað verði samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga og þá aðila, er ástæða þykir til, um endurskoðun þessa máls.“

Í þessu frv. felst það nýmæli, að það er stofnuð ný innheimtustofnun sveitarfélaga, sem er eign sveitarfélaganna og hefur það verkefni á höndum að inna af hendi greiðslur til Tryggingastofnunar á því fé, sem hún hefur lagt út til bráðabirgða og endurheimta það svo af barnsfeðrunum sjálfum. Er full ástæða til að ætla, að á þennan hátt náist betri og meiri árangur heldur en þegar sveitarfélögin annast þessa innheimtu sjálf, eins og þessar tölur, sem ég nefndi, bera vitni um, að venjulega innheimtist ekki nema innan við helmingur af þessum gjöldum, ef sveitarfélögin sjálf eiga að annast innheimtuna. Hér er um allháar upphæðir að ræða, þar sem fjöldi barnsmæðra 1968, sem er síðasta árið, sem skýrslur eru til um, var 3700 og fjöldi barna á framfæri þeirra var 5250. Þessar meðlagsgreiðslur hafa numið um og yfir 100 millj. kr. á ári, þannig að greinilegt er, að það er nokkur blóðtaka fyrir fámenn sveitarfélög að annast þessi útgjöld, ef þau lenda á þeim, og þetta er reynt að koma í veg fyrir með því ákvæði frv., að það, sem á vantar, að Innheimtustofnunin geti innheimt fé fyrir öllum útgjöldum Tryggingastofnunarinnar, skuli tekið úr Jöfnunarsjóði. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er eign þeirra og kemur þetta þess vegna óbeinlínis niður á sveitarfélögunum í lækkun þeirra tekna, sem þau fá frá Jöfnunarsjóði, en hins vegar losna þau algerlega við það að hafa þetta mál með höndum og leggja út það fé, sem á vantar. Má segja, að þetta komi kannske í sama stað niður, en allt á kerfið þó að verða einfaldara með þessu mótinu og bæði Jöfnunarsjóður og Innheimtustofnunin eru eign sveitarfélaganna sjálfra.

Ég þarf svo ekki að hafa mörg orð um þetta frekar. Það er greinilegt, að þetta er kjarni frv. Innheimtustofnunin kemur í staðinn fyrir sveitarfélögin sjálf. Þau losna algerlega við þær greiðslur, sem þau hafa haft með höndum út af þessu áður. Það, sem á kann að vanta, að þeir, sem raunverulega eiga að greiða þetta, borgi sjálfir að fullu, greiðir Jöfnunarsjóður. Síðan eru ákvæði um það, hvernig stjórn þessarar stofnunar skuli skipuð og nánari ákvæði nokkur um framkvæmd málsins.

Ég vildi svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.