22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

119. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Eftir að heilbr.- og félmn. hafði skilað áliti um þetta mál og eftir að það hafði verið afgreitt hér við 2. umr., barst n. erindi frá Félagi einstæðra foreldra, þar sem farið er fram á, að gerð verði breyting við 3. gr. frv. þess eðlis, að Innheimtustofnun geti einnig tekið að sér innheimtu á þeim hluta barnsmeðlags, sem hærri er en lögmæltur barnalífeyrir, svo og öðrum kröfum, sem framfærslumaður barns kann að eiga á barnsföður eða barnsmóður, þar með talinn framfærslueyrir hjóna vegna skilnaðar samkv. yfirvaldsúrskurði, skilnaðarbréfi, skilnaðarsamningi eða lögum. Þannig hljóðar efnislega það erindi, sem n. barst. Hún hélt fund um þetta nú eftir hádegi, og varð niðurstaðan sú, að ég mun flytja hér brtt. efnislega samhljóða þessu erindi, en ég skal þó taka það fram, að farið er fram á, að Innheimtustofnun sveitarfélaga verði gert skylt að annast þessa innheimtu, en í lögunum sjálfum er gert ráð fyrir, að Innheimtustofnun geti tekið að sér hvers konar innheimtu fyrir einstök sveitarfélög o. s. frv. og þótti mér því ekki rétt, að tillagan gengi lengra heldur en gert er ráð fyrir í lögum um innheimtu fyrir hönd sveitarfélaga umfram hin lögboðnu meðlög eða greiðslu á hinum lögboðnu meðlögum. En ég vildi sem sagt leyfa mér að leggja þessa tillögu fram hér og fara fram á það við hæstv. forseta, að leitað yrði afbrigða fyrir henni, þar sem hún er of seint fram komin og flutt hér skriflega, en hefur ekki gefizt tími til að afhenda hana til prentunar enn þá. En ég skal taka það fram og undirstrika það, að það kom mjög greinilega fram í n., að ekki er ætlazt til þess, að sá hluti barnalífeyris eða meðlaga og annars kostnaðar, sem þarna er um rætt, verði krafinn úr Jöfnunarsjóði. Það er gert ráð fyrir því, að barnsmeðlög að því marki, sem lög ákveða, skuli Innheimtustofnun geta krafið úr Jöfnunarsjóði, ef þau ekki verða innheimt hjá viðkomandi aðilum, en n. var alveg sammála um það, að sá hluti meðlaga, sem Innheimtustofnunin verður ekki krafin um, skuli ekki krafinn úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Ég tel ekki, að frekari grein þurfi að gera fyrir þessu, en tillagan, sem ég leyfi mér að flytja, með leyfi forseta, hljóðar þannig:

Við 3. gr. Á eftir síðari mgr. komi ný mgr. svo hljóðandi:

„Einnig er Innheimtustofnuninni heimilt, sé þess óskað, að taka að sér innheimtu gegn greiðslu á þeim hluta barnsmeðlags, sem hærri er en lögmæltur barnalífeyrir, svo og öðrum kröfum, sem framfærslumaður barns kann að eiga á barnsföður eða barnsmóður, þar með talinn framfærslueyrir hjóna vegna skilnaðar samkv. yfirvaldsúrskurði, skilnaðarbréfi, skilnaðarsamningi eða lögum.“