19.10.1970
Neðri deild: 3. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og hæstv. iðnrh. gat um, hefur þetta mál verið til umr. um alllangt skeið, s. l. áratug a. m. k. Hafa verið framkvæmdar allmiklar athuganir og kannanir á þessu máli, og þar hefur hlutur ríkisins að sjálfsögðu verið mestur undanfarin ár. Nú er lagt til, að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til þess, að hægt verði að ráðast í enn umfangsmeiri kannanir með því að stofna sérstakt undirbúningsfélag, sem gæti svo e. t. v. þróazt upp í það félag, sem kynni að reisa slíka stöð og reka hana síðar.

Nú getur það vafalaust verið skynsamlegt í sjálfu sér að vinna þannig að þessu, að fela sérstöku undirbúningsfélagi að fjalla um frekari rannsóknir. Þetta er vafalaust mjög umfangsmikið verk og verður ekki unnið að gagni, nema sett verði það skipulag, sem til þarf. En það breytir engu um það, að það hlýtur að verða íslenzka ríkið, sem verður eftir sem áður aðalaðili bæði að því að rannsaka þetta mál og eins að framkvæmdunum, ef úr verður síðar. Þess vegna vil ég vekja athygli manna á því ákvæði, sem stendur í 2. gr. þessa frv., en þar segir svo í síðustu setningunni:

„Þó skal ekki minna en 51% af hlutafé félagsins jafnan vera í eigu ríkisins eða innlendra aðila og stjórn þess skipuð fulltrúum þess eða þeirra að meiri hluta.“

Þarna er ekki tiltekið, að ríkið verði að hafa meiri hluta í þessu félagi. Þarna er ráð fyrir því gert, að innlendir einstaklingar og erlendir aðilar geti haft sameiginlegan meiri hluta í slíku félagi. Þetta held ég, að sé algerlega rangt. Það gefur auga leið og kemur raunar fram í frv., að ríkið verður að leggja til þegar í upphafi verulega fjármuni. Þar er talað um að leggja fram allt að 5 millj. kr. og veita ríkisábyrgð fyrir öðrum 5 millj. Ég held, að enginn geti dregið það í efa, að það verður ríkið, sem leggur til megnið af því fjármagni, sem þarf að leggja fram af okkar hálfu. Og ég held, að við verðum að horfast í augu við þá staðreynd af fullu raunsæi. Það er vissulega rétt, að það er uppi skoðanaágreiningur milli manna um það, hvort heppilegra sé í ýmsum tilvikum ríkisrekstur eða einkarekstur. Hins vegar held ég, að fræðilegar bollaleggingar um það efni megi ekki blinda menn fyrir því, hvar þeir eru staddir í heiminum. Í okkar litla þjóðfélagi er enginn aðili nema ríkið, sem hefur bolmagn til þess að ráðast í slíkar rannsóknir, sem þarna er rætt um, og þaðan af síður að ráðast í sjálfa framkvæmdina.

Þegar rætt er um, að innlendir aðilar, þ. e. a. s. einkaaðilar, geti orðið milliaðili, sem geti tekið meiri hluta af ríkinu, þá vil ég einnig vekja athygli á þeirri hættu, að hreinlega verði stofnuð gervifélög fyrir erlenda aðila. Þetta er mjög auðvelt og það er sjálfsagt að horfast í augu við þá hættu einnig. En ég vil einnig minna menn á þá reynslu, sem hér er af því að reyna að veita einkaaðilum gervivöld í þessu sambandi. Hér var á sínum tíma búið til svokallað hlutafélag um Áburðarverksmiðju ríkisins og um það var talað, að einkaaðilar ættu þar að gegna veigamiklu hlutverki. Allir vita, hvernig þetta fór. Aðild einkaaðila var aldrei annað en gerviaðild. Ríkið varð að leggja til alla fjármuni, sem þarna þurfti, og svo fór að lokum, að Alþingi var það raunsætt, að það breytti lögunum og gerði þetta fyrirtæki að hreinu ríkisfyrirtæki. Ég held, að það sé algerlega augljóst mál, að ef olíuhreinsunarstöð á að verða íslenzkt fyrirtæki, fyrst að meiri hluta til og síðan smátt og smátt algerlega íslenzkt, eins og sagt er í grg., að stefnt sé að, þá er engin leið að framkvæma þá stefnu nema ríkið sé þessi aðili, og þetta verða menn að viðurkenna í verki.

Annað atriði í frv., sem ég vildi gera aths. við, er síðari hluti 3. gr., en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú reynist unnt að koma á fót olíuhreinsunarstöð hér á landi, án þess að fyrirtækinu þurfi að veita sérstaka aðstöðu eða forréttindi með lögum eða lagabreytingum eða fara þurfi í bága við það fyrirkomulag, sem nú er á innkaupum og sölu á olíuvörum hér á landi, og er hlutafélagi samkv. 1. gr. þá heimilt að gerast aðili að samtökum um að reisa og reka stöðina, með þeim skilmálum, sem ríkisstj. leyfir. Að öðrum kosti skal slík aðild óheimil í félaginu nema samþykki Alþingis komi til.“

Þarna er búin til einhver smuga, sem ég átta mig nú ekki á, til þess að hægt sé að stofna hér á Íslandi olíuhreinsunarstöð, án þess að Alþingi verði um það spurt. Ég á erfitt með að sjá, að slík hugmynd sé raunsæ og allavegana held ég, að hún sé algerlega röng. Ég held, að það væri á engan hátt rétt að stofna jafnumsvifamikið fyrirtæki og olíuhreinsunarstöð á Íslandi, án þess að Alþingi yrði ævinlega til kvatt að segja álit sitt um það efni. Því beini ég því til þeirrar n., sem fjallar um þetta mál, hvort ekki væri rétt að fella niður þessa heimild, sem mér finnst vera bæði fráleit og óraunsæ.

Enn eitt atriði vildi ég minnast á í þessu sambandi. Ef stofnað verður slíkt undirbúningsfélag, sem fer með þá fjölþættu rannsókn, sem framkvæma verður, þá er engu að síður nauðsynlegt, að Alþingi geti fylgzt með málinu á öllum stigum. Hér er um afar flókið mál að ræða og alþm. munu þurfa alllangan tíma til þess að átta sig á því, og þess vegna væri það afar nauðsynlegt, að alþm. gætu fylgzt með sjálfum rannsóknunum á öllum stigum og fengju einnig tækifæri til þess að bera fram fsp. og láta kanna viss atriði, sem þeir hefðu áhuga á. Þetta væri t. d. hægt að gera með því að koma á laggirnar sérstakri þmn., sem fylgdist með áframhaldi þessa máls á sama hátt og gert hefur verið í sambandi við ýmis meiri háttar mál önnur, sem uppi hafa verið síðustu árin. Ég vildi beina því til hæstv. ráðh., hvort hann teldi þetta ekki eðlilega skipan.

Um sjálft málið, hvort hagkvæmt sé og skynsamlegt að reisa olíuhreinsunarstöð á Íslandi, mun ég ekki ræða neitt sem heitir á þessu stigi. Þetta er ákaflega fróðlegt mál, og ég tel, að það sé gagnlegt, að það verði kannað til fullrar hlítar. Ég vil samt nú þegar víkja að örfáum atriðum, sem ég hef rekið augun í við að lesa þetta plagg. Í því er m. a. rætt um þann markað fyrir olíuvörur, sem verði á Íslandi í náinni framtíð, og þar er vikið að upphitun húsa. Nú er upphitun mjög verulegur hluti af olíunotkun á Íslandi. Árið 1968 fóru um 20% af olíunni til upphitunar og í áætlun, sem gerð hefur verið og nær fram til ársins 1980, er ráðgert, að það muni haldast svipuð olíunotkun á landinu, þ. e. að hitaveita frá hverasvæðum muni aukast sem svarar fólksfjölguninni, en olíunotkun muni haldast mikið til óbreytt. Hins vegar er sagt í álitsgerðinni, að það sé ekki reiknað með því, að nein aukning verði á raforku til upphitunar.

Nú held ég, að þessi forsenda sé afar hæpin og a. m. k. þurfi að rannsaka það gaumgæfilega, hvort rétt sé að reikna með því, að raforkunotkun til upphitunar fari ekki vaxandi á næstunni. Við erum um þessar mundir að ráðast í miklar stórvirkjanir, sem framleiða mjög ódýra raforku, og um það hefur mikið verið rætt, hvað við Íslendingar getum gert til þess að hagnýta þessa ódýru raforku sjálfir, svo að við verðum ekki ofurseldir því að afhenda hana erlendum aðilum, sem kaupa hana fyrir kostnaðarverð og jafnvel tæplega það. Í þessu sambandi hefur verið mikið rætt um þann möguleika að nota raforku til upphitunar á þeim svæðum, þar sem hveraorka er ekki tiltæk. Og mér er kunnugt um það, að margir sérfræðingar telja, að þetta væri skynsamlegur kostur. En það er algerlega óhjákvæmilegt að athuga þennan kost í sambandi við hugmyndirnar um olíuhreinsunarstöð á Íslandi, því að ef við komum upp olíuhreinsunarstöð á þeim forsendum, að við getum notað svo og svo mikið af olíu til upphitunar, þá erum við að loka fyrir þann möguleika, að við getum notað raforkuna í þessu skyni. Ef við hins vegar ákveðum að nota raforkuna í þessu skyni, þá erum við um leið að raska þeim grundvelli fyrir olíuhreinsunarstöð, sem menn hafa reiknað með fram að þessu, þannig að þetta er atriði, sem ég tel, að verði að íhuga og athuga og kanna miklu gaumgæfilegar en hingað til virðist hafa verið gert.

Ég rak einnig augun í það í þessu frv., að þar er um það talað, að olíufélögin eigi að annast dreifingu á olíuvörum á sama hátt og tíðkazt hefur að undanförnu. Þetta finnst mér afar einkennileg yfirlýsing. Ég held, að það sé mál margra manna, að einmitt dreifing á olíunni sé eitt furðulegasta fyrirbærið í verzlunarháttum á Íslandi. Það vita það allir, að þar er haldið uppi þreföldu dreifingarkerfi með mjög miklum, óþörfum tilkostnaði, með of miklu skrifstofubákni, of mikilli fjárfestingu og því skipulagi, að bílar frá mismunandi félögum elta hver annan út um holt og grundir. Þessi yfirfjárfesting og yfirskipulagning á þessu sviði er þeim mun fráleitari sem þessi félög selja öll sömu vöruna og það er ekki hægt að réttlæta þessa skipan með því, að nein samkeppni sé á milli þessara félaga, því að á milli þeirra er samkomulag, eins og allir vita eins konar einokunarsamkomulag. Ég held, að það hefði verið eitt það sjálfsagðasta, sem vert hefði verið að athuga í sambandi við olíuhreinsunarstöð á Ísland að skipuleggja á nýjan leik dreifinguna og gera hana hagkvæmari og skynsamlegri. Ég held, að það sé ekki rétt að gefa sér þær forsendur, að dreifingunni eigi að haga á sama hátt og gert hefur verið að undanförnu.

Enn eitt atriði langar mig til þess að minnast á, og það er sú staðreynd, að olíuhreinsunarstöðvum fylgir mjög mikil mengun. Þetta vita allir, sem hafa heimsótt slíkar stöðvar erlendis, að þeim fylgir alveg sérstakur sóðaskapur og auk þess fylgir þeim mikil hætta á mengunarslysum. Við höfum verið blessunarlega lausir við mengun hér til skamms tíma, en við verðum að gefa þessu atriði gaum í fullri alvöru. Ef í ljós kemur, að það sé hagkvæmt fyrir okkur að eiga og starfrækja olíuhreinsunarstöð þá verðum við að reikna með því, að við verðum að velja henni stað, þar sem mengunarhættan er minnst og þar sem minnst hætta er á mengunarslysum. Þess vegna hlýtur það að verða liður í þessu dæmi að ákveða, hvaða staður geti komið til greina, vegna þess að staðarákvörðun geta fylgt ýmis önnur vandamál, t. d. það, hvort það þurfi að byggja sérstök hafnarmannvirki og hvaða kostnaður verður vegna flutninga, svo að þetta geta verið allverulegar upphæðir, sem þarna er um að ræða. Því verður að íhuga þessa hlið málsins, mengunina, þegar í upphafi einnig og taka hana inn í dæmið.