10.03.1971
Neðri deild: 59. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft þetta mál til athugunar og m. a. rætt við þá Guðmund Magnússon prófessor og Ágúst Valfells verkfræðing, en þeir hafa aðstoðað iðnrn. á ýmsan hátt við undirbúning þessa máls. Með frv. er að því stefnt, að ríkisstj. beiti sér fyrir stofnun hlutafélags, er hafi það að markmiði að kanna aðstæður til þess að reisa og reka olíuhreinsunarstöð hér á landi og stuðla að því, að slíku fyrirtæki verði komið hér á stofn. Er ríkisstj. heimilað að leggja fram 5 millj. kr. hlutafé og veitt er ríkisábyrgð fyrir láni allt að 5 millj. kr.

Þó að þegar hafi verið mikið undirbúningsstarf unnið í þessu sambandi, þá verður enn að framkvæma mikið og kostnaðarsamt undirbúningsstarf til viðbótar og rannsóknir. Um marga valkosti er að ræða, sem hver um sig getur haft sína kosti og sína galla. Ef stærð stöðvarinnar væri miðuð svona nokkurn veginn við íslenzkan markað eingöngu, er talið, að 300–350 manns þyrfti til byggingarframkvæmda í 2–3 ár, en síðan um 150 manns til rekstrar stöðvarinnar, svo að um verulegan gjaldeyrissparnað yrði að ræða, yrði miðað við 670 þús. tonna hreinsunarstöð.

Meiri hl. n. eða n. öll að undanskildum hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðssyni, leggur til, að frv. verði samþ., en iðnn. öll leggur til tvær brtt. á sérstöku þskj. Er þar um að ræða breytingu við 2. gr. Frv. gerði ráð fyrir, að ríkið og aðrir innlendir aðilar legðu fram a. m. k. 51% hlutafjár, en brtt. gerir ráð fyrir, að ríkið eitt leggi fram a. m. k. 51% og hafi þá ítök í stjórn fyrirtækisins samkvæmt því. Enn fremur er við gr. bætt, að skipa skuli n. þriggja sérfróðra manna, tilnefnda af framkvæmdanefnd rannsóknarráðs, til þess að athuga mengunarhættu, er stafa kann af slíkri stöð, og skal hún skila áliti áður en ákvörðun er tekin um byggingu stöðvarinnar.

Við 3. gr. er lagt til, að síðari mgr. verði felld niður, en það þýðir, að málið verður að koma aftur fyrir Alþ., áður en endanleg ákvörðun er tekin um byggingu olíuhreinsunarstöðvarinnar.

Meiri hl. n. leggur til, herra forseti, að frv. verði samþ. með þessum breytingum, og n. mælir öll með brtt.