24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

7. mál, olíuhreinsunarstöð

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um olíuhreinsunarstöð á Íslandi, 7. mál Nd., hefur verið til athugunar í iðnn. Frv. er borið fram af hæstv. iðnrh. og kveður á um, að stofna skuli til hlutafélags, sem hafi það að markmiði að kanna aðstæður til að reisa og reka olíuhreinsunarstöð hér á landi. Umr., er lúta að stofnsetningu olíuhreinsunarstöðvar, hafa staðið hér á landi s. l. 10 ár, en með frv., sem lagt var fram einnig á síðasta Alþ. og nú er endurflutt, má segja, að áhugi hafi aukizt á þessu máli. Forathugun þessa máls hefur verið mjög margþætt eins og skýrslur, sem fylgja með frv., bera með sér, en þar er að finna mikinn fróðleik bæði um olíunotkun landsmanna og tæknileg efni í því sambandi, eins og t. d. um að fiskveiðifloti Íslendinga gæti hugsanlega tekið í notkun ódýrari olíutegundir og þar með sparað gjaldeyri svo tugum millj. skiptir. Lagafrv. þetta gerir ráð fyrir, að ríkisstj. hafi heimild til að leggja 5 millj. kr. í þetta fyrirhugaða könnunarfélag og hafi auk þess heimild til að ábyrgjast aðrar 5 millj. eða jafnvirði þess í erlendri mynt. Samkv. 2. gr. frv. var gert ráð fyrir, að eign ríkissjóðs og innlendra aðila væri minnst 51% af hlutafé félagsins. Nd. breytti þessu þannig, að minnst 51% yrði í eigu íslenzka ríkisins. Þá gerði Nd. þá breytingu við 3. gr., að síðari málsgr. var felld niður, þannig að eins og frv. er nú, verður að bera málið að nýju undir Alþ., ef af yrði og komizt yrði að þeirri niðurstöðu, að rétt þætti að stofna til slíks iðnaðar hér á landi. Þá bætti Nd. í 2. gr. frv., að ráðh. skipi n. þriggja sérfróðra manna, sem afli upplýsinga um mengunarhættu, sem stafa kann af olíuhreinsunarstöð. N. þessi skal tilnefnd af framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins.

Eins og ég tók fram í upphafi, er saga þessa máls nú orðin nokkuð löng og skal það ekki rakið nánar, en vísað til grg. með frv. og skýrslu þeirrar, sem hv. alþm. var afhent á síðasta hausti, skýrslu, sem er dags. í maímánuði 1969 og er frá iðnrn. Á þessu stigi málsins er algerlega útilokað, enda ekki ætlazt til þess, að hv. alþm. taki afstöðu til þess, hvort byggð yrði olíuhreinsunarstöð hér á landi og enn síður um stærð slíkrar stöðvar. Hér er aðeins um að ræða stofnun könnunarfélags til rannsóknar á þessu veigamikla máli. Enn síður er nokkuð, sem mælir með því, að hv. alþm. myndi sér nú skoðun um staðsetningu slíkrar verksmiðju. Mér finnst rétt, að þetta komi fram, þar sem hv. 3. þm. Vestf. lét svo um mælt við 1. umr. þessa máls hér í þd., að æskilegt væri, að verksmiðjan framleiddi meira en 1 millj. tonna á ári, þyrfti jafnvel að afkasta þrem millj. tonna og staðsetning við Straumsvík væri einna efnilegust. Að sjálfsögðu er þetta meðal þeirra rannsóknarefna, sem þetta könnunarfélag eða sérfræðingar, sem það kveður til, á að kanna. Sama má einnig segja um mengun frá slíkri starfrækslu. Menn gera sér ljóst, að nú á þessum mestu mengunartímum verður þetta mál ítarlega kannað og ekki anað að neinu, enda ekki ástæða til þess að óttast svo mjög um slíka hættu frá olíuhreinsunarstöð, og vísast þar til upplýsinga, sem hæstv. iðnrh. gaf hér í þessari þd. við 1. umr. málsins. Á þskj. 618 skilar iðnn. áliti og mælir með þessu frv., en nm. áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt. við frv. Einn nm., hv. 5. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, var fjarstaddur við afgreiðslu málsins.